Nanna Kristín: Ég hef ekkert á móti karlmönnum

Nanna Kristín Magnúsdóttir ræðir um ferilinn og fyrstu bíómynd sína, Abbababb!, í Mannlega þættinum á Rás 1.

Segir á vef RÚV:

Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstjóri segir eitt af sínum fyrstu verkum, þegar hún tók við leikstjórn kvikmyndarinnar Abbababb, hafa verið að skipta aðalhlutverkinu úr strák yfir í stelpu og bæta við fleiri kvenhlutverkum. Þetta hafi hún ekki gert því hún hafi eitthvað á móti körlum heldur sé þetta skref í að breyta sögunni og jafna hlutföllin.

Nanna Kristín Magnúsdóttir hefur borið marga hatta og er meðal annars leikkona, handritshöfundur og leikstjóri. Um helgina var frumsýnd kvikmyndin Abbababb sem Nanna leikstýrir og skrifaði handritið að og er byggð á leikriti og lögum Dr. Gunna.

Nanna er gestur Mannlega þáttarins á Rás 1 og ræðir hvernig hún hefur farið á handahlaupum í gegnum lífið.

Vonaðist til að verða uppgötvuð
Þegar Nanna var ung langaði hana rosalega að leika í auglýsingum og spurði stjúpföður sinn ævinlega hvort vinnustaðurinn hans þyrfti ekki að auglýsa sig. Hann starfaði í versluninni Teppaland-Dúkaland og alltaf þegar hún heimsótti hann þangað gerði hún handahlaup á tepparúllunum í von um að einhver uppgötvaði hana.

Nanna bjó á Akureyri til sex ára aldurs og flutti þá til Trollhättan í Svíþjóð í tvö ár. Hún rifjar upp að hafa alltaf langað til að leika Lúsíu en fékk það aldrei. „Ég var alltaf í aukahlutverki þar,“ segir hún. „Ég var frekar feimið og introvert barn, og er það reyndar enn þá.“ Hún fari í ákveðinn gír þegar hún komi fram en dragi sig svo aftur inn í skelina þegar hún stígi úr sviðsljósinu.

„Einn góður vinur minn sagði við mig: Nanna, þú ert svo góð leikkona því það sést alltaf á þér hvernig þér líður, þú kannt ekki að vera með pokerface,“ segir Nanna. „Án þess að ég sé að skjalla sjálfa mig.“

„Ef Ólafur Darri komst inn þá kemst ég inn“
Eftir dvölina í Svíþjóð flutti Nanna í Vesturbæinn, gekk í grunnskólana þar og fór svo þaðan í Menntaskólann í Reykjavík. „Ég ætlaði alltaf að verða barnalæknir og hefði örugglega bara verið mjög góð í því,“ segir hún. „En ég tók þátt í leiklistarnámskeiði í Hagaskóla og síðan í MR var ég í Herranótt. Þá var eiginlega ekki aftur snúið.“

Einn besti vinur Nönnu, Ólafur Darri, reyndi við leiklistina í Listaháskólanum og komst inn. „Ég hugsaði að ef hann komst inn þá kemst ég inn,“ segir hún og gekk það eftir.

Þann tíma sem Nanna varði í leiklistarnáminu lýsir hún sem áhugaverðum. „Ég myndi segja að ég hafi verið ung og ekki mjög þroskuð. Stóri draumurinn var að vera fastráðin hjá Þjóðleikhúsinu og það náðist eftir eitt ár, það var toppurinn.“ Hún hefur leikið í alls kyns leikritum, sjónvarpsþáttum og bíómyndum en aldrei rættist draumurinn að fara á handahlaupum í auglýsingu.

Dæmi um hvernig eigi ekki að gera kvikmynd
Frá árdögum Vesturports var Nanna með í leikfélaginu og lagði mánaðarlega í púkk fyrir klósettpappír. „Það var svona það sem þurfti að gera til að reka leikfélagið,“ segir hún. „Við komum okkur fyrir á Vesturgötu og ég tók þátt í fyrsta verkinu sem Egill Heiðar leikstýrði,“ bætir hún við. „Síðan hefur það bara farið á flug og þróast og gert náttúrulega stórkostlega stóra hluti.“

Kvikmyndirnar Börn og Foreldra kannast eflaust flestir Íslendingar við en Nanna segir þær vera dæmi um hvernig eigi ekki að gera kvikmynd. „Svona low eða non budget og að fá vini og vandamenn, það gerir maður bara einu sinni,“ segir hún. „Þetta er ekki góð fyrirmynd, það á að setja miklu meiri peninga í kvikmyndir og sjónvarp og listir.“

„Ég var bara frekar góð í þessu“
Eftir að hafa verið leikkona um nokkurt skeið ákvað Nanna að breyta til og prófa eitthvað nýtt. „Þetta var í kringum þegar við erum að frumsýna Börn og Foreldra. Þá var ég heltekin af því að búa til bíómyndir,“ segir hún. „Svo ég sagði upp þessum fasta samning hjá Þjóðleikhúsinu, það voru ekki mjög margir sem gerðu það á þessum tíma. En ég ákvað að hoppa í djúpu laugina.“

Hún fór í kvikmyndagerðarnám í Vancouver í Kanada og einbeitti sér að handritaskrifum fyrir kvikmyndir og sjónvarp. „Það kom mér á óvart að ég var bara frekar góð í þessu,“ segir hún og hlær. „Mig langaði upprunalega að verða leikstjóri en mér fannst ég þurfa að læra handritagerð. Við konur erum svolítið mikið í því, við þurfum alltaf að læra áður en við gerum.“

Nönnu þykir gríðarlega gaman að vera í námi og tekur sem dæmi að hún hafi einnig farið í endurmenntun þegar hún var hjá Þjóðleikhúsinu og lærði markaðsfræði og alþjóðaviðskipti og nýverið lauk hún leiðtoganámi sem hefur gagnast henni gríðarlega sem leikstjóri.

„Ég hef ekkert á móti karlmönnum“
Þegar Abbababb kom til sögunnar hafði Nanna verið að vinna í handriti upp úr bók Steinars Braga, Konum. „Þar er verið að fjalla um hlutgervingu á konum og feðraveldið og mér fannst ég þurfa að segja ansi mikið þar,“ segir hún. „Sú mynd var ekki gerð og verður ekki gerð, alla vega ekki af mér.“ Þá hafi framleiðendur Abbababb komið á máli við hana og boðið henni að leikstýra myndinni.

„Ég setti mínar kröfur, að ég mætti endurskrifa handritið til að koma minni sögu á framfæri,“ segir Nanna. Það sé ágætt að gera því það getur tekið mörg ár að koma kvikmynd á koppinn og maður verður að hafa hjartað til staðar og gefa sig allan í verkið.

Nanna hafi byrjað á að skipta aðalhlutverkinu úr strák yfir í stelpu og skrifa fleiri hlutverk, aðallega kvenhlutverk. „Ég hef ekkert á móti karlmönnum. En sagan er þannig, alveg frá Shakespeare, að það eru fleiri karlapersónur en konur. Þannig þetta er eitt skref í að breyta sögunni.“

Fullorðið fólk flækir hlutina
Oft er sagt að það sé erfitt að leikstýra krökkum, þessu er Nanna ósammála. Í myndinni eru um 200 krakkar og 85 þeirra hafa hlutverk með nafni. „Það er ekkert erfitt að leikstýra börnum, eða mér finnst það ekki,“ segir hún. „Börn eru svo opin og einlæg. Þau bara spyrja ef þau þurfa að spyrja og ef maður nær traustinu þá taka þau því bókstaflega sem maður segir.“ Biðji hún þau um að gera hlut A þá geri þau hlut A. En fullorðið fólk, og leikarar þá sérstaklega, spyrji miklu frekar: „Þegar þú segir hlut A, ertu samt ekki að meina hlut B? Eða jafnvel C?“

„Við flækjum hlutina. Kannski er það reynslan sem hefur gert okkur smá bitur og óttinn í okkur, að við viljum tryggja okkur fyrir fram, það gæti verið,“ segir Nanna sposk.

„Þetta þarf ekki að vera dramatískt“
„Ég er ekki að segja að öll börn séu eins, sum börn er hægt að tala við á tilfinningalegum nótum og kannski rifja upp eitthvað sem hefur gerst fyrir þau á lífsleiðinni,“ segir Nanna og bætir við að það þurfi ekki að vera dramatískt, það geti líka verið gleði. Öðrum börnum þurfi hún að sýna hvað þau eigi að gera og svo endurtaki þau eins og hún hafi smellt á klippa og afrita. Þetta eigi sérstaklega við um krakka sem koma úr íþróttum þar sem mikill agi er, líkt og fimleikum og karate.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR