spot_img

Eðvarð Egilsson tilnefndur til Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunanna

Eðvarð Egilsson er tilnefndur fyrir Íslands hönd til Hörpu-verðlaunanna, sem samtök norrænna kvikmyndatónskálda veita ár hvert.

Sagt er frá þessu á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Eðvarð er tilnefndur fyrir tónlistina sem hann samdi fyrir heimildamyndina Smoke Sauna Sisterhood, eftir eistnesku kvikmyndagerðarkonuna Önnu Hints. Myndin er samframleiðsla milli Eistlands, Frakklands og Íslands og hefur hún farið mikla sigurför um heiminn síðan hún var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni í upphafi árs.

Í umsögn dómnefndar segir að það sé sjaldgæft að verða vitni að slíku samspili tónlistar og frásagnar. „Tónlistin á í gagnkvæmu sambandi við hárfína hljóðhönnun, sjónþætti og orð, sem verður að einstakri upplifun þar sem heildin er mun stærri en summa einstakra þátta.“

Þetta er annað árið í röð sem Eðvarð er tilnefndur til verðlaunanna. Framlag Íslands í fyrra var tónlist hans og Páls Ragnars Pálssonar við kvikmyndina Skjálfta.

Íslenska dómnefndin er skipuð Hilmari Erni Hilmarssyni, Hilmari Oddssyni, Margréti Örnólfsdóttur og Pétri S. Jónssyni. Hörpu-verðlaunin voru stofnuð árið 2009 með það fyrir augum að vekja athygli á hæfileikafólki á sviði kvikmyndatónlistar á Norðurlöndum.

Nánari upplýsingar um Hörpu verðlaunin er að finna á heimasíðu hátíðarinnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR