Kvikmyndaskólinn greiðir úr rekstrarvanda

Kvikmyndaskóli Íslands hefur átt í nokkrum rekstrarvanda undanfarna mánuði en aðstandendur hans sjá fram á úrlausn þeirra mála um þessar mundir. RÚV fór yfir málefni skólans á dögunum og ræddi meðal annars við Böðvar Bjarka Pétursson, eiganda skólans og nokkra stundakennara.

Á vef RÚV segir:

,,Það sem vantaði upp á launagreiðslur, bæði verktaka og fastra starfsmanna, var á milli þrjár til fjórar milljónir króna,‘‘ segir Böðvar Bjarki Pétursson stjórnarformaður og eigandi Kvikmyndaskóla Íslands. Kvikmyndaskóli Íslands hefur síðast liðna tvo mánuði átt við rekstrarvanda að stríða og ekki greitt starfsfólki sínu laun á réttum tíma. Svo virðist sem það sé mismunandi milli starfsfólks hvenær það fékk greitt.

Jörundur Rafn Arnarson, deildarforseti yfir Skapandi Tæknideild, segir að starfsfólk í fastri stöðu hafi flest fengið greitt síðustu mánaðamót en þó séu einnig undantekningar þar á. Sjálfur fékk Jörundur greitt en hann segist ekki vera bjartsýnn á framvindu mála. Hafsteinn Gunnarsson, leikstjóri og kennari við skólann, segist hafa fengið greitt fyrir marsmánuð nýlega og býst við að fá greiðslu fyrir aprílmánuð um mánaðamót.

,,Ég fékk sem sagt loksins greitt í gær, sem var fyrir vinnu í mars sem átti að greiða síðustu mánaðamót. Ég var búinn að leggja niður vinnu í tvo daga en ætla að hitta mína nemendur í dag,‘‘ segir Hafsteinn og bætir við að hann búist við greiðslu fyrir aprílmánuð á þriðjudaginn ef allt gengur að óskum. Hafsteinn er einn af kennurum skólans en þeir eru titlaði stundakennarar og eru á verktakalaunum.

Rót vandans

Síðustu tvö mánaðamót dróst að hluti verktaka fengi borgað og er rekstrarstaða skólans búin að vera þó nokkuð erfið. Á heimasíðu kvikmyndaskólans kemur fram að skólagjöldin haldi uppi um 60 prósent af kennslukostnaði. Skólinn er fjórar annir og eru skólagjöld í skólann 700 þúsund krónur fyrir nýnema á fyrstu önn en síðan lækkar gjaldið niður í 600 þúsund krónur fyrir hinar annirnar og er hámarksfjöldi í hverjum bekk tólf nemendur.

Rót vandans að mati Böðvars Bjarka, er að 80 prósent tekna komi inn í ágúst og september þegar skólagjöldin eru greidd. Hann nefnir að opin lánalína hafi fengist fyrir stuttu til að jafna út sjóðsstreymið. Lánalínan sem Böðvar á við kemur frá fjármagnsfyrirtæki sem Böðvar segir að sé að aðstoða við reksturinn. Fjármagnsfyrirtækið kallast A Faktoring og var það eitt af þeim fyrirtækjum sem þeir biðluðu til um ,,fjármálaþjónustu‘‘ líkt og Böðvar orðaði það. Böðvar segir í samtali við fréttastofu að fyrirtækið hafi greitt þeim 20 milljónir króna í formi opins láns.

,,Við erum að fá 20 milljónir til að byrja með og svo verður þessi lánalína opin og spilar með skólagjöldunum til að halda sjóðsflæðinu í lagi. Þetta tryggir okkur út árið og eðlilega framvindu skólans,‘‘ segir Böðvar.

Sagan endurtekin

Kvikmyndaskólinn er eins og áður sagði í eigu Böðvars Bjarka Péturssonar sem er einnig stofnandi skólans og situr jafnframt í stjórn hans. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kvikmyndaskólinn skuldar starfsfólki sínu laun en í ágúst árið 2011 var greint frá því að skólinn skuldaði 38 milljónir króna í laun en samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins frá þessum tíma, skuldaði fyrirtækið 130 milljónir.

Í samtali sem fréttastofa átti við Böðvar Bjarka segist hann ekki kannast við að skuldin hafi verið svo há. Hann minni að hún hafi verið meira í kringum 90 milljónir þegar mest var. Skuldir fyrirtækisins núna eru, samkvæmt Böðvari, um 40 milljóna króna rekstrarskuldir.

,,Nú er komin lausn og er verið að greiða upp allar launaskuldir í næstu viku, ‘‘ segir Böðvar og nefnir jafnframt að fast starfsfólk hafi komið betur út úr þessu ástandi en verktakar.

Í október 2011, stuttu eftir að Menntamálaráðuneytið hafði gert styrktarsamning við skólann, kröfðust nemendur og kennarar að Böðvar myndi víkja sem stjórnarformaður skólans. Töldu þau að afsögn hans myndi tryggja sátt innan skólans þar sem kennarar höfðu hótað að hætta ef Böðvar sæti enn í stjórn. Ekki kom til þess og segir Böðvar að erfitt hafi verið að stíga frá þar sem ábyrgðin lægi hjá honum.

„Skólafaglegar deilur“

Grundvöllurinn að þessum ágreiningi árið 2011 var að mati Böðvars, ekki einungis vegna skuldavandans heldur einnig vegna skipulagsbreytinga sem áttu sér stað árinu á undan. Deilurnar hafi verið meira skólafaglegar, líkt og Böðvar orðar það, heldur en eitthvað annað. Böðvar segir að skólinn sé í raun einn ,,útteknasti‘‘ skóli Íslands.

Árið 2010 tók ráðuneytið til endurskoðunar skipulag kvikmyndaskólans varðandi kvikmyndamenntun í landinu. Í stofnanaúttekt sem Capacent gerði var farið ofan í kjölinn á ýmsum málefnum er starfsemi skólans varðaði, allt frá fjárhagi til ýmissa úrbóta í skipulagi.  Þar kom meðal annars fram að fjárhagsstaða skólans væri ekki sterk.

Samningur við Menntamálaráðuneytið

Kvikmyndaskólinn gerði þjónustusamning við Mennta- og menningarmálaráðuneytið árið 2015.  Samningurinn er til þriggja ára og rennur út í lok árs 2018. Samkvæmt honum greiðir ríkið skólanum 80 milljónir króna árlega og sú krafa er gerð að fyrirtækið styrki eiginfjárhagsstöðu um 20 milljónir á þessum tíma með hlutafjáraukningu.

Trúnaðarbrestur hjá starfsfólki

,,Þetta er heiðarlegt fyrirtæki sem hefur ekkert að fela,‘‘ segir Böðvar. Hann viðurkennir þó að ástandið núna hafi vissulega áhrif á traust innan skólans. ,,Það verður alltaf einhver trúnaðarbrestur og okkar hlutverk að vinna aftur traustið. Fyrsta skrefið er að koma öllu aftur í gang,‘‘ segir Böðvar og segir að ástandið hafi aðeins haft lítil áhrif á starfsemi skólans. Böðvar leggur jafnframt áherslu á að á bak við fyrirtækið standi gott fólk.

Í lok næsta árs á skólinn að vera skuldlaus segir Böðvar en að vissulega hafi of lítil fjárveiting áhrif á reksturinn.

Sjá frétt RÚV hér: Lausn í formi láns: Skuldir Kvikmyndaskólans

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR