spot_imgspot_img

Viðhorf | Cannes og Netflix takast á – vive la résistance!

Það verður fróðlegt að sjá hvernig slagurinn milli Cannes og Netflix spilast. Um er að ræða grundvallarmál varðandi hvernig almenningur horfir á kvikmyndir og þó að Netflix sé að ryðja nýjar brautir í þeim efnum er ekki endilega rétt að afskrifa Frakkana. Og nei, þetta er ekki endilega eitthvað "framtíð gegn fortíð" mál - þetta snýst miklu frekar um spurninguna hvað er bíó?

Tjaldið eða skjárinn?

Um hvað deila Cannes og Netflix? Stjórnendur Cannes hátíðarinnar hafa semsagt skýrt frá því að frá og með næsta ári þurfi allar myndir sem valdar eru á hátíðina að vera sýndar í kvikmyndahúsum í Frakklandi í kjölfarið áður en að annarri dreifingu kemur. Ákvörðunin kemur í kjölfar háværra mótmæla franskra kvikmyndahúsaeigenda sem munu ekki geta sýnt tvær keppnismyndanna á hátíðinni sem nú stendur yfir, en þær eru framleiddar af Netflix. Þetta er í fyrsta sinn sem Cannes sýnir Netflix myndir en flestar hinna stóru hátíðanna hafa gert það á alla síðustu árum. Streymisveitan hefur mótmælt þessari nýju reglu Cannes og segir gömlu valdaöflin í kvikmyndabransanum vera að verja vígi sitt.

Hvaða vígi? Jú, Frakkar hafa þá reglu (sem reyndar var brúkuð víða um Evrópu framan af í mismunandi útgáfum) að þrjú ár verði að líða frá því kvikmynd er sýnd í bíóhúsum þar til hægt er að dreifa henni í öðru formi, t.d. gegnum streymisveitur. Frakkar, sem eru mesta bíókúltúrþjóð Evrópu og líklega heimsins, líta svo á að kvikmyndir eigi fyrst og fremst heima í kvikmyndahúsum. Þær séu gerðar fyrir hvíta tjaldið en ekki sjónvarps- eða tölvuskjáinn.

Þetta er auðvitað bæði laukrétt hjá Fransmönnum sem og afar rómantískt, en því miður er málið ekki alveg svona einfalt.

Ris Netflix

Streymisveitan Netflix er orðin að risa í dreifingu myndefnis á heimsvísu. Mest fer fyrir þáttaröðum og þeirra eigið efni verður sífellt stærra hlutfall af heildinni sem og metnaðarfyllra. En Netflix er einnig að byggja upp kvikmyndaframleiðslu sína af miklum krafti. Þekktir leikstjórar og leikarar hafa þegar gert myndir fyrir streymisveituna og margar eru í vinnslu. Cannes myndirnar sem um ræðir, Okja og The Meyerowitz Tales eru gerðar af heimskunnum leikstjórum, Bong Joon Ho annarsvegar og Noah Baumbach hinsvegar. Það er borðliggjandi að Cannes mun vilja halda áfram að fá myndir úr ranni Netflix, en spurning hvort þeim tekst að snúa uppá hendina á streymisveiturisanum.

Frakkland: bíóvin í eyðimörkinni?

Það er bæði skiljanlegt og fallegt að Frakkar skuli vilja verja sinn einstaka bíókúltúr. Gallinn er hinsvegar sá að hann er dálítið vandfundinn annarsstaðar – því miður – þó vissulega megi finna bíóvinjar hér og hvar. Síðan fer þrýstingur á streymis- og VOD-dreifingu mjög vaxandi og bandaríski kvikmyndaiðnaðurinn er að velta fyrir sér hvaða leiðir skuli fara. Bandarískir kvikmyndahúsaeigendur þrjóskast margir hverjir við, en það er komin gliðnun í þær raðir og sennilega tímaspursmál hvenær þeir samþykkja einhverskonar form á dreifingu kvikmynda gegnum netveitur, samtímis eða um svipað leyti og bíódreifing fer fram. Það mun síðan hafa mikil áhrif á önnur lönd vegna leiðandi stöðu Bandaríkjanna á þessu sviði.

Franska andspyrnuhreyfingin

En enginn skyldi afskrifa Cannes – eða Frakka. Cannes hefur gífurlegt afl í kvikmyndaheiminum, að komast þangað er afar eftirsóknarvert. Þá má minna á að Frakkar hafa lengi verið í fararbroddi Evrópuþjóða varðandi umhirðu og uppbyggingu kvikmyndamenningar, hvort sem litið er til framleiðsluumhverfis eða dreifingar og sýninga.

Frakkar hafa til dæmis nokkrum sinnum stöðvað tilraunir Bandaríkjamanna til að draga úr evrópskum ríkisstuðningi við kvikmyndalist og fjarlægja takmarkanir á sýningum bandarískra mynda í Frakklandi. Þetta hefur gerst t.d. í GATT-viðræðum (Cultural Exception, nú kallað Cultural Diversity). Bandaríkjamenn hafa talað um óeðlilegar samkeppnishindranir (sem er mikið spaug, meðal markaðshlutdeild amerískra mynda í Evrópu hefur verið milli 70-80% lengi, en í kringum 65% í Frakklandi) en Frakkar hafa látið sér fátt um finnast og bent á hið menningarlega mikilvægi. Og hafa sem betur fer haldið Ameríkönum að einhverju leyti í skefjum hingað til, annars spyrðist sennilega fátt til evrópskra kvikmynda.

Þá má einnig benda á að Bandaríkjamenn virðast í þessu samhengi líta framhjá því að einn lykilþátturinn í velgengni bandarísks kvikmyndaiðnaðar í á aðra öld eru heljartök þeirra á dreifingu í Evrópu sem rekja má til fyrri heimsstyrjaldarinnar. Í kjölfar hennar flæddu amerískar myndir yfir Evrópu, meðan evrópskur kvikmyndaiðnaður var í rústum eftir stríðið. Ameríkanar náðu þannig undirtökunum í dreifingu á heimsvísu sem þeir hafa haldið síðan.

Nei, mér finnst Netflix bara að mörgu leyti fínt apparat og get haldið langa tölu um hvað Hollywood er æðislegt fyrirbrigði (líka ömurlegt). En þessi leikur hjá Cannes er dálítið sniðugur og það er freistandi að segja vive la résistance – lengi lifi andspyrnan!

 

 

 

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR