spot_img

“Innsæi” dreift á alþjóðlegum efnisveitum

Hrund Gunnsteinsdóttir og Kristín Ólafsdóttir, höfundar Innsæis.

Gengið hefur verið frá samningum um sýningar heimildamyndarinnar Innsæi-the Sea within í nokkrum af stærstu efnisveitum heims; Netflix, Vimeo on demand og Amazon Video.

Netflix mun hefja dreifingu myndarinnar á heimsvísu þann 15. júlí næstkomandi og verður hún þannig aðgengileg áskrifendum í þeim 190 löndum þar sem þjónustan er í boði. Netflix er með mörg markaðssvæði og í flestum tilfellum er efni einungis selt til ákveðinna svæða hverju sinni en ekki til allra svæða í einu.

Kristín Ólafsdóttir, framleiðandi og annar höfunda myndarinnar, segir þetta í fyrsta sinn sem íslensku efni sé dreift á Netflix á heimsvísu:

Innsæi er búin að vera aðgengileg á Netflix í Suður-Ameríku frá áramótum og á Netflix í Norður-Ameríku síðan í febrúar. Þar hefur hún fengið mjög góð viðbrögð og hafði Netflix þá samband og vildi dreifa henni á öllum mörkuðum Netflix.”

Innsæi er einnig fáanleg til leigu eða kaups á efnisveitunni Vimeo on demand um allan heim nema í Bandaríkjunum og Kanada eins og sakir standa. Þá er einnig hægt að nálgast myndina á sama hátt á streymisveitusvæði Amazon í Bretlandi, Japan og Þýskalandi.

“Kvikmyndaiðnaðurinn er smám saman að færa sig meira og meira frá DVD forminu og yfir á stafrænar dreifingarleiðir. Þessir þrír markaðir sem Innsæi er nú aðgengileg á í gegnum Amazon eru í senn stórir og mikilvægir. Ég hlakka til dæmis mjög mikið að sjá hvernig Japanir bregðast við myndinni,”

segir Kristín.

Innsæi var heimsfrumsýnd í Berlín í júní á síðastliðnu ári og frumsýnd á Íslandi í október á RIFF. RÚV sýndi hana um nýliðna páska, en hún hefur einnig verið sýnd á kvikmyndahátíðum, almennum sýningum og sjónvarpsstöðum víða um heim.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR