spot_img

Grímur Hákonarson: Laufey á mikinn þátt í gróskunni í íslenskri kvikmyndagerð

Grímur Hákonarson leikstjóri og handritshöfundur leggur út af viðtali við Laufeyju Guðjónsdóttur við Nordic Film and TV News þar sem hún ræðir feril sinn. Hann þakkar henni meðal annars fyrir ómetanlegt framlag til íslenskrar kvikmyndagerðar.

Grímur segir á Facebook síðu sinni:

Það er ekki öfundsvert hlutskipti að stýra stofnun sem allt kvikmyndagerðarfólk í landinu reiðir sig á og á allt sitt undir. Að bera ábyrgð á lífsafkomu og framgangi heillar stéttar. Að standa í stafni fyrir þessa brothættu menningargrein sem oft hefur þurft að berjast fyrir lífi sínu.

Þessu hlutverki hefur Laufey Guðjónsdóttir gegnt í 20 ár og hún hefur að mínu viti gert það vel, þrátt fyrir að maður hafi ekki alltaf verið sammála henni. Hún hefur haft ákveðna sýn og á mikinn þátt í þeirri grósku sem hefur átt sér stað í íslenskri kvikmyndagerð á síðustu árum og vakið hefur heimsathygli. Þegar hún tók við voru íslenskir leikstjórar sem voru þekktir utan landsteinanna teljandi á fingrum annarrar handar. En í dag eru ekki til nógu margir fingur til að telja þá. Fjöldi framleiddra verka hefur einnig aukist mikið í hennar tíð og nú ber ekki lengur til tíðinda þegar íslensk kvikmynd er frumsýnd í bíó eða þegar leiknar seríur fara í loftið hjá sjónvarpsstöðvunum.

Ég er sammála því að 20 ár er of löng seta fyrir manneskju í þessari stöðu en það er ekki við Laufeyju að sakast í þeim efnum heldur þarf einfaldlega að breyta reglunum. Á þessum tímamótum væri ekki vitlaust að nota tækifærið og endurskoða regluverk KMÍ, t.d. hvað forstöðumaður og ráðgjafar mega sitja lengi, því það er ekki bara Laufey sem að setið hefur lengur en góðu hófi gegnir.

Ég óska Laufeyju velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur næst og þakka henni fyrir hennar ómetanlega framlag til íslenskrar kvikmyndagerðar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR