Sendir frá sér fjórar kvikmyndir í sama mánuðinum

Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi og leikstjóri kom að hvorki meira né minna en fjórum kvikmyndum sem allar voru frumsýndar nú í októbermánuði, ýmist á Íslandi, í Svíþjóð eða Bandaríkjunum.

Í byrjun mánaðar frumsýndi hann á RIFF frumraun sína sem leikstjóri, heimildamyndina Exxtinction Emergency. Hann er einnig aðalframleiðandi myndarinnar sem fjallar um alþjóðlegu umhverfisverndarsamtökin Extinction Rebellion. Myndin er sýnd í Bíó Paradís.

Á RIFF var einnig forsýnd kvikmynd Elfars Aðalsteins, Sumarljós og svo kemur nóttin. Sigurjón er einn framleiðenda myndarinnnar sem hefur verið í sýningum í kvikmyndahúsum frá 14. október.

Bíómyndin MK Ultra eftir Joseph Sorrentino, með Anson Mount og Jason Patric meðal helstu leikara, var frumsýnd í bandarískum kvikmyndahúsum 7. október. Sigurjón er einn yfirframleiðenda (executive producer).

Loks má nefna bíómyndina Hilma eftir hinn kunna sænska leikstjóra Lasse Hallström. Sigurjón er einn framleiðenda myndarinnar sem fjallar um listakonuna Hilma af Klint og var frumsýnd í Svíþjóð 19. október. Myndin er einnig í sýningum í Bíó Paradís. Hún er síðan væntanleg á Viaplay.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR