Lestin um „Tryggð“: Höktandi kvikmynd um hvítan bjargvætt

Tryggð tekur á stórum og mikilvægum málefnum, kjörum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og húsnæðismálum. Leikarahópurinn stendur sig vel, segir Marta Sigríður Pétursdóttir gagnrýnandi, myndin sé þó ekki gallalaus.

Marta Sigríður segir meðal annars í umsögn:

Tryggð og sérstaklega skáldsagan sem myndin er byggð á er allegóría fyrir samskipti þjóðríkis við innflytjendur. Það gilda ekki sömu reglur fyrir innflytjendur og innfædda/hvíta íbúa landsins frekar en leigjendur Gísellu. Gísella er ekki bara blind á eigin forréttindi heldur er persónan einnig holdgervingur hvíta bjargvættarins sem veldur óbætanlegum skaða í viðleitni sinni, sem er á endanum sjálfhverf, til þess að hjálpa öðrum. Bandaríski rithöfundurinn og sagnfræðingurinn Teju Cole lýsti fyrirbærinu „white-savior industrial complex“ sem gengur út á að velmegandi hvítir Vesturlandabúar ákveða að hjálpa hörundsdökku fólki í fátækum löndum til þess að öðlast tilfinningalega og innihaldsríka reynslu sem þjónar varla öðru en þeirra eigin egói. Þetta á ekki bara við um þá sem taka þátt í sjálfboðaliðatúrisma því í Tryggð eru það innflytjendur og erlendar konur í minnihlutahópi sem Gísella, „bjargar“ úr hörmulegu íbúðarhúsnæði. Markmið hennar virðist vera að setja sig á einhvers konar stall um leið og hún leysir eigin peningavandamál og eignast nýjar vinkonur en hún sér einnig í konunum atvinnutækifæri. Hana vantar vitaskuld pening og þegar greinaskrifin um innflytjendamálin sigla í strand ætlar hún sér að fiska upp úr konunum sögur af erfiðri fortíð þeirra og ástæðu flutninga til Íslands yfir vínglasi og kvöldverði. Gísella virðist líka halda að hún viti betur en Ubeba hvað sé best fyrir dóttur hennar.

Gísella er líka táknræn fyrir andlausa og leiðinlega vestræna millistétt sem endurnýjar lífsþrótt sinn með því að eigna sér menningu og menningarafurðir þjóða í hinu hnattræna suðri sem oftar en ekki hafa verið undirskipaðar og arðrændar af vestrænni nýlendustefnu en þeim Marisol og Ubebu fylgir tónlist, dans og gleði þrátt fyrir alla þá erfiðleikana sem þær hafa gengið í gegnum. Gísella á hlutdeild í gleðinni þangað til henni finnst konurnar, sem þó borga henni leigu, seilast einum of langt inni í hennar persónulega rými, húsið sem hún erfði.

Í Tryggð er því tekið á stórum og mikilvægum málaflokki, sem eru aðstæður og kjör kvenna af erlendum uppruna á Íslandi sem og húsnæðismálum. Ásthildur Kjartansdóttir leikstjóri hefur áður verið á svipuðum slóðum í heimildarmyndinni Noi, Pam og mennirnir þeirra, frá árinu 2002, sem fjallar um tvær tælenskar konur sem flytjast til Íslands og giftast íslenskum mönnum.

Tryggð er þó ekki gallalaus kvikmynd. Hún höktir nokkuð af stað og frásagnarframvindan var svolítið einfeldningsleg á köflum eins og þegar Gísella, í rannsóknarblaðamannsham, fer á hjólinu sínu á eftir manninum sem hirðir hjá henni dósir og flöskur og eltir hann þangað til hann kemur að atvinnuhúsnæðinu hrörlega þar sem hún finnur Marisol og Ubebu. Einnig hefði mátt vinna betur með samtölin sem voru á köflum stirð og ónáttúruleg. Hljóðið var ekki alveg nógu gott heldur, sem er alltaf hvimleitt vegna þess að það dregur úr innlifun áhorfandans þegar meðvitundin um sviðsetninguna verður yfirgnæfandi.

Marisol er leikin af Raffaellu Brizuela Sigurðardóttur, með hlutverk Ubebu og Lunu fara þær Enid Mbabazi og Claire Harpa Kristinsdóttir. Leikarahópurinn stendur sig vel og sérstaklega með tilliti til þess að þær Raffaella, Enid og Claire voru allar óreyndar leikkonur áður. Sérstaklega fannst mér leikur Enid áhrifamikill, Ubeba er eins konar móralskur áttaviti myndarinnar, án þess að hún sé einhver dýrlingur, en heilindi hennar og styrkur eru nauðsynleg mótstaða við hina óöruggu og óþægilegu Gísellu. Það verður enginn áhorfandi ósnortinn af lokasenu myndarinnar sem er í raun endurgerð atburða sem hafa átt sér stað oftar en við kærum okkur um að vita hér á landi. Stofnanavætt ofbeldi í boði yfirvalda og hinnar óhamingjusömu og bitru Gísellu, sem leitar hefnda þegar hún fær ekki vilja sínum framgengt í samskiptum við konurnar, sem afhjúpar kynþáttafordómana sem krauma undir niðri.

Sjá nánar hér: Höktandi kvikmynd um hvítan bjargvætt

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR