Grímur Hákonarson og Arndís Hrönn Egilsdóttir ræða „Héraðið“

Arndís Hrönn Egilsdóttir fer með aðalhlutverkið í Héraðinu.

Héraðið eftir Grím Hákonarson verður frumsýnd um land allt í dag. Myndin byggist á sönnum atburðum í kringum Kaupfélag Skagfirðinga, svo lygilegum að leikstjórinn fann sig að eigin sögn knúinn til að setja þá á svið. Rætt var við Grím og Arndísi Hrönn Egilsdóttur, sem fer með aðalhlutverkið, í Mannlega þættinum á Rás 1.

Úr viðtalinu:

Héraðið fjallar um samskipti Ingu, miðaldra kúabónda, við kaupfélagið og kerfið. Grímur, sem einnig skrifar handritið, kynnti sér Kaupfélag Skagfirðinga frá ýmsum hliðum og átök í kringum það urðu honum innblástur að myndinni. „Þarna eru þau hjónin að reka róbótafjós. Þau hafa fjárfest miklu og orðin háð Kaupfélaginu sem þau skulda háar upphæðir,“ segir Grímur. Inga, sem leikin er af Arndísi Hrönn Egilsdóttur, sættir sig ekki við ástandið og ákveður að fara í hart við Kaupfélagið. „Hún hættir að una þessu og byrjar að spyrja gagnrýnna spurninga. Hún skrifar grein á Facebook og hristir upp í hlutunum.“ Það verða í kjölfarið mikil átök í myndinni sem Grímur segir að sé að miklu leyti pólitísk. „Þetta verður sprengja,“ lofar hann sposkur.

Sjálfur er Grímur alvanur því að gera heimildarmyndir en hann hefur leikstýrt myndum á borð við Litlu Moskvu og Hreint hjarta. Fyrst þegar hann fékk veður af sögunni hvarflaði eðilega að honum að gera heimildarmynd um Kaupfélagið en hann komst brátt að því að það væri ekki rétta leiðin. „Ég spjallaði því við fólk í Skagafirði og það voru allir til í að hittast í kaffi og slúðra en enginn vildi koma í viðtal. Þá áttaði ég mig á að það yrði að setja þetta á svið,“ segir hann. „Þetta á sér allt stoð í raunveruleikanum og oft er raunveruleikinn lygilegastur af öllu.“

Handtökur, greinarskrif og óbeit á Sjálfstæðisflokknum

Sjálfur segist Grímur hafa róast með aldrinum, en þegar hann var yngri var honum gjarnan heitt í hamsi og mjög pólitískur. „Þegar ég var um tvítugt var ég alltaf að láta handtaka mig niðri í bæ og skrifa greinar í blöðin,“ rifjar hann upp og hlær. „Ritstíllinn minn var eins og í gamla Þjóðviljanum, maður var að hamra á fólki. Svo færði ég mig yfir í kvikmyndagerðina og ég sé heiminn út frá henni í dag. Í gamla daga fór ég kannski á djammið og hitti Sjálfstæðismann og þá fór allt kvöldið í að rífast um pólitík en í dag ef ég hitti einn slíkan hef ég meiri áhuga á persónunni.“

Leikkonan Arndís Hrönn fer með hlutverk kúabóndans Ingu en þetta er stærsta hlutverk hennar á skjánum til þessa. „Ég hef sjálf aldrei verið í sveit og hef ekkert verkvit. Ég er fræg fyrir að kunna varla að setja tappa á flösku,“ hlær leikkonan aðspurð um reynslu í sveitamennsku. Arndís ákvað því að fara í sveit rétt áður en tökur hófust til að læra réttu handtökin. „Ég tók rútuna til hennar Heiðu í Skaftártungu, var eins og níu ára með litla köflótta tösku og kíló af lakkrís.“ Hún segist hafa lært mikið af dvölinni og reynt að gera gagn í búskapnum. Um leið segist hún hafa upplifað ást bændanna á skepnunum og að það hafi snert sig verulega. „Þannig komst ég í tæri við mig eigin bónda og nú gæti ég ráðið mig sem kaupakonu hvert sem er.“

Arndís Hrönn Egilsdóttir er bóndinn Inga og Sigurður Sigurjónsson er kaupfélagsstjórinn í Héraðinu.

Hræddust við að það skorti trúverðugleika í búverkunum

Mynd­ina Hrút­a í leikstjórn Gríms sem kom út árið 2015 þekkja flestir. Sú mynd fór sigurför um heiminn og vann meðal annars til Un Certain Regard-verðlaun­anna á einni virtustu kvikmyndahátíð heims, í Cann­es. Eftir velgengni hennar eru væntingarnar til nýjustu myndar hans eðlilega miklar en leikstjórinn lætur pressuna ekki stíga sér til höfuðs. Hrútar gerast einnig á landsbyggðinni en Grímur segir að þetta sé síðasta landsbyggðarmyndin sem hann gerir í bili, en hann er nú þegar með mörg járn í eldinum.

Við tökur á Hrútum naut leikstjórinn liðsinnis bónda sem aðstoðaði hann við að gera bændalífið sem trúverðugast á skjánum. Það sama er uppi á teningnum með Héraðið. „Bóndinn er ráðgjafi fyrir mig, hann fylgist með því sem er að gerast og stoppar mig ef eitthvað er að klikka svo hlutirnir fari rétt fram.“ Þetta er gert til að auka trúverðugleika á hlutverki fólksins í sveitinni svo það sjáist ekki á skjánum að þarna séu leikarar sem ekki kunni sömu handtök og persónurnar sem þau túlka. „Við erum búin að sýna myndina í sveitinni, bæði í Hvammstanga og í Búðardal og ég spurði nokkra hvort þau hefðu trúað Arndísi sem bóndakonu og það voru allir mjög sáttir,“ segir hann stoltur. „Þetta var einmitt það sem ég var hræddust við, að það vantaði upp á trúverðugleikann í búverkunum,“ tekur Arndís undir og hlær.

„Ég hef alltaf verið aðdáandi Arndísar,“ segir Grímur ákveðinn um aðalleikkonuna. „Mér finnst hún leika lágstemmt og hún er eðlileg. Það voru ekki neinar prufur fyrir þetta hlutverk, ég hafði samband við hana áður en handritið kláraðist og alltaf frá því að ég hitti hana fyrst í persónu sá ég bara Ingu. Mér fannst ég vera að hitta hana sjálfa.“

Sjá nánar hér: Oft er raunveruleikinn lygilegastur af öllu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR