spot_img
HeimViðtölKatrín Björgvinsdóttir: Karlrembulegt viðhorf kveikti neistann

Katrín Björgvinsdóttir: Karlrembulegt viðhorf kveikti neistann

-

Katrín Björgvinsdóttir (mynd: Stephanie Staal).

Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri er í viðtali við Mannlíf þar sem hún ræðir um lokamynd sína frá Danska kvikmyndaskólanum, Dronning Ingrid.

Úr viðtalinu:

Katrín Björgvinsdóttir er ungur leikstjóri á uppleið. Hún útskrifaðist úr danska kvikmyndaskólanum Den Danske Filmskole í vor og hefur fengið frábæra dóma í þarlendum fjölmiðlum fyrir lokaverkefni sitt Dronning Ingrid eða Ingrid drottning. Katrín segir viðbrögðin hafa komið skemmtilega á óvart því hún hafi, satt best að segja, ekki átt von á að saga ungrar konu í tilvistarkreppu myndi höfða til jafnbreiðs hóps áhorfenda og raun ber vitni.

„Það er frábært að fá þessi jákvæðu viðbrögð. Ég var sjálf mjög ánægð með útkomuna en reiknaði ekkert endilega með því að þetta kæmi til með að falla í kramið hjá öllum. Þetta er nefnilega einföld saga um hversdagslegar og frekar prívat tilfinningar og ég var búin að ímynda mér að viðfangsefnið myndi tala mjög skýrt til einhverra áhorfenda en að aðrir kynnu að afskrifa það sem eitthvað sem skipti engu máli.“

Lokaverkefnið, Dronning Ingrid, fjallar að sögn Katrínar um Ingrid, „stelpukonu á fertugsaldri“ eins og hún orðar það, sem er ekki alveg á þeim stað í lífinu sem hún hefði viljað vera. „Hún hefur verið einhleyp síðan hún var 17 ára, vinnur í undirfataverslun og þegar hér er komið við sögu eru foreldrar hennar að skilja. Hún byrjar að átta sig á að hún er kannski ekkert sérstök eða öðruvísi en allir hinir og langar í rauninni bara til þess að eignast kærasta og byrja fullorðinslífið. Það reynist svo hægara sagt en gert fyrir stolta og sjálfstæða „stelpu-konu“ sem neitar að gera málamiðlanir eða virka örvæntingafull og auk þess undir sífellt meiri pressu frá líffræðilega tikkinu í leginu, að finna ástina.“

„Svo biluð afstaða“
Spurð hvernig hugmyndin að sögunni hafi kviknað segist Katrín einfaldlega hafa viljað gera sögu sem fjallaði á heiðarlegan og afhjúpandi hátt um ástina, öll vonbrigðin og óöruggið, allan anti-klímaxinn eiginlega. Sérstaklega fyrir konur sem eru komnar yfir þrítugt og eiga erfitt með að átta sig á því hvað þær vilja og upplifa að tíminn sé að hlaupa frá þeim. „Mig langaði að fara svolítið í burtu frá þessari ævintýralegu, örlagaríku og eiginlega ómögulegu mýtu sem helst svo oft í hendur við okkar hugmyndir um ástina og taka svolítið „real-talk“; upplifum við þetta raunverulega svona og ef við eigum það mörg sameiginlegt að vera svolítið vonsvikin yfir að hafa ekki fengið að upplifa þessa jarðskjálfta-ást, eigum við þá ekki að breyta því svolítið hvernig við tölum um það og byggjum upp væntingar okkar?“

Hún bætir við að ákveðið atvik í skólanum hafi átt þátt í því að þetta umfjöllunarefni varð fyrir valinu. „Já, það var svolítið sem einn kennarinn sagði um mynd sem bekkjarsystir mín gerði á fyrsta ári. Myndin snerist um mjög kvenlega sögu, hún fjallaði sem sagt um stelpu sem þurfti að taka ákvörðun um eitthvað sem tengdist leginu í henni og kennarinn hélt því fram að hann og strákarnir í bekknum ættu erfitt með að tengja við tilfinningar hennar, því þeir vissu ekki hvernig væri að vera með leg. Þetta er svo biluð afstaða,“ segir hún, „og svo lýsandi fyrir það hvernig við upplifum karlkaraktera „versus“ kvenkaraktera. Konur þurftu fyrir löngu að læra að tengja við sögur um karla eftir karla, á meðan sögur um konur eftir konur eru oft stimplaðar sem „konumyndir“ eða „konu-sögur” sem eru þá bara fyrir konur og þykja ekkert sérstaklega merkilegur pappír. Þetta kveikti einhvern eld í mér og í algjörum mótþróa fékk ég einhverja löngun í að virkilega kafa ofan í allt þetta kvenlega. Að gefa skít í að allir þyrftu að skilja, að einhvern veginn senda þau skilaboð að strákunum er alveg boðið en bara ef þeir nenna að opna aðeins hugann og sjá konur sem söguhetjur sem eru „revelant“ og spennandi.“

Hún segir að það hafi því óneitanlega verið góð tilfinning þegar lokaútgáfa myndarinnar var tilbúin að upplifa það að sagan í henni skyldi höfða til alls konar fólks, allt frá stelpum sem eru í sömu sporum og aðalpersónan Ingrid til miðaldra giftra karla. „Nokkrir af þeim komu til mín til að segja mér að sagan hefði hreyft við þeim og þeir hefðu tengt við aðalpersónuna á einhverju tilfinningalegu „leveli“,“ segir hún ánægð og bætir við að það sé góð þróun að það sé alltaf að verða auðvelda og auðveldara fyrir áhorfendur, sama af hvaða kyni þeir eru, að tengja við kvenkaraktera með kvenlegar tilfinningar.

Sjá nánar hér: Karlrembulegt viðhorf kveikti neistann | Mannlíf

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

ÞAÐ NÝJASTA Á KLAPPTRÉ

Fáðu nýjasta efnið á Klapptré í pósthólfið þitt tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.

Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

NÝJUSTU FÆRSLUR