Meðlimur í valnefnd lýsir yfir vantrausti á stjórn ÍKSA

Hulda Rós Guðnadóttir kvikmyndagerðarkona (Keep Frozen) og einn valnefndarmeðlima vegna tilnefninga til Edduverðlauna, birti á dögunum yfirlýsingu á Facebook síðu sinni sem og bréf til stjórnar ÍKSA, þar sem hún gagnrýnir þá ákvörðun stjórnarinnar að fella niður Edduverðlaunatilnefningu til heimildamyndarinnar 690 Vopnafjörður. Hulda segist meðal annars íhuga að sniðganga hátíðina fái hún ekki útskýringar á því hvers vegna myndin var fjarlægð úr tilnefningum. Myndin var frumsýnd 2017, en aðeins má tilnefna myndir sem frumsýndar voru 2018 samkvæmt starfsreglum Eddunnar.

Færsla Huldu Rósar er svohljóðandi:

HNEYKSLISMÁL HJÁ ÍKSA. Alvarlegt mál hefur komið upp og er ég neydd til að lýsa yfir vantrausti á stjórn ÍKSA og Eddunnar. Þannig er það að vegna mistaka árið 2018 (fer út í ábyrgð seinna) þá fékk myndin 690 Vopnafjörður undantekningu til að vera með í val á tilnefningum sem besta heimildarmyndin árið 2018 en þá var myndin frumsýnd erlendis. Var þessi undantekning gefin m.a. vegna áskoranna þeirra sem stóðu á vali á tilnefningum í fyrra og kvörtuðu undan fjarveru myndarinnar úr tilnefningarmöguleikum. Nú gerðist það sem búist var við að 690 Vopnafjörður var ein þeirra þriggja heimilidarmynda sem hlaut tilnefningu. EFTIR AÐ TILNEFNINGAR VORU GERÐAR OPINBERAR þá dró Eddunefndin undanþáguna tilbaka. Þetta er ekki bara stórhneyskli á alþjóðlegum skala og mikil hneysa fyrir akademíuna og svartur blettur á íslenskri kvikmyndagerðasenu heldur sá ófagleiki og spilling sem við erum að reyna að komast frá. Í dag sendi ég framvæmdastjóra ÍKSA eftirfarandi bréf og hef í framhaldi af því að kjörseðlar voru sendir út eftir það óskað eftir skriflegu svari innan sólarhrings. Ég hef ekki fengið neitt skriflegt svar en reynt var að hringja í mig í dag en ég tel þetta ekki vera efni í persónuleg símtal heldur efni fyrir skriflegt svarabréf með greinargóðum og vel rökstuddum skýringum þar sem ásakanir eru þungar. Hér er bréfið sem ég skrifaði og birt hér opinberlega til að hafa þetta gegnsæ samskipti:

Sæl X,

Ég hef fengið fréttir af máli sem bendir til spillingar í röðum ÍKSA og bið ég hér um formlega útskýringar sem birta má opinberlega sem hluti af opinberri athugasemd sem ég mun birta um máli og senda fréttatilkynningu á alla helstu fjölmiðla. Jafnframt íhuga ég að sniðganga Eddu verðlaunahátíðina vegna málsins.

Ég tala bæði sem Eddu verðlaunahafi á sviði heimildarmynda og sem dómari á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum á sviði skapandi heimildarmynda auk þess að hafa veri í hópi þeirra sem völdu tilnefningar í ár. Eitthvað sem ég gerði í sjálfboðaliðsvinnu.

Nú er það þannig að ég gaf heimildarmyndinni 690 Vopnafjörður hæstu einkun. Hún var eina heimildarmyndin meðal þeirra sem sendar voru inn sem mátti flokka sem ‘creative documentary’ og sem hefði átt erindi á alþjóðlegar kvikmyndahátíðir. Þetta er mjög alvarlegt mál.

Nú hef ég frétt að eftir að ljóst varð að 690 Vopnafjörður náði tilnefningu þá hafi undanþága til þátttöku verið dregin tilbaka. Þessi vinnubrögð eru mjög ófagleg, skaðleg íslenskri kvikmyndagerð í heild sinni og forkastanleg. Það má ekki láta spillingu í fámennum hópi og hagsmuni einstakra aðila kasta slíkum skugga á þessi verðlaun.

Með von um fagleg viðbrögð,

Hulda Rós Guðnadóttir

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR