spot_img

Vill margfalda fjárfestingu í kvikmyndagerð

Frá tökum á kvikmyndinni Oblivion með Tom Cruise við Jarlhettur sumarið 2012.

„Núna skulum við reiða okkur á kvikmyndir og sjónvarp. Ég legg því til að við gerum kvikmyndaiðnaðinn að stóriðnaði hér á landi. Til að svo megi vera, verðum við að margfalda kvikmyndasjóð. Og þá meina ég t.d. að fimmfalda hann, úr 1 milljarði og í 5 milljarða,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður í grein á Vísi.

Kjartan Þór Þórðarson framleiðandi hlekkjar á greinina á Facebook síðu sinni og leggur út henni með svohljóðandi hætti:

Mjög áhugaverð hugmynd hér á ferð, Það eru ekki margir sem átta sig á því að kvikmyndir og leikið sjónvarpsefni er nýsköpun sem nýtir innviði þjóðfélagsins á svo fjölmörgum sviðum að fáar aðrar atvinnugreinar skila eins miklu til baka í formi atvinnu, menningar og gjaldeyristekna. Hvert nýtt verkefni þarf að þróa frá hugmynd að seljanlegri vöru og þar koma að handritshöfundar, leikstjórar, framleiðendur og fjöldinn allur af starfsfólki á mörgum stigum ferlisins, þróunarkostnaður þessa iðnaðar er nánast eingöngu launakostnaður og oftast er þróunarkostnaðurinn fjármagnaður bæði innanlands og erlendis frá, sem dæmi kostar um 20-30 milljónir að þróa leikna sjónvarpsseríu og tekur oft 2-3 ár. Þegar búið er að þróa verkefnin þá þarf að fjármagna þau til að geta framleitt, kostnaður leikinnar sjónvarseríu er kannski á bilinu 400-1.200 milljónir og er erlend fjármögnun þessara verkefni í dag um og yfir 50% fyrir hvert verkefni. Þessum peningum er eytt í laun, gistingu, mat, akstur og tækjabúnað. Hvert verkefni skapar um 150-300 tímabundin störf á 12 mánaða framleiðslutímabili, starfsfólkið er bæði sérhæft í þessum iðnaði auk þess sem fjöldi starfsfólks kemur úr öðrum iðngreinum. Hlutfall Kvikmyndasjóðs og Endurgreiðslu Iðaðarráðuneytis er almennt í kringum 35% af heildar kostnaði leikinna sjónvarpsverkefna en á móti er áætlað að um 40% skili sér í skatttekjur til Ríkisins í formi launaskatta og annara skatta. Það er því verulega skynsamleg hugmynd að stórefla þessa atvinnugrein því í bónus við allt þetta sem ofan er nefnt fáum við ómetanlega menningu og ferðamenn í kaupbæti. Ég er því sammála Ágúst Ólafur Ágústsson, Íslenskt hugvit getur skapað næsta Eyjafjallajökul á hverju ári um ókomna tíð, nóg er af sögum til að segja af þessu landi og þjóð í Norðuríshafinu! Ég lofa að leggja mitt af mörkum og finna milljarðana á móti erlendis frá, tíminn hefur aldrei verið betri en akkurat núna!

En Ágúst skrifar meðal annars:

Við þurfum einnig að stórauka endurgreiðslur vegna kvikmynda- og sjónvarpsgerðar. Nú má endurgreiða úr ríkissjóði 25% af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi. Endurgreiðslukerfið okkar hefur laðað hingað mörg stór verkefni og býr þannig til mun meiri pening en það sem það kerfi kostar. Það var skrýtin pólitík að skera niður fjárhæðir í endurgreiðslurnar um 30% í síðustu fjárlögum.

Ég legg því til endurgreiðslurnar verði hækkaðar mikið. Mjög mikið. Ríkið mun verja allt að 50 milljörðum kr. í atvinnuleysisbætur á árinu, 38 milljarða kr. í hlutabótaleiðina og 25 milljarða kr. til viðbótar til að niðurgreiða uppsagnir fyrirtækja. Þetta eru yfir 110 milljarðar kr. Í þessu sambandi höfum við vel efni á að veðja á kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinn sem til viðbótar býr til skattpeninga á móti.

Býr til peninga

Með gríðarlegri innspýtingu í þennan geira stóraukum við umsvif hér á landi en með slíkum umsvifum fást störf og skatttekjur, ekki hvað síst á landsbyggðinni og í þeim geirum sem núna þjást hvað mest. Þessi verkefni krefjast margs konar þekkingar og nýtingar á hótelum ásamt flutningum, veitingarekstri, leiðsögn, tæknistörfum og auðvitað allrar listarinnar sem verður sköpuð. Þá eru ferðamenn framtíðarinnar búnir til vegna slíks myndefnis því fjölmargar rannsóknir sýna beint samband á milli ferða til Íslands og sjónvarpsefnis sem þar er tekið.

Kvikmyndaiðnaðurinn er næsti Eyjafjallajökull. Kvikmyndaiðnaðurinn er makríll framtíðarinnar. Kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðurinn er risastór á heimsvísu og við þurfum aðeins brot af honum til að koma okkur upp úr þessari kreppu. Önnur ríki hafa áttað sig á þessu og reyna stöðugt að laða slík verkefni til sín.

Þarf að vera í næsta pakka

Netflix hefur nú gefið út að Ísland sé eitt af fáum ríkjum heims sem er nú opið fyrir tökum þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Slík yfirlýsing skiptir miklu máli. En það þarf að bregðast hratt við slíku.

Ég legg því til að í næsta „aðgerðarpakka“ ríkisstjórnarinnar verði kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðurinn í forgangi. Það þýðir ekki að tala um að gera þetta í fjarlægðri og fallegri framtíð. Tíminn er núna. Verjum pening til að búa til pening. Og búum til list og afþreyingu á heimsmælikvarða um leið.

Sjá nánar hér: Næsti Eyja­fjalla­jökull? – Vísir

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR