Á ráðstefnu RÚV í dag kynnti Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri stefnu RÚV til næstu ára. Áhersla á leikna dagskrárgerð verður aukin enn frekar – meðal annars með stofnun sérstaks dramaráðs, sérstaklega verður hugað að því að ná til yngri kynslóða með þróun nýrra miðlunarleiða og dagskrárefnis og þá verður sérstakt hugmyndatorg (pitch session) haldið tvisvar á ári. Tilkynnt verður um ráðningu handritaráðgjafa á morgun.
Áhorfandinn í fyrirrúmi
Hér áður fyrr var viðmiðið í bæði kvikmynda- og sjónvarpsheiminum að dreifingin væri lykilatriði í því að ná til áhorfenda, en það færðist síðan yfir í að innihaldið væri kjarni málsins (“content is king”). Nú er hinsvegar rætt um að allt snúist um áhorfandann, sem í dag hefur gríðarlegt val gegnum ólíkar dreifingarleiðir myndefnis. Það þýðir að flóknara en áður er að nálgast ólíka hópa og mæta þannig meðal annars kröfum um almannaþjónustu.
Í stefnunni má þannig greina sterkar áherslur á að takast á við breytt miðlunarumhverfi og þá sérstaklega að ná til yngri kynslóða, sem hafa dregið verulega úr línulegu áhorfi en um leið aukið áhorf sitt gegnum aðra miðlun hverskonar. Þá er einnig að finna áherslur á nánara samtal og samstarf við hin fjölbreyttu svið samfélagsins.
Stefnu RÚV til 2012 má kynnast í sérstökum bæklingi hér að neðan, en helstu liðirnir eru:
- LEIKIÐ EFNI OG MENNINGAREFNI: Stórsókn í gerð leikins íslensks efnis, efling RÚV-mynda.
- FRÉTTIR: Snarpari og dýpri fréttaumfjöllun, m.a. með nýjum fréttaskýringaþætti og nýju fréttahljóðveri.
- ÞJÓNUSTA: Bætt þjónusta við ungt fólk, m.a. með því að efla KrakkaRÚV og stofna sambærilega deild sem mætir þörfum ungs fólks. Bætt þjónusta við nýja Íslendinga. Sérstakur menningarvefur opnaður í haust.
- SAMTAL: Virkja og hvetja samfélagið og stuðla að framþróun fjölmiðlunar á Íslandi með auknu samstarfi og samtali við ólíka aðila í samfélaginu, m.a. með því að opna aðstöðu fyrir sjálfstæða framleiðendur, með opnari hugmyndaþróun og áherslu á viðburði sem sameina þjóðina alla.
- AÐGENGI: Nýr spilari opnar á vefnum í haust.
- GULLKISTAN: Á komandi árum verður almenningi gefinn kostur á að leita í þessum menningararfi í safni RÚV og á vef.
Það sem snýr að bransanum sérstaklega
Auðvitað má segja að flest það sem RÚV tekur sér fyrir hendur komi bransanum við, enda flestir sem honum tilheyra að vinna efni fyrir RÚV á einhverju stigi, hvort sem er utanhúss eða innan. En það sem vekur kannski sérstaka athygli er eftirfarandi:
LEIKIÐ EFNI: Væntanlegur handritaráðgjafi mun vera verkefnisstjóri RÚV-mynda, einskonar dramaráðs, en dagskrárstjóri tekur eftir sem áður hinar endanlegu ákvarðanir og starfar með ráðinu. Tilkynnt verður um ráðningu handritaráðgjafa á morgun og aðrir meðlimir ráðsins verða kynntir í næstu viku. Dramaráðið mun taka til faglegrar meðferðar öll leikin verkefni, stór og smá. Stefnt er að því að bjóða uppá 2-3 leikin verkefni af ýmsum stærðargráðum ár hvert og miðað við að RÚV leggi fram í kringum 200 milljónir króna á ári í slík verkefni. Vegna langs þróunar- og vinnsluferlis verður skipulagning leikins efnis að jafnaði unnin 3-4 ár fram í tímann. Þá gera stjórnendur RÚV ráð fyrir því að dramaráðið svokallaða sé vísir að dramadeild þegar horft er til lengri tíma og að starfsemin þróist áfram og taki breytingum eftir því sem meiri reynsla fæst. Þá mun RÚV-sala sjá um sölu efnis RÚV erlendis og meðal annars í samstarfi við DR SALES. Einnig verður sjálfstæðum framleiðendum og öðrum sjónvarpsstöðvum boðið samstarf um sölu á efni erlendis.
HUGMYNDATORG (PITCH SESSION): Samskipti bransans við RÚV varðandi viðræður um möguleg verkefni verða áfram með sama sniði og áður, en við bætist sérstakt hugmyndatorg sem verður haldið tvisvar á ári. Markmið þess verður að kalla eftir hugmyndum frá bæði bransanum sem og öðrum skapandi greinum um hverskonar verkefni, auk þess sem almenningi býðst að leggja fram hugmyndir. Settur verður fram tiltekin rammi og viðmiðunarreglur varðandi þessa fundi. Hugmyndin er að annar fundurinn verði opinn hverskyns hugmyndum en hinn tileinkaður skilgreindum tegundum efnis sem RÚV mun kynna fyrirfram.
VINNSLA: Stefnt er að því að taka nýtt fréttastúdíó í notkun vorið 2018. Þetta þýðir meðal annars að sjálfstæðir framleiðendur munu geta leigt STÚDÍÓ A með allri aðstöðu til sinna verkefna.
Sjá umfjöllun um stefnuna á vef RÚV hér.
Sjá bækling um stefnuna hér.