Sýningar á spennumyndinni Ég man þig eftir Óskar Þór Axelsson hefjast í dag. Myndin er byggð á samnefndri metsölubók Yrsu Sigurðardóttur og merkja má allmikla eftirvæntingu hjá almenningi gagnvart verkinu. Það er því líklegt að hún fái góða aðsókn en spurningin er hvaða áhrif fyrsta blíðviðrishelgi ársins muni hafa á opnunartölurnar.
Ætla mætti að undir eðlilegum kringumstæðum ætti myndin að opna í ca. 6-7 þúsund manns, sem er sambærilegt við til dæmis Vonarstræti en hún var frumsýnd á svipuðum tíma fyrir þremur árum (opnunartölur: 7.671 gestir – heildaraðsókn: 47.982 gestir). Hinsvegar er blíðviðri um helgi stór áhrifaþáttur og gæti temprað fyrstu tölur niður í 4-5 þúsund. Þá er einnig hugsanlegt að Eurovision hafi áhrif á vikuna sem framundan er, ekki síst ef Svölu tekst að komast í úrslitin annan laugardag.
Á hinn bóginn er ljóst að myndin hefur skírskotun til frekar breiðs aldurshóps, einnig þess yngri sem jafnan er fyrstur að drífa sig í bíó (það er rétt að taka fram að myndin er bönnuð innan 16 ára). Eldri hópar skila sér yfirleitt síðar, en hafa þarf í huga að bókin á sér marga aðdáendur í því mengi og forvitni um útkomuna á tjaldinu mun draga marga þeirra í bíó.
Það er því líklegt að myndin muni ganga vel þegar upp er staðið, ekki er fráleitt að skjóta á að hún endi í um 40-50 þúsund gestum.
En þetta kemur allt í ljós. “Nobody knows anything,” eins og William Goldman sagði og þessar vangaveltur eru byggðar á tilfinningu og óformlegu spjalli.