Christopher Newman heiðursgestur nýrrar hátíðar á Akureyri helguð fantasíumyndum

Northern Lights Fantastic Film Festival er þematengd kvikmyndahátíð sem fram fer í fyrsta sinn á Akureyri 26. til 29. október. Hátíðin sýnir 38 alþjóðlegar stuttmyndir (fantastic-animation-horror-sci-fi) í Hofi, sem keppa til veglegra verðlauna.

Heiðursgestur hátíðarinnar verður Christopher Newman sem er einn framleiðenda Game of Thrones og Lord of the Rings: Rings of Power. Newman á að baki áratuga feril í kvikmyndaiðnaðinum og hefur oft komið hingað til lands vegna kvikmyndaverkefna, eða allt frá níunda áratug síðustu aldar þegar hann var aðstoðarleikstjóri við gerð þáttaraðarinnar Nonna og Manna.

Newman situr einnig í dómnefnd hátíðarinnar ásamt leikstjórunum Ingu Lísu Middleton og Erlingi Óttari Thoroddsen. Dómnefndin velur bestu fantasíumyndina sem hlýtur í verðlaun þúsund evrur og eina milljón króna í tækjaúttekt hjá Kukl.

Tveir bransaviðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar og fara þeir fram í Listasafni Akureyrar.

Pallborð: Afhverju er þjóðsagnararfurinn vannýttur í íslenskum kvikmyndaverkum og hvernig breytum við því?

Þátttakendur: Christopher Newman, Inga Lísa Middleton og fleiri.

Meistaraspjall: Tónlist og hljóðhönnun í fantasíu kvikmyndaverkum.

Þátttakendur: Hilmar Örn Hilmarsson kvikmyndatónskáld, Kjartan Kjartansson hjóðhönnuður og fleiri.

Von er á mörgum kvikmyndagerðarmönnum erlendis frá og ýmsir viðburðir verða haldnir samhliða hátíðinni, hrekkjavökubúningaball, tónleikar og pöbbakviss.

Aðstandendur hátíðarinnar eru Brynja Baldursdóttir myndlistarkona og hönnuður, Ársæll Sigurlaugar Níelsson leikari og framleiðandi og Marzibil Sæmundardóttir kvikmyndagerðarkona. Þau tvö síðastnefndu ráku áður Stockfish hátíðina.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR