Gerir bíómynd um pýramídasvindl í smábæ

Rammi úr Þrot eftir Heimi Bjarnason.

Heimir Bjarnason vinnur nú að fyrstu bíómynd sinni, Þrot. Myndin er á lokastigum eftirvinnslu og er stefnt að því að hún komi út næsta vor.

Að sögn Heimis gerist myndin í íslensku smábæjarsamfélagi sem er heltekið af nýjasta pýramídasvindlinu og hvaða áhrif það hefur á líf þeirra sem sagan fjallar um. Tökur fóru að mestu leyti fram á Hvolsvelli og Suðurlandsundirlendinu síðsumars 2018.

Bára Lind Þórarinsdóttir, Anna Hafþórsdóttir og Bjarni Snæbjörnsson fara með helstu hlutverk ásamt Pálma Gestssyni og Guðrúnu S. Gísladóttur. Kvikmyndataka er í höndum Nicole Elizabeth Goode.

Heimir nam leikstjórn við Prague Film School og útskrifaðist 2016. Hann hefur síðan unnið að ýmsum verkefnum.

„Ég hef haft áhuga á kvikmyndagerð frá því að ég man eftir mér. Ég gerði mínu fyrstu stuttmynd um 9 ára aldur á Sony Ericsson síma og þegar ég var 12 ára senti ég Tarantino mitt fyrsta handrit á ensku. Hann svaraði því með handskrifuðu bréfi sem ég get alltaf gripið til þegar mig vantar smá boost og missa ekki dampinn í kvikmyndagerðinni. Ég hef leikstýrt um 12 stuttmyndum á seinustu 10 árum. Hugmyndin að Þroti varð fyrst til í menntaskóla þar sem ég stofnaði nefnd með það markmið að framleiða mynd í fullri lengd. Því miður tókst það ekki en seinustu fimm ár hafa farið í þróun og fjármögnunarferli fyrir myndina. Svo komst ég loksins í tökur í fyrra með almennilegt crew og nógu mikið budget til að gera myndina eins og ég vildi hafa hana,“ segir Heimir.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR