Ásgeir H. Ingólfsson menningarblaðamaður og ljóðskáld er látinn

Ásgeir H. Ingólfsson menningarblaðamaður og skáld er látinn, 48 ára að aldri. Hann lést í nótt eftir baráttu við krabbamein.

Ásgeir var einn helsti menningarblaðamaður landsins um margra ára skeið. Í þeim skrifum lagði hann mesta áherslu á kvikmyndir en fjallaði einnig reglulega um bókmenntir sem og aðrar listir.

Á Klapptré er að finna tugi greina eftir Ásgeir, bæði efni sem hann skrifaði sérstaklega fyrir Klapptré sem og efni sem hann vann fyrir aðra miðla, þar á meðal sinn eigin.

Þetta efni má sjá hér.

Þarna er að finna gagnrýni um bæði íslenskar og erlendar kvikmyndir, viðtöl við kvikmyndagerðarmenn og umfjallanir af fjölbreytti tagi.

Hann var nokkrum sinnum sérlegur fréttaritari Klapptrés á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg og einnig skrifaði hann reglulega um Berlínarhátíðina fyrir miðilinn. Það var alltaf gaman og forvitnilegt að lesa skrif Ásgeirs, hann var leitandi og oft heimspekilegur í sinni nálgun, með óvæntar tengingar og sýn á viðfangsefnin sem héldu manni á tánum.

Ásgeir hélt úti eigin vef, Menningarsmygli, um margra ára skeið og skrifaði einnig fyrir fjölmarga miðla, þar á meðal RÚV, Heimildina, Stundina, Kjarnann og Morgunblaðið.

Hann sendi frá sér tvær ljóðabækur, Framtíðina (2015) og Grimm ævintýri (2010).

Hans verður sárt saknað. Ég votta fjölskyldu hans og vinum innilega samúð.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR