Hildur Guðnadóttir segir nei við nánast öllu

Hildur Guðnadóttir (mynd: Timothée Lambrecq)

Morgunútvarpið á Rás 2 ræddi við Hildi Guðnadóttur tónskáld og Óskarsverðlaunahafa, en hún var í gær tilnefnd til enn einna verðlaunanna, BAFTA-sjónvarpsverðlauna fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl.

„Þetta er svolítið óraunverulegt allt saman, því það var mikil sprenging í vetur, desember, janúar, febrúar var rosalega mikill rússíbani og svo allt í einu búmm, þá er maður bara heima, fer ekki neitt og talar ekki við neinn,“ segir Hildur Guðnadóttir sem í gær var tilnefnd til enn einna verðlaunanna, BAFTA-sjónvarpsverðlauna fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl.

„Þetta voru mjög ólík tempó, að fara frá hverri flugvélinni í aðra, og svo að vera bara með strákinn í heimaskóla. En eiginlega samt kærkomið að taka smá pásu,“ segir Hildur. Hún hafi flogið milli Evrópu og vesturstrandar Bandaríkjanna, fram og til baka, fjórum sinnum í janúar. „Það voru yfirleitt svona níu viðtöl á dag, checkin, mátanir og æfingar, þetta var intensívur tími.“ Hún segir að það sem helst hafi gert þetta þess virði hafi verið viðhorfsbreytingin gagnvart kventónskáldum, að margir tónlistarstjórar í kvikmyndum og þáttum hafi komið að máli við sig og talað um að leikstjórar væru farnir að biðja sérstaklega um kventónskáld.

Hildur var í eitt og hálft ár að semja tónlistina fyrir kvikmyndina Joker og hún segist helst hafa áhuga á að taka að sér slík langtímaverkefni. „Mér finnst miklu skemmtilegra að vinna verkefni þar sem ég get sokkið inn í söguna og lifað inni í heiminum. Þannig ég hef eiginlega sagt nei við öllu,“ segir Hildur. Hún viðurkennir að tilboðum hafi rignt yfir hana í kjölfarið á verðlaunatímabilinu. „Nú er dálítil pressa, þannig ég held það sé mikilvægt að taka smá tíma í að líta yfir hvað ég hef gert og hvað mig langar að gera næst. Þessi bíómyndaverkefni eru stór og taka langan tíma. Ég er byrjuð í samræðum við leikstjóra og nokkur verkefni líta mjög vel út. En ég náttúrulega má ekkert segja á þessu stigi.“

Sjá nánar hér: Segir nei við nánast öllu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR