Næsta Hollywood-mynd Baltasars nánast í höfn

Shailene Woodley og Baltasar Kormákur.

Bandaríska framleiðslufyrirtækið STXfilms er við það að sigla næstu kvikmynd Baltasars Kormáks, Adrift, í höfn. Fyrirtækið mun væntanlega bæði framleiða og dreifa myndinni í Bretlandi og kynna hana á Berlinale hátíðinni sem hefst í þessari viku. Aðalhlutverkið er höndum leikkonunnar Shailene Woodley og er myndinni lýst sem Gravity á sjó.

RÚV segir frá:

Þetta kemur fram á vef Hollywood Reporter.  Þar segir enn fremur að handritshöfundar myndarinnar séu tvíburabræðurnir Aaron and Jordan Kandell en þeir eiga heiðurinn af handriti teiknimyndarinnar Moana sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna.

Á vef Hollywood Reporter kemur jafnframt fram að Adam Fogelson, stjórnarformaður STXfilms, og David Kosse, forstjóri STXinternational, þekki vel til verka Baltasars. Þeir hafi unnið með honum að Everest og Contraband og þá hafi Fogelson verið einn meðframleiðanda að Eiðinum – síðustu mynd leikstjórans.

Adrift er byggð á sannsögulegum atburðum og segir frá kærustuparinu Tami Oldham og Richard Sharp sem ætlaði að sigla 44 feta skútu frá Tahiti til San Diego árið 1983.

Á miðri leið lentu þau í fellibylnum Raymond – Sharp skipaði unnustu sinni að fara niður í káetu á meðan versta veðrið gekk yfir. Þar rotast Tami eftir þungt höfuðhögg og þegar hún rankar við sér er unnusti hennar horfinn og skútan mikið skemmd.

Sjá nánar hér: Næsta Hollywood-mynd Baltasars nánast í höfn | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR