spot_img

“Pabbahelgar”: gamanþættir um sjálfhverfu hliðina á skilnaði

Nanna Kristín Magnúsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson fara með helstu hlutverk í Pabbahelgum eftir Nönnu Kristínu.

Nanna Kristín Magnúsdóttir framleiðir, skrifar, leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum Pabbahelgar sem verða sýndir á RÚV í haust en tökum lauk nú fyrir skemmstu.

Sagt er frá þessu á vef RÚV:

Pabbahelgar fjalla um konu um fertugt sem kemst að því að maðurinn hennar hefur verið henni ótrúr en hún gerir allt sem hún getur til að halda í kjarnafjölskylduna sína. „Svo er það hvernig það tekst til,“ segir Nanna Kristín.  „Efnistökin eru dramatísk en ég reyni að sýna þetta frá spaugilegri hlið.“

Nanna Kristín hefur unnið að þáttunum síðastliðin fimm ár en hugmyndin er sprottin úr hennar eigin reynsluheimi.

„Ég upplifði tvo skilnaði. Foreldrar mínir voru ekki par og síðan skildu mamma mín og fósturpabbi. Svo voru margir í kringum mig að skilja og þar fékk ég hugmyndina. Í millitíðinni skildi ég sjálf og setti þá verkefnið aðeins til hliðar, enda fjallar það ekki um mig og minn skilnað. En það geta örugglega allir fundið eitthvað sem þeir tengja við í þessum þáttum. Ég er að reyna að finna spaugilegu hliðina á því hversu sjálfhverft fólk getur verið þegar það er í þessum sporum.“

Nanna Kristín er potturinn og pannan í framleiðslunni og segir að stundum þurfi að ganga í hlutina sjálfur til að þeir verði að raunveruleika.

„Í þessum bransa er það svolítið þannig. Þetta er ekki efni sem er söluvænlegt við fyrstu sýn, það deyr enginn, enginn lokaður inn í snjó og engar byssur. En það er mikið um hversdagslíf, dramað er hver á að sækja í leikskólann. Og svo er kynlíf – það selur víst líka.“

Sjá nánar hér: Gamanþættir um sjálfhverfu hliðina á skilnaði

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR