Myndin trú sínum markmiðum

Hér er umfjöllun Lestarinnar á Rás 1 um heimildamyndina Baráttan um Ísland og þau viðbrögð sem hún hefur vakið. Rætt er við Bosse Linquist, Þórð Snæ Júlíusson og Margréti Jónasdóttur um verkið.

Segir á vef RÚV:

Finnst leiðinlegt hvernig þetta endaði

Baráttan um Ísland fjallar um uppgjörið eftir bankahrunið 2008. Í lýsingu myndarinnar á vef RÚV segir að fjallað sé um ótrúlega eftirmála hrunsins, þar sem bankaleynd var aflétt og víðtækar rannsóknir hafi hafist á því hvernig þrír stærstu bankarnir hafi farið í þrot. Spurt er hvort 15 ár af rannsóknum og hundruðum lögsókna hafi leitt okkur að sannleikanum. Myndin var frumsýnd 8. október þegar það voru 15 ár frá hruninu.

Myndin er framleidd af Sagafilm fyrir erlendan markað og tala flestir viðmælendur ensku með íslenskum hreim. Leikstjórar myndarinnar eru þrír; Margrét Jónasdóttir, Jakob Halldórsson og Bosse Lindquist.

Í frétt á vef Samstöðvarinnar kemur fram að mikill kurr sé meðal fólks sem tengdist gerð myndarinnar á fyrri stigum framleiðslunnar. Bæði Bosse Lindquist, sem var titlaður leikstjóri myndarinnar, og Þórður Snær Júlíusson, sem var ráðgjafi við gerð myndarinnar, séu ósáttir við að nöfn þeirra séu á kreditlista myndarinnar.

Einnig ýjað að því í umfjöllun Samstöðvarinnar að það hafi áhrif á sjónarhorn myndarinnar að stjórnarformaður Sagafilm sé Ragnar Björn Agnarsson, sem sé æskuvinur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Hann var einn þeirra viðmælanda sem voru hvað mest áberandi í myndinni.

Bosse Lindquist hóf störf við verkefnið 2019. Honum fannst verkefnið spennandi fyrst um sinn en þegar líða fór á verkefnið pössuðu áherslur hans ekki við þær sem framleiðslufyrirtækið hafði.

Hann vildi stunda rannsóknarblaðamennsku með hlutleysi að leiðarljósi og kafa ofan í smáatriði málsins en framleiðslufyrirtækið hafi ekki verið á sama máli. Því hafi hann yfirgefið verkefnið vorið 2020. Það kom honum því mjög á óvart þegar hann sá nafn sitt á kreditlista myndarinnar og að hann væri titlaður sem leikstjóri.

„Mér finnst leiðinlegt hvernig þetta endaði.“

Sænski rannsóknarblaðamaðurinn Bosse Lindquist.

Ekki sama saga sögð í myndinni

Þórður Snær, ritstjóri Heimildarinnar, segir að vitnað hafi verið í skrif hans um bankahrunið þegar hann hafi verið fenginn sem ráðgjafi við gerð myndarinnar. Þá hafi hún verið óskrifað blað.

Þórður Snær skrifaði bókina Kaupthinking árið 2018 um bankahrunið og segir að það hafi verið alveg ljóst á skrifum hans hver hans greining á þessum atburðum hafi verið.

Þá hafi verið búið að ráða Bosse Lindquist sem Þórði Snæ fannst spennandi. Þeir hafi unnið náið saman frá 2019 fram til 2020 og alltaf verið sannfærðir um að þeir væru að fara að gera heimildamynd sem geri þennan tíma upp heiðarlega.

„Í þessari sögu eru fordæmalausir efnahagsglæpir sem voru fyrst gerðir upp með þeirri blaðamennskuvinnu sem var unninn og þar sem að margt kom upp úr dúrnum, svo með rannsóknarskýrslu Alþingis sem kom út 2010 og loks með fjölda mála sem fóru alla leið í dómskerfinu og enduðu með fordæmalausum sakfellingardómum.“

Honum finnst þessi saga ekki sögð í myndinni. Viðtöl við sérfræðinga og sérstakan saksóknara hafi verið klippt óþarflega til. „Það er hægt að klippa viðmælendur saman á margan mismunandi hátt.“

Seinni þátturinn hafi verið gerður til þess að veita málsvörn þeirra sem voru til rannsóknar og voru dæmdir fyrir fordæmislausa efnahagsglæpi liðsinni.

Þórður Snær Júlíusson var ráðinn sem ráðgjafi við myndina. Hann skrifaði bókina Kaupthinking um bankahrunið árið 2018.

„Fyrir mér, þessi mynd sem var sýnd, hún er drekkhlaðin skoðunum manna sem vilja selja þá sögu að uppgjörið við þessa atburði hafi fyrst og síðast verið einhvers konar múgsefjun. Hér hafi átt sér stað einhvers konar nornaveiðar. Og það að telja það að hér hafi glæpir átt stað sem hafi haft miklar samfélagslegar afleiðingar sé fyrst og síðast einhvers konar misskilingur. Því er ég í grundvallaratriðum ósammála.“

Þórður segist hafa verið í hálfgerðu áfalli þegar hann hafi séð hversu stóran sess þessir menn hafi fengið í myndinni. „Það vantaði fullt af upplýsingum um málin sem þeir voru að tala um. Það var enginn til þess að mæta því sem þeir voru að setja fram.“

Bað leikstjórann afsökunar og nafn hans fjarlægt

Margrét Jónasdóttir, einn leikstjóri myndarinnar er líka aðstoðardagskrárstjóri RÚV. Hún segir markmið myndarinnar alltaf hafa verið skýrt: að fá fólk sem hefði ekki tjáð sig áður í viðtal. Hún lítur svo á að myndin sé trú markmiðum sínum.

Margrét Jónasdóttir, leikstjóri og framleiðandi myndarinnar og núverandi aðstoðardagskrárstjóri RÚV | Mynd: RÚV.

Aðspurð af hverju Bosse Lindquist hafi verið kynntur sem einn þriggja leikstjóra myndarinnar þegar hann hafi hætt vegna ósættis snemma við gerð myndarinnar segir Margrét að í lokasamningi við gerð myndarinnar hafi verið óljóst hvort hann hafi sagt sig fullkomlega frá myndinni.

„Hann var vissulega nafngreindur og hafði fengið greitt sem leikstjóri og ætli þetta hafi ekki bara endað með handvömm af minni hálfu að ganga ekki fullkomlega frá því.“

Hún sé búin að fjarlægja nafn hans úr myndinni og biðja hann afsökunar. Myndin hafi verið tekin niður úr spilara RÚV á meðan þessar leiðréttingar hafi verið gerðar. Hægt er að horfa á hana í heilu lagi í spilara RÚV.

Margrét segir Þórð Snæ hafa verið ráðinn sem ráðgjafa þar sem hann viti mikið um þessi mál. „Ég get alveg skilið að hann hafi ekki viljað vera þarna, ég var hins vegar með samning við hann þar sem stóð að mér bæri að setja hann þarna.“

Hann hafi séð nokkur klipp áður þó hann hafi ekki séð lokaútkomuna. Nafn hans hafi einnig verið fjarlægt af kreditlista en starf hans hafi ekki falið í sér að hann hefði loka vald um hvað eða hverjir væru í þessari mynd.

Henni fannst samstarf þeirra gott og hafði því ekki miklar áhyggjur af því að setja nafn hans við myndina. Fólk hafi þó vald yfir nafnbirtingum að ákveðnu leyti.

Margrét segir þá staðreynd að hún vinni á RÚV ekki hafa haft áhrif á að myndin hafi verið sýnd þar. „Ég hef átt mjög farsælan feril sem framleiðandi og gert gríðarlega margar myndir fyrir RÚV. Árið 2018 var skrifað undir samkomulag um þessa mynd svo varð það heimsfaraldurinn sem dró það að setja hana í loftið. Það stóð til að sýna hana síðastliðið haust, nokkrum dögum eftir að ég kom hér til starfa. Það náðist ekki og það var ekki að minni ósk.“

Því hafi verið ákveðið að sýna hana á 15 ára afmæli hrunsins. Auðvitað er það kannski óheppilegt en þannig er það bara þegar maður á langan feril, svona verk taka mörg ár í vinnslu, það verða einhverjar innansleikjur sem ég hafði tekið að mér að gera fyrir mörgum árum fyrir RÚV sem munu birtast hér á skjánum. Þannig er það bara.“

Myndin er hér til 10. nóvember 2023.

Hér má sjá umfjöllun Vísis um málið.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR