Guðmundar Bjartmarssonar minnst

Við tökur á Óskabörnum þjóðarinnar. Frá vinstri: Grímur Hjartarsson, Rúnar Rúnarsson, Jóhann Sigmarsson, Rannveig Þorsteinsdóttir, Guðmundur Bjartmarsson og Huldar Freyr Arnarsson. (Ljósmynd; Ingvar Stefánsson.)

Minningarsýning um Guðmund Bjartmarsson kvikmyndatökumann, sem lést fyrir skömmu, fer fram í Bíó Paradís fimmtudaginn 11. maí kl. 20. Sýnd verður kvikmynd Jóhanns Sigmarssonar, Óskabörn þjóðarinnar, en Guðmundur var tökumaður hennar. Á eftir sýningu verður Guðmundar minnst. Jóhann, Björn B. Björnsson og Hjálmtýr Heiðdal ásamt Þorsteini Helgasyni hafa einnig skrifað minningarorð um Guðmund og má lesa þau hér.

Jóhann Sigmarsson:

Kvikmyndagerðarmaður, ljósmyndari, bóndi, Járnabindingamaður, kennari, skólastjóri og margt margt fleira. Guðmundur Bjartmarsson var fagmaður á mörgum sviðum. Meistari er fallinn frá – Móðir jörð blessi vin minn. Hann var gull af manni. Ég þekkti hann mikið og við gerðum m.a. nokkur verkefni saman s.s. tvær kvikmyndir í fullri lengd, Óskabörn þjóðarinnar og Ein stór fjölskylda sem að hann var kvikmyndatökumaður á. Við gerð þessara kvikmynda máttum við hafa ýmis hlutverk fyrir utan starfsvið okkar. Eitt þessara hlutverka var að kenna nýgræðingum tökin á kvikmyndamiðlinum aðallega vegna tímaleysis, takmarkaðra fjárráða og fólkseklu. Yfirleitt hafði fólkið ekki komið nálægt kvikmyndagerð áður. Flest af því fólki sem höfðu áhuga er orðið mjög fært á sínu sviði innan kvikmyndageirans í dag. Við gerðum líka nokkrar auglýsingar og hann sat í dómnefnd fyrir Stuttmyndadaga í Reykjavík o.s.frv. Ég á margar mjög góðar minningar um hann sem að verða alltaf til í hjarta mínu. Það var alltaf þægilegt að vinna með honum hvernig sem á stóð við þá gátum alltaf fundið lausn á því sem að við vorum að gera. Ég þakka þessum Engildómlega manni þá miklu visku sem hann gaf mér um æviskeið okkar sem að við áttum saman.

Björn B. Björnsson:

Vegir okkar lágu saman árið 1988 þegar ég var ráðinn leikstjóri hjá kvikmyndafyrirtækinu Sýn þar sem hann var kvikmyndatökumaður. Hann var rólyndur og fremur fáorður og ekki endilega hlaupið að því að kynnast honum en við náðum fljótt vel saman.

Gummi Bjartmars var klár maður sem gaman var að vinna með. Ekki síst vegna þess að hann var óþreytandi í hverju verki og alltaf tilbúnn til að leggja meira á sig til að gera hlutina betri. Engu breytti hversu mikið var búið að hafa fyrir til dæmis flóknum myndavéla- eða ljósauppsetningum, ef myndin var ekki að gera sig var allt tekið niður og byrjað upp á nýtt. Það eru ófáir dagar og nætur sem við eyddum saman á þessum árum í stúdíói eða á tökustöðum heima og erlendis.

Þessi elja og áhugi Gumma á faginu var grunnurinn að því hversu góður tökumaður hann var. Auk þess sem hann hafði gott auga eins og vel sést á ljósmyndum hans. Hann hafði líka nauðsynlegan áhuga á tæknilegri hlið kvikmyndatökunnar, las fag- og tækniblöð og stúderaði linsur og myndavélar. Allt þetta gerði það að verkum að Gummi var í fremstu röð kvikmyndatökumanna á Íslandi. Hann tók mikið af stórum sjónvarpsauglýsingum sem oft eru dýrustu og vönduðustu sekúndur sem framleiddar eru í kvikmyndagerð og margar þessara auglýsinga fengu verðlaun sem hann átti stóran þátt í.

En Gummi gat líka unnið með lítið þegar þess þurfti. Hann tók til dæmis flesta þættina í þáttaröðinni Sönn íslensk sakamál þar sem vinna þurfti hratt með lítið af tækjum eða mannskap og gerði það með sóma. Forvitnilegt væri að taka saman öll þau verk sem eftir Gumma liggja en þau eru mýmörg því margir sóttust eftir að vinna með honum. Við unnum saman fjölda heimildamynda og sjónvarpsþátta í gegnum tíðina síðast 18. öldina með Pétri Gunnarssyni árið 2013. Aldrei bar skugga á samvinnu okkar.

Gummi var dálítið duglegur að skvetta í sig á köflum sem fór fyrir brjóstið á sumum en skipti hina litlu sem kunnu að meta manninn. Hann var fróður og vel lesinn og gat því talað um flest af viti. Guðmundur Bjarmarsson var fordómalaus og hreinskiptinn maður, skemmtilegur félagi og drengur góður.

Hjálmtýr Heiðdal og Þorsteinn Helgason:

Guðmundur Bjartmarsson var allajafna ekki maður margra orða. Eitt lítið dæmi: Þegar við tókum viðtöl fyrir heimildamynd um Sverri Haraldsson listmálara kom í ljós í lokin að hann hafði aldrei tekið nærmyndir af viðmælendunum. Þetta útskýrði hann eftir á: Það er Sverrir sem er í aðalhlutverki, ekki þau sem við tölum við. Þannig mótaðist ákveðinn stíll hjá Guðmundi án þess að hann væri sífellt að tala um það. En hann var til með að koma í umræðu ef boðið var upp á tækifæri til þess. Hann bjó að námi sínu í félagsfræði á Íslandi og kvikmyndagerð í London, af ætterni í Aðaldalnum og reynslu sinni af kvikmyndatöku og járnabindingum og almennt af lífsins ólgusjó.

Guðmundur fór ekki strangt eftir hollustuleiðbeiningum landlæknisembættisins og hann var sinn eigin stílisti í klæðaburði. Í vinnutörnum höfðum við stundum áhyggjur af morgunverðinum – svörtu kaffi og sígarettu – og almennri gleymsku hans að borða. Þá var hins vegar ánægjuefni að færa honum næringu, jafnvel að hafa svolítið við, því hann kunni að þiggja og það er góður eiginleiki.

Árið 1993 stofnuðum við ásamt Guðmundi kvikmyndagerðina Seylan ehf. Tilgangur félagsins var í upphafi að framleiða heimildakvikmynd um Tyrkjaránið. Eftir að fjármögnun verksins var lokið hófst kvikmyndatakan og var víða leitað fanga. Þegar upp var staðið höfðum við heimsótt níu lönd í Evrópu og Marokkó í Afríku. Eitt af því sem situr eftir í minningunni um ferðafélagann Guðmund var hin ótrúlega ratvísi hans. Hvert sem við þvældumst um á bílaleigubíl án allra hjálpartækja nútímans dugði að hafa Guðmund með landakort við hlið ökumanns. Hann hafði innbyggt áttaskyn og vísaði veginn jafnt um hraðbrautir og húsagötur þar til að við fundum hótelið eða tökustaðinn.
Guðmundur vildi hafa hlutina einfalda. Klæðaskápurinn var ekki stór í vinnuferðunum, ein lítil tuðra með því allra nauðsynlegasta. En þar var óþarfi að hlaupa undir bagga því alltaf mátti snúa röngunni út ef eitthvað sást á réttunni.

Guðmundur var snjall kvikmyndatökumaður en hann sinnti alltaf ljósmyndum líka og efndi til sýninga seinni árin. Þegar hann bauð á slíka sýningu sáum við okkur til undrunar að Guðmundur hafði ljósmyndað fjöldan allan af skurðum á heimaslóðum hans í Aðaldal. Fljótt var ljóst að þarna var hugsun að baki, bæði fagurfræðileg og hugmyndaleg, gagnrýni og eftirsjá fléttuðust saman, hugsun um tímann sem fer misjöfnum höndum um mannanna verk og náttúrunnar. Sumir skurðir voru að gróa saman og myndu um síðir hverfa til náttúrunnar, aðrir stóðu enn þráðbeinir og ristu landslagið eins og til var stofnað upp úr miðri síðustu öld.

Við vottum fjölskyldu Guðmundar okkar dýpstu samúð og kveðjum hann með hlýju í hjarta, minning um einstakan mann mun lifa.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR