spot_img

Lasse Hallström gerir þáttaröð á Íslandi byggða á bókum Ragnars Jónassonar fyrir CBS

Sænski leikstjórinn Lasse Hallström mun vera kominn til landsins að hefja undirbúning þáttaraðar sem byggð er á bók Ragnars Jónassonar Dimmu. Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS stendur að verkefninu í samvinnu við True North.

Sænska stórleikkonan Lena Olin fer með hlutverk lögreglukonunnar Huldu Hermannsdóttur. Olin og Hallström hafa verið gift í rúm þrjátíu ár og komið að fjölmörgum verkefnum saman. Þau unnu til að mynda saman í kvikmyndinni Chocolat þar sem Johnny Deep og Juliette Binoche fóru með aðalhlutverk.

Lena Olin hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlaunanna fyrir leik sinn, sem og Golden Globe, BAFTA-og Emmy-verðlaunanna. Hún öðlaðist heimsfrægð fyrir leik sinn í kvikmyndinni Óbærilegur léttleiki tilverunnar og Enemies, A Love Story.

RÚV fjallar um þetta og ræðir meðal annars við Ragnar  Jónasson.

Tökur hefjast síðar á árinu, en hugmyndin mun vera að gera fleiri þáttaraðir eftir bókum Ragnars, Drunga og Mistri, þar sem lögreglukonan Hulda er í forgrunni.

Handritin skrifa Sam Shore og Óttar Norðfjörð (Brot).

Þríleikur Ragnars um lögreglukonuna Huldu hefur sópað að sér viðurkenningum víða um heim. Má þar nefna að serían hlaut hlaut Palle Rosenkrantz -verðlaunin sem besta þýdda glæpasagan í Danmörku og var valin besta þýdda glæpasagan á Spáni. Þá voru allar bækurnar þrjár um tíma á lista yfir tíu mest seldu bækur Þýskalands.

Lasse Hällström var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndina Mitt liv som hund en myndir sem hann hefur leikstýrt hafa hlotið fjölmargar tilnefningar til meðal annars Óskarsverðlaunanna, Golden Globe og BAFTA-verðlaunanna. Hann gerði síðast kvikmyndina Hilma um sænsu myndlistarkonuna Hilma af Klint. Sigurjón Sighvatsson var framleiðandi þeirrar myndar.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR