spot_img

DÝRIÐ hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, sem afhent voru rétt í þessu í Helsinki í Finnlandi.

Myndin var frumsýnd hér á landi í fyrrahaust en hafði áður verið heimsfrumsýnd á Cannes um sumarið þar sem hún vann til verðlauna. Hún hefur farið sigurför um heimsbyggðina og naut meðal annars mikillar velgengni í kvikmyndahúsum vestanhafs á síðasta ári.

Í september síðastliðnum hlaut hún tólf Edduverðlaun, þar á meðal sem kvikmynd ársins.

Rökstuðningur dómnefndar kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs er svohljóðandi:

„Í Dýrinu skapar Valdimar Jóhannsson einstaka frásögn um missi, sorg og hrylling. Þessi afar frumlega saga tekst á við sígild viðfangsefni um samskipti manns og náttúru og þær afleiðingar sem það getur haft að ögra þeim krafti sem í henni býr. Hún fjallar líka um þá fegurð og grimmd sem felst í foreldrahlutverkinu og hvernig við erum reiðubúin að grípa til örþrifaráða til að verja þá hamingju sem okkur finnst við eiga tilkall til. 

Upplifunin af kvikmyndinni er í senn truflandi og sérstæð. Næmni dýra fyrir jafnvel smæstu frávikum í umhverfinu er notuð með afar áhrifaríkum hætti til að skapa andrúmsloft undirliggjandi ógnar. Þetta er undirstrikað á meistaralegan hátt með gaumgæfinni kvikmyndatöku og uggvekjandi hljóðheimi. 

Hárbeitt notkun á fáum en merkingarþrungnum þáttum skapar andrúmsloft yfirvofandi hættu, svo úr verður ágeng stemning og áhrifamikil kvikmyndagerð. 

Dýrið er tilkomumikil frumraun Valdimars Jóhannssonar leikstjóra.“

Dýrið er fjórða íslenska kvikmyndin sem fær Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Hinar þrjár eru Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson 2018, Fúsi eftir Dag Kára fékk þau 2015 og Hross í oss eftir Benedikt hlaut verðlaunin 2014.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR