Davíð Þór Jónsson fær Hörpu

Davíð Þór Jónsson tónskáld.

Davíð Þór Jónsson tónskáld hlaut Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin 2019 í Berlín í dag fyrir tónlist sína í kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð.

RÚV greinir frá og þar segir:

Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í norrænu sendiráðunum í Berlín í dag og er þetta í níunda sinn sem verðlaunin eru veitt. Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin bera heitið Harpa og eru veitt árlega einu tónskáldi frá Norðurlöndum. Davíð Þór Jónsson var viðstaddur verðlaunaafhendinguna auk leikstjórans Benedikts Erlingssonar og annarra fulltrúa kvikmyndarinnar, Kona fer í stríð. Sendiherra Íslands í Berlín, Martin Eyjólfsson, setti hátíðina.

Davíð Þór var tilnefndur til verðlaunanna af STEFi fyrir Íslands hönd og segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar að tónlist Davíðs Þórs spili mikilvægt og frumlegt hlutverk í myndinni. Davíð enduruppgötvar hina klassísku grísku harmleiki Evripídesar og Sófóklesar og heimfærir á smekklegan hátt uppbyggingu myndarinnar. Sú nálgun sé í senn þýðingarmikil og tilfinningalega stór hluti frásagnarinnar. Aukinheldur er aðalpersóna myndarinnnar kórstjóri og undirstrikar hvernig tónlistin er rauður þráður í gegnum myndina.

Athygli vekur að þetta er í þriðja sinn á aðeins fjórum árum sem íslenskt tónskáld hlýtur þessi virtu verðlaun en í fyrra fékk Daníel Bjarnason þau fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Undir trénu og fyrir þremur árum, eða árið 2016 hlaut Atli Örvarsson verðlaunin fyrir tónlistina við kvikmyndina Hrútar. Það sama ár fékk Jóhann Jóhannsson sérstök heiðursverðlaun hátíðarinnar.

Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin eru styrkt af Nordic Filma and TV Foundation, Norræna menningarsjóðnum og norrænu sendiráðunum í Berlín. Í dómnefnd verðlaunanna sitja í ár þau: Christine Aufderhaar, tónhöfundur frá Sviss, George Christopoulos umboðsmaður kvikmyndatónlistar frá Grikklandi og tónlistarhátíðarstjórinn Florian Vollmers frá Þýskalandi. Í íslensku dómnefndinni sátu þau Margrét Örnólfsdóttir, Hilmar Örn Hilmarsson, Hilmar Oddsson, Pétur Jónsson og Guðrún Björk Bjarnadóttir.

Sjá nánar hér: Davíð Þór hlýtur tónskáldaverðlaun

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR