Menningarsmygl um SÍÐUSTU VEIÐIFERÐINA: Ferskur andblær í okkar ágæta kvikmyndasumar

„Einfaldlega ein besta íslenska mynd síðustu ára og ég get ekki beðið eftir að senda gagnrýnendavini mína erlendis á hana þegar hún fer á flakk,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson á Menningarsmyglinu um Síðustu veiðiferðina eftir Örn Marinó Arnarson og Þorkel Harðarson.

Ásgeir skrifar meðal annars:

Aðalpersónurnar eru sex miðaldra karlmenn – en í raun þrjú pör. Þeir koma saman á þremur bílum og innan hópsins verða þeir sem verða samferða í bústaðinn áfram samferða í gegnum myndina alla, svona að mestu leyti. Þeir eru saman á stöng og það er nánast eins og það leiði af sér ákveðið tímabundið hjónaband, stöngin og bíllinn sem þeir deila eru þeirra hringar og hjúskaparsamningar þessa heims. Vissulega er ákveðin sóun að eyða þremur bílum í að ferma sex manns á sama staðinn – en svo kemur auðvitað í ljós að bílakosturinn er raunar í minnsta lagi, svona þegar bílarnir fara að týna tölunni.

Þetta er vissulega í vissum skilningi dæmigerðasta íslenska bíómynd í mannkynssögunni, mynd um miðaldra karlmenn í krísu úti í náttúrunni, en það skemmtilega er að það konsept er tekið alla leið hérna, það þarf ekkert að gera fleiri svona myndir eftir þessa. Þeir eru þar að auki allir afskaplega mikil borgarbörn, þeir eiga ekkert heima þarna og maður finnur bæjarlyktina af þeim langar leiðir, í tvöföldum skilningi.

En það sem er algjörlega brilljant við myndina er hvað þessi hópur endurspreglar breytt svið mannlífsins, það er rækileg stéttaskipting í vinahópnum – og það birtist best í samskiptum þeirra Vals (Þorsteins Bachmanns) og Magga (Halldórs Gylfasonar), því á meðan hin veiðipörin eru góðir vinir þá eru þeir tveir í raun meira eins og herragarðseigandi og þjónn. Valur er erkikapítalisti á leiðinni í framboð, hann er að bjóða þeim, hinir félagarnir virðast ýmist vera millistéttarmenn eða jafnvel síblankir rónar, og allir umbera þeir Val út af því hann getur splæst á þá bústaðarferð, laxveiðiá og dýru víni.

Þetta er forvitnileg mannlífsstúdía, við fáum lítið að vita hvernig þessi missamstæði hópur kynntist, en miðað við hversu ólíkir þeir eru þá giskar maður þó á að þetta séu gamlir skólafélagar úr menntó eða jafnvel grunnskóla, vinátta þeirra við Val er allavega meira eins og gamall vani en nokkuð annað.

Allt skapar þetta ákveðna spennu, tímasprengju sem á eftir að springa. Valur er vissulega óþolandi en þeir þurfa að umbera hann af því án hans væri engin veiði – og eru um leið að vissu leyti algjörir falsvinir, þannig kallast þetta samband á margt á við Sníkjudýrin kóresku, þetta er íslenska útgáfan þar sem óþolandi uppskafningurinn úr menntó eða gaggó er umborin af því hann getur splæst. En um leið verða allar ferðir á hans forsendum. Það má jafnvel líta svo á að myndin afhjúpi hér lygina um hið stéttlausa íslenska samfélag; það eiga margir ríka vini úr bernskuvinahópnum og þessir ríku vinir eru þeirra eini aðgöngumiði inní heim ríka fólksins, jafnvel þótt það sé aldrei nema stutt innlit, og vafalaust sömuleiðis oft lykillinn af því að redda sér vinnu og góðum dílum í gegnum sambönd ríka vinarins. Þannig eru kumpánalegheit til staðar sem ekki eru leyfð í heimi hinnar formlegu stéttaskiptingar kóresku Sníkjudýranna, en falsið og fyrirlitningin er þó ekkert síður til staðar. Myndin kallast líka á við stuttmyndina Fallegur dagur í Eyjafirði , þar sem forrík aðalpersónan þráir fátt frekar en að óbreyttir verkamenn taki honum sem jafningja, bæði hann og Valur okkar úr veiðiferðinni þrá að fá að lifa þessari stéttlausu lífslygi íslensks samfélags.

Kasakstanskar bardagaíþróttir og kviknaktur bumbubolti

En hvað með hin veiðipörin? Drykkjan er stífust hjá þeim Hansa (Þröstur Leó Gunnarsson) og Kolla (Hjálmar Hjálmarsson). Sá fyrri virðist vera eðalróni sem reddar sér mat í gámunum við kjörbúðina í yndislegri senu, er eiginlega erkitýpa margra þeirra lifuðu karaktera sem Þröstur Leó hefur leikið í gegnum tíðina. Sá síðarnefndi virðist ágætlega blautur líka – þótt kannski sé það helst félagsskapnum að þakka.

Svo er það hann Jónsi (Hilmir Snær Guðnason), sem er venjulegasti gaurinn í hópnum. Nema hvað, veiðifélagi hans svíkur hann og fyrir tilviljun hittir hann gamlan kennara sinn úr verkfræðinni, Óla (Jóhann Sigurðarson), sem er til í að slást í hópinn – og verður þar með jókerinn í spilastokknum, að því leyti að hinir veiðifélagarnir þekkja hann ekkert fyrir.

Og það er bara rétt að taka það fram strax; aðalleikararnir sex eru allir þrælgóðir, þeir virka afskaplega sannfærandi sem ósamstæður vinahópur, vinskapur sem sjálfsagt hefur að einhverju leyti skapast í gegnum mörg ár í íslenska leikaraheiminum. En Jóhann stelur myndinni hins vegar með húð og hári. Bæði þegar hann tekst á við óðann hrút en ekki síður þegar hann rekur ótrúlegt lífshlaup sitt fyrir dolföllnum félögunum, þar sem kasakstanskar bardagalistir, skák og fjármálaverkfræði koma við sögu í senu sem á sannarlega skilið að verða klassísk í íslenskri kvikmyndasögu.

Svo er auðvitað dásamleg nekt í myndinni, sem undirstrikar vinskapinn á galsafenginn hátt. Í fyrstu er þetta bara hið lögboðna typpaskot sem allir kvikmyndagerðarmenn Norðurlanda eru samningsbundnir um að uppfylla, en svo leysist þetta upp í heilan fótboltaleik þar sem allir eru kviknaktir og faðmast eins og enginn sé morgundagurinn (né kórónaveiran). Myndin leikur sér með hómóerótíkina í brómansinum, sem getur bæði verið fullkomlega gagnkynhneigð en er stundum töluvert djúpstæðari en það, eins og kemur í ljós. Svo er líka bara skemmtileg hefð að myndast fyrir því að Hilmir Snær spili fótbolta í bíómynd að minnsta kosti einu sinni á ári.

Rándýrt kveðið handrit

Myndin hefur fengið ágætis dóma hingað til – en þeir tala samt margir dálítið niður til myndarinnar. „Ágæt af grínmynd að vera,“ er ekki óalgengt stef, eða jafnvel „fjandi gott miðað við að þeir fengu ekki styrk frá kvikmyndasjóð.“ Þetta eru dálitlir klapp-á-bakið dómar, gott miðað við léttvæga mynd sem er ekki alveg alvöru. Sumir fagna því jafnvel að loksins sé komin mynd sem er fyrst og fremst fyrir íslenskan markhóp – og í orðunum liggur að hún sé þar með varla nógu mikið listaverk til að komast á hátíðarrúnt í útlöndum.

Málið er hins vegar það að þetta er einfaldlega ein besta íslenska mynd síðustu ára og ég get ekki beðið eftir að senda gagnrýnendavini mína erlendis á hana þegar hún fer á flakk. Þetta er vissulega gamanmynd, og drepfyndin sem slík, en það er hellingur af dýpt á bak við þessa brandara, á bak við sambönd og sambandsleysi þessara karla og stöðu þeirra í þjóðfélaginu. Þetta eru strákar af mölinni sem kunna ekki alveg á þetta sveitalíf – og spennan á milli þeirra er sama spenna og gegnsýrir allt þjóðfélagið, þessi sérkennilega blanda af typpakeppni og vináttu.

Það er vissulega lítið um konur í myndinni og margir hafa kvartað yfir að lögreglukonurnar tvær sem stoppa þá félaga fái ekki meira pláss, af því maður hugsar: þær fá djúsí díalóg og maður vonar að þær komi aftur, er ekki hálfpartinn búið að lofa því? En það væri einmitt eftir formúlunni, og þótt þetta sé gamanmynd þá er þetta alls ekki sú formúlugamanmynd sem hún virðist í fyrstu, formúla sem hefur gefið af sér myndir á borð við Hangover, myndir sem eru kannski fyndnar á köflum en líka fullar af karlrembu og mannhatri.

Þessi sver sig miklu frekar í ætt við myndir kvikmyndagerðarmanna eins og Richards Linklaters, að því leyti að þær hampa óútreiknanleika lífsins. Þótt það birtist byssa – eða huggulegar og forvitnilegar lögreglukonur – þá gildir ekki sú Tsjekhovska regla ekki að það þurfi þar með að hleypa af fyrir sögulok. Í lífinu er það nefnilega þannig að maður á ósjaldan eftirminnileg samskipti við fólk, en hittir það svo aldrei aftur, jafnvel þótt maður glaður vildi. Jafnvel þótt manni finnist eins og þetta sé mikilvægur kafli í þeirri sögu sem maður reynir að gera líf sitt að.

Þannig er myndin viljandi full af lausum endum og leyfir sér að segja okkur ekki alla söguna af persónum myndarinnar, af því hún er nógu trú raunsæinu til að vita að lífið er fullt af lausum endum og fólki sem maður eyðir drjúgum tíma með án þess að kynnast almennilega.

Það besta við myndina er svo handritið. Jafnvel margar betri myndir íslenskrar kvikmyndasögu hafa oft komið sér hjá því að skrifa mjög mikinn díalóg, „að leyfa myndunum að segja söguna“ heitir það á fagmáli – en þýðir um leið að við fáum óhóflega mikið af bíómyndum um málhalta einsetumenn. Jafnvel grínið treystir oftar meira á aðstæður en orð. En hér eru handritshöfundar sem njóta þess að skrifa stórskemmtileg og sannfærandi samtöl og það, öðru fremur, er eins og ferskur andblær í okkar ágæta kvikmyndasumar.

Hér er sumsé nóg af orðum, rándýrum og drepfyndnum orðum, án þess þó að neinn afsláttur sé gefinn af myndmáli.

Sjá nánar hér: Stéttabarátta í laxveiði

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR