Ekko um SVAR VIÐ BRÉFI HELGU: Jarðbundinn sjarmi og lágstemmmdur húmor

Svar við bréfi Helgu eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur er nú í sýningum í Danmörku. Rikke Bjørnholt Fink hjá Ekko gefur myndinni fimm stjörnur af sex í lofsamlegum dómi.

Fink skrifar:

Í litlu íslensku samfélagi við fjörð fjarri Reykjavík býr Bjarni bóndi ásamt Unni konu sinni.

Til að brjóta upp bústörfin starfrækir hann leshring ásamt hópi fólks úr sveitinni, þar sem þau deila sameiginlegri ást sinni á bókmenntum. Í leshringnum er einnig hin fallega en óhamingjusamlega gifta Helga. Fljótlega fara þær sögusagnir af stað að Helga og Bjarni eigi í ástarsambandi.

Í fyrstu er þetta lygi en dag einn kemur í ljós að þetta er rétt og skyndilega veit allt samfélagið, að mökum þeirra meðtöldum, að nágrannarnir tveir skiptast á ýmsu öðru en ráðgjöf bændasamtakanna um sauðfjárrækt.

Bréfið frá Helgu er nokkurn veginn línuleg frásögn, en hleypur stundum frá þeirri uppbyggingu með stuttum leiftrum frá fortíð og framtíð.

Stundum fær maður það á tilfinninguna að síðar á ævinni hugsi Bjarni til baka til samverustundanna með Helgu. Að öðru leyti þorir maður að sverja að gamli maðurinn sé einfaldlega fulltrúi hugmynda Bjarna um hvernig hann muni síðar hugsa til baka á þeirri stundu.

Myndin hverfur stundum inní draumasenur, fantasíur og endurlit. Við erum á ferðalagi inn í vitund Bjarna og reynslu hans.

Eitt merkilegasta augnablikið er sjálfsfróunarsena í íslenskri náttúru. Allt í einu áttar maður sig á því hversu sjaldan er unnið með kynferðislegar fantasíur fullorðins manns sem eitthvað fallegt og hreint.

Íslensk náttúra leggur sögunni lið á þann hátt sem aldrei væri hægt að bæta. Og sama hversu fjarlægur maður er sveitalífinu, þá er ekki erfitt að skilja hvers vegna persónur myndarinnar finnst þær tengjast firðinum og líta lífið í Reykjavík – og jafnvel víðar – hornauga.

Þó Svar við bréfi Helgu sé stútfull af bókmenntavísunum heldur hún jarðbundnum sjarma og lágstemmdum húmor sem lyftir upplifuninni á hærra plan.

Hér er bæði pláss fyrir ljóðaupplestur og vandræðaleg augnablik, eins og þegar Helga og Bjarni reyna að finna eitthvað til að spjalla um á meðan kindurnar maka sig í kring.

Bjarni er hjálpsamur og skemmtilegur maður sem hvorki skortir húmor né gáfur. Helga er rómantísk og nútímaleg en þó ekki meira en svo að hún er trúverðug sem bóndakona.

Maður kann vel við þau saman, ekki síst vegna sterkrar kemistríu Þorvaldar Kristjánssonar og Heru Hilmars.

Eiginmaður Helgu, Hallgrímur (Björn Thors), er óaðlaðandi, líklega ótrúr, gjarnan örlítið ölvaður og oft í burtu.

Samt er ekki víst að Bjarni fari frá konu sinni. Unnur er ímynd hins brothætta kvenleika með sínum fullkomnu krullum og handavinnu. Á sama tíma býr hún yfir meiri styrk en nokkur annar í sögunni. Hún á einnig í vandræðum með bæði frjósemi og kynlöngun vegna inngrips í kviðinn. Óvíst er um gang sjúkdómsins og því virðist framhjáhald Bjarna enn ábyrgðarlausara.

Svar við bréfi Helgu er perla, brothætt ástardrama sem stendur föstum fótum í landinu og er um leið þakin fegurð eldfjallaeyjunnar.

HEIMILDEkko
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR