spot_img
HeimGagnrýniFréttablaðið um "Tryggð": Æ sér gjöf til gjalda

Fréttablaðið um „Tryggð“: Æ sér gjöf til gjalda

-

„Tryggð er fal­leg, fanta­vel leikin en á­takan­leg bíó­mynd sem á brýnt erindi við ís­lenskan sam­tíma og okkur öll,“ segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu.

Þórarinn skrifar meðal annars:

Tryggð er stórmerkileg kvikmynd sem maður hefur einhvern veginn á tilfinningunni að allt of margir séu að láta fram hjá sér fara. Það væri mikið glapræði þar sem hér er á ferðinni ákaflega vönduð og vel gerð kvikmynd sem á brýnt erindi við okkur öll.

[…]

Myndin er ákaflega áferðarfögur, kvikmyndatakan er á köflum frábær og sviðsmyndin heillandi en mynda þó aðeins ramma um marglaga mannlegan harmleik utan um ágenga sögu. Upphaf, ris og endalok myndarinnar smella saman í firnasterka heild sem hálfpartinn bítur í halann á sjálfri sér þegar aðalpersónan er annars vegar.

Hin vel upplýsta, vel meinandi, hvíta, vestræna „góðmennska“ okkar í garð „hinna“ sem deila jörðinni með okkur kristallast í míkrókosmósinum sem hús Gísellu er.

Konurnar sem hún hýsir af hjarta­gæsku og á eigingjörnum forsendum hafa hrakist hingað undan fátækt, styrjöldum og annarri óáran sem er ekki síst afleiðing ofbeldis og vestræns yfirgangs í þeirra heimshluta árhundruðum saman.

Hin vestræna sektarblandna hjálpfýsi og góðmennska gagnvart þessu ógæfusama fólki („ekki segja „þetta fólk!““) persónugerist dásamlega í Gísellu sem er í raun holdgervingur allra okkar hvítu, vestrænu forréttinda.

Ljóst litaraftið og þjóðernið, sem opnar nánast hvaða dyr sem er, gerir Gísellu mögulegt að hætta í fússi í vinnunni sem henni leiðist í, taka sér góðan tíma til að „fara yfir málin“, láta sér leiðast í tómu, barnlausu húsi, sulla í rauðvíni og setja saman lausleg plön um að skrifa grein um fátæka innflytjendur.

Allt þetta getur hún leyft sér á sama tíma og vextir hlaðast ofan á lánin og gjaldþrot vofir yfir. Samt lúxus sem Abeba getur ekki einu sinni látið sig dreyma um þar sem hún stritar myrkranna á milli til þess að hafa þak yfir höfuð sitt og dóttur sinnar.

Smátt og smátt verður áhorfendum ljóst að samkennd Gísellu með konunum bágstöddu nær einungis svo langt sem konurnar samþykkja yfirburði hennar og halda sig við fyrirframgefin hlutverk sín sem konur sem eiga bágt og þurfa aðstoð.

Sjá nánar hér: Bíó­dómur: Æ sér gjöf til gjalda – Fréttablaðið

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

ÞAÐ NÝJASTA Á KLAPPTRÉ

Fáðu nýjasta efnið á Klapptré í pósthólfið þitt tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.

Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

NÝJUSTU FÆRSLUR