[Plakat] Gamanmyndin AMMA HÓFÍ með Eddu Björgvins og Ladda frumsýnd 10. júlí

Gamanmyndin Amma Hófí eftir Gunnar Björn Guðmundsson verður frumsýnd þann 10. júlí næstkomandi. Edda Björgvinsdóttir og Þórhallur Sigurðsson (Laddi) fara með aðalhlutverkin. Plakat myndarinnar hefur verið opinberað og stikla mun vera væntanleg.

Söguþræði er svo lýst:

Eldri borgararnir Hófí og Pétur eru olnbogabörn í kerfi sem hefur lítið gagn af þeim lengur. Þau eru orðin leið á aðbúnaðinum á elliheimilinu og ræna banka til að hafa efni á að kaupa sér litla íbúð. Ýmis ljón eru í vegi þeirra og Hófíog Pétri lendir saman við harðasta handrukkara bæjarins og skósveina hans. Sem betur fer er erfitt að kenna gömlum hundum að sitja og Hófí og Pétur eru hörðustu glæpamenn elliheimilisins, þannig að þau eru ekkert á því að sitja að óþörfu.

Auk Eddu og Ladda fara Sveppi, Steindi Jr, Anna Sava Knútsdóttir, Gríma Kristjánsdóttir, Pétur Jóhann, Steinn Ármann Magnússon, Halldór Magnússon, Þorsteinn Guðmundsson og Gísli Rúnar Jónsson með hlutverk í myndinni.

Gunnar B. Guðmundsson (Astrópía, Gauragangur) leikstýrir og skrifar handrit, Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson framleiða í samvinnu við RÚV og Myndform/Laugarásbíó. Tómas Örn Tómasson sér um kvikmyndatöku, Sigvaldi Kárason um klippingu og Hallur Ingólfsson um tónlist. Ylfa Marín Haraldsdóttir gerir búninga og Ólafur Jónasson gerir leikmynd.

Þetta er að uppistöðu nokkurnveginn sama teymið og stóð að Síðustu veiðiferðinni, sem enn er í sýningum við miklar vinsældir. Næsta verkefni þessa hóps er kvikmyndin Síðasti saumaklúbburinn sem verður tekin upp í sumar í leikstjórn Göggu Jónsdóttur.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR