Ráðherra háskólamála heimsækir Kvikmyndaskóla Íslands

Aðstandendur Kvikmyndaskóla Íslands tóku á móti ráðherra háskóla-, iðnaðarmála og nýsköpunar, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, síðastliðinn mánudag.

Áslaug Arna kíkti í tíma hjá Þorsteini Bachmann leikara, þar sem hann kenndi leiklistarnemum hvernig gera skal leikaraprufur fyrir hlutverk með því að taka sjálf upp myndband án mótleikara. Mun þetta orðið algengt í leikaraprufum í dag og þannig geta leikarar til að mynda tekið þátt í prufum fyrir stór Hollywood verkefni hvar sem þau eru stödd á hnettinum.

Síðan hitti ráðherra handritshöfunda og leikstjóra sem eru að klára lokaverkefni sitt, enda útskrift fyrir þessa önn Kvikmyndaskólans á næsta leiti.

Loks var farið í kvikmyndasal skólans þar sem málefni skólans voru rædd. Áslaug Arna sagði heimsóknina hafa verið ánægjulega og henni væri ljóst hvað skólinn væri íslenskum kvikmyndaiðnaði mikilvægur. „Fræðandi og áhugaverð heimsókn,“ sagði ráðherrann. „Virkilega ánægjulegt að sjá þetta unga fólk að læra þessa mikilvægu iðn.“

Unnið að færslu yfir á háskólastig

Nú eru liðin þrjú og hálft ár síðan Kvikmyndaskóli Íslands sótti formlega um að færast upp á háskólastig og þar með úr ráðuneyti mennta- og barnamála og yfir í ráðuneyti háskólamála sem Áslaug Arna stýrir nú.

Síðasta haust gerði nefnd alþjóðlegra sérfræðinga úttekt á Kvikmyndaskólanum og var niðurstaðan sú að nefndin staðfesti að nám og kennsla skólans sé á háskólastigi. Nefndin taldi hinsvegar ekki að skólinn væri tilbúinn í að bera nafnið háskóli fyrr en að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem hún útlistaði og Kvikmyndaskólinn hefur notað síðustu mánuði í vinnu til að uppfylla.

Nefndin var skipuð Dr. Stephen Jackson, Bretlandi, Dr. Christinu Roznyai, Ungverjalandi og Ralph A. Wolff frá Bandaríkjunum en öll eru þau sérfræðingar í gæðakerfum háskóla.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR