Heim Fréttir Spurningar vakna um notkun á "Heyr himnasmiður" í "The Handmaid's Tale"

Spurningar vakna um notkun á „Heyr himnasmiður“ í „The Handmaid’s Tale“

-

Elisabeth Moss fer með aðalhlutverkið í The Handmaid’s Tale.

Í öðrum þætti The Handmaid’s Tale þáttaraðarinnar sem nú er í sýningum á efnisveitunni Hulu, gefur að heyra tónverk Þorkels Sigurbjörnssonar, Heyr himnasmiður, við sálm Kolbeins Tumasonar goðorðsmanns og skálds frá upphafi 13. aldar. Lagið er fengið af plötu Hildar Guðnadóttur, Saman, en svo virðist sem hvorki Þorkels né Kolbeins sé að neinu getið í kreditlista þáttarins, né á IMDb – og raunar ekki Hildar heldur.

Upplýsingar um tónlistina í The Handmaid’s Tale má þó meðal annars finna á vefnum TuneFind.com og hér er skráningin um tónlist 2. þáttar.

En hlutirnir gerast stundum hratt á Fésbók. Sveinbjörn Baldvinsson handritshöfundur segir á Fésbókarsíðu sinni í morgun:

Er að horfa á The Handmaid’s Tale og heyri hendingar úr „Heyr himna smiður“ eftir Þorkel S. undir á köflum í þætti 2, en greini ekki textann. Ef þetta er rétt hjá mér vona ég bara að þetta sé með leyfi. Ekkert slíkt að sjá á IMDb og bara eitt tónskáld nefnt.

Sveinbjörn vekur meðal annars athygli Mistar Þorkelsdóttur tónskálds og dóttur Þorkels á þessu. Hún þakkar Sveinbirni fyrir að vekja athygli á málinu og segist hafa sett sig í samband við Faber útgáfuna í London sem fer með réttindamál Þorkels og fjölda annarra tónskálda. Mist segir Faber koma af fjöllum.

Klapptré mun fylgjast með framvindunni. Hitt er svo að þáttaröðin, sem byggð er á hinni víðkunnu skáldsögu Margaret Atwood, hefur fengið afbragðs dóma. Stiklu þáttaraðarinnar má skoða hér að neðan.

 

 

Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

NÝJUSTU FÆRSLUR

Ástralska útgáfan af HRÚTUM gerir það gott í heimalandinu, Sam Neill tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki

Rams, ástralska útgáfan af Hrútum Gríms Hákonarsonar með Sam Neill í aðalhlutverki, er að gera það gott í kvikmyndahúsum Ástralíu þessa dagana. Myndin opnaði í efsta sæti og hefur nú verið sýnd í fimm vikur við miklar vinsældir.

Stiklur þriggja væntanlegra heimildamynda, SÓLVEIG MÍN, HÆKKUM RÁNA og THE AMAZING TRUTH ABOUT DADDY GREEN

IDFA heimildamyndahátíðin sem nú stendur yfir, hefur birt stiklu þar sem þrjár væntanlegar íslenskar heimildamyndir eru kynntar, Sólveig mín eftir Körnu Sigurðardóttur og Claire Lemaire Anspach, Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson og The Amazing Truth about Daddy Green eftir Olaf de Fleur. Stikluna má skoða hér.