spot_img

Hlín Jóhannesdóttir skipuð rektor Kvikmyndaskóla Íslands

Hlín Jóhannesdóttir framleiðandi tók við stöðu rektors Kvikmyndaskóla Íslands af Berki Gunnarssyni þann 1.september síðastliðinn.

Hlín hefur verið fagstjóri framleiðsludeildar, starfsmannastjóri og konrektor Kvikmyndaskóla Íslands um árabil. Hún hefur framleitt fjölda kvikmynda á ferli sínum, nú síðast ásamt Lilju Ósk Snorradóttur kvikmyndina Tilverur, frumraun Ninnu Pálmadóttur, sem frumsýnd er á Toronto hátíðinni í dag, 8. september. Einnig var hún framleiðandi kvikmyndarinnar Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson, sem sýnd var fyrr á árinu.

Hlín er settur rektor fram í janúar 2024 og tekur við starfinu meðan skólinn er í miklum vexti, en hann hefur aldrei haft jafn margar námsbrautir í gangi sem nú.

Börkur Gunnarsson, sem nú hefur látið af störfum sem rektor Kvikmyndaskólans, hefur verið með annan fótinn í Úkraínu frá því í sumar, þar sem hann hefur unnið að gerð heimildamyndar sem fjallar um menningarbreytingar sem þar eru að gerast. Börkur, sem hefur oft komið til Úkraínu, var kominn þangað skömmu eftir að stríðið braust út í fyrra og hefur komið reglulega síðan til að fylgjast með breytingunum í landinu. Hann mun snúa aftur til starfa sem kennari og fagstjóri í Kvikmyndaskólanum á næsta ári.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR