spot_img

Sagafilm kaupir réttinn að skáldsögunni “Hilma”

Við undirritun samning um sjónvarpsgerð Hilmu: frá vinstri. Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, Ragnar Agnarsson, leikstjóri/framleiðandi hjá Sagafilm, Óskar Guðmundsson rithöfundur, Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti & Veröld.

Sagafilm hefur tryggt sér rétt til að þróa leikna sjónvarpsþáttaröð byggða á skáldsögunni Hilmu eftir Óskar Guðmundsson. Pétur Már Ólafsson hjá Bjarti & Veröld og Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm undirrituðu fyrir helgi samning þess efnis.

Hilma kom fyrst út árið 2015 og hlaut Blóðdropann árið 2016 sem besta íslenska glæpasagan. Bókin var í framhaldinu framlag til Íslands til Glerlykilsins sem besta glæpasagan á Norðurlöndunum.

Hilma fjallar um samnefnda lögreglukonu sem fær sjálfsvíg til rannsóknar. Málið tekur óvænta stefnu þegar Hilma tengir það þremur eldri dauðsföllum sem hafa verið afgreidd sem slys eða sjálfsvíg. Öll eiga þessi mál rætur að rekja til atburðar sem átti sér stað fyrir meira en tveimur áratugum. Sjálf er Hilma skyndilega komin í æsispennandi kapphlaup við tímann þegar harðsvíraður glæpamaður er fast á hæla henni.

„Hilma heillaði mig strax við fyrsta lestur en persónan sjálf er þaulhugsuð og hún er frábært mótvægi við harðan heim ofbeldis og glæpa. Sá veruleiki sem Óskar hefur skapað í bókunum um Hilmu er allt í seinn, raunsær og átakanlegur en umfram allt spennandi,” segir Ragnar Agnarsson framleiðandi og leikstjóri hjá Sagafilm, en fyrirhugað er að hann muni leikstýra þáttaröðinni.

Um það leyti sem bókin kom út gerði Þórómar Jónsson leikstjóri samning við rétthafa um kvikmyndarétt að bókinni og var skýrt frá því á Klapptré, sem og nokkru síðar þegar Ottó Geir Borg var falið að skrifa handritið. Þau áform hafa ekki gengið eftir, eins og títt er í kvikmyndabransanum, en það að verkefnið skuli nú sett upp sem þáttaröð fyrir sjónvarp segir sína sögu um þær áherslubreytingar sem eru að eiga sér stað í kvikmynda- og sjónvarpsheiminum, ekki síst hvað varðar þessa tegund efnis.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR