Katrín Björgvinsdóttir: „Svona stelpa fær aldrei aftur vinnu í bransanum“

Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri þáttaraðarinnar Svo lengi sem við lifum ræddi við Sigurlaugu M. Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1.

Segir á vef RÚV:

Leikstjórinn Katrín Björgvinsdóttir hóf ferilinn með því að smyrja samlokur og hella upp á kaffi, hlaupa um á tökustað og hjálpa til í hinum ýmsu verkefnum. „Þegar ég byrjaði var ég náttúrulega mjög glöð með það, mér fannst það ógeðslega skemmtilegt. Ég kom alveg inn í botninum á kvikmyndabransanum eins og botnvarpa,“ segir Katrín í samtali við Sigurlaugu Margéti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1.

Hennar fyrsta verkefni var fyrir þáttaröðina Mannaveiðar í leikstjórn Björns Brynjólfs Björnssonar. Hann og faðir Katrínar voru vinir og Björn spurði hana hvort hún vildi koma og vinna fyrir sig. „Þá var ég greinilega svolítið búin að óska mér að komast inn í það.“

Rústaði sex bílum

Þegar Björn hringdi vann Katrín á Súfistanum í Hafnarfirði. Í lok símtalsins, þegar þau höfðu gengið frá öllum smáatriðum, spurði Björn hvort hún væri ekki örugglega með bílpróf. „Ég var búin að trassa það í mínu lífi,“ segir Katrín sem svaraði að hún yrði með bílpróf þegar tökur hæfust. „Það er í raun öll forsenda starfsins,“ útskýrir hún.

Um leið og símtalinu lauk fór hún beint í símaskrána og fann ökukennara að nafni Vagn. „Ég þarf að fá bílpróf á þremur vikum, annars er líf mitt búið,“ sagði hún við ökukennarann. Prófinu náði hún með naumindum og skilur enn ekki hvernig henni tókst það.

„Ég held ég hafi rústað sex bílum í þessari pródúksjón, það gekk allt á afturfótunum,“ segir hún.

Gísli Örn Garðarsson og Ólafur Darri Ólafsson fóru með aðalhlutverk í þáttunum. „Þeir spottuðu þetta alveg strax, þeir voru mjög stressaðir í bíl með mér.“ Þau gerðu með sér samkomulag um að þeir myndu keyra í lengri ferðum. Hálfum kílómetra frá tökustað var skipt um bílstjóra og Katrín keyrði inn veifandi á bílastæðið.

Svona stelpa fær aldrei aftur vinnu í bransanum

Katrín fann strax að kvikmyndabransinn átti við hana. „Mér fannst ógeðslega gaman að vinna í honum. Það er svo mikið í húfi og svo auðvelt að klúðra, maður var bara titrandi. En ógeðslega skemmtilegt fólk og mikil keyrsla. Það bara hentaði mér ótrúlega vel.“

Hún þurfti þó að beita kænsku til að hreinsa orðspor sitt eftir Mannaveiðar. „Mér var náttúrulega smá kanselað eftir þetta,“ segir hún. „Eins vitlaus og ég var, þá var ég nógu klár til að nota þetta ekki til að fá næsta djobb. Ég bara hreinsaði þetta út af blaðinu og kom með hreinan skjöld.“

Í einu verkefninu var hún á leið til Keflavíkur með leikmyndahönnuðinum sem spurði hana spjörunum úr. Þegar hún spurði Katrínu hvernig henni þætti að byrja í bransanum svaraði hún að sér litist vel á. „Ég held að þetta geti verið svolítið erfitt fyrir sumt fólk,“ sagði leikmyndahönnuðurinn þá. Hún hafði heyrt af ungri stúlku sem hafði unnið við Mannaveiðar og lent í hverju bílslysinu á fætur öðru og rústað fjölda bíla.

„Svona stelpa er aldrei að fara fá vinnu aftur í bransanum,“ sagði hún við Katrínu sem þóttist forviða yfir atvikinu.

Þurfti að gera eitthvað annað

Katrín segist ekki hafa átt sér stóra drauma um að verða leikstjóri þegar hún var barn þrátt fyrir að hafa gert nokkrar stuttmyndir með vinkonum sínum. Hún hafði lesið viðtal við Baltasar Kormák Baltasarsson leikstjóra þar sem hann sagðist hafa áttað sig á draumum sínum sem ungur drengur.

„Það eiginlega rústaði mér,“ segir Katrín sem kannaðist ekki við slíkar tilfinningar og gerði því ráð fyrir að þetta gæti þá ekki verið draumurinn hennar. Hún tók því hálfpartinn skref til baka og þótti öruggara að vera í hagkvæmu hliðinni á bransanum, framleiðslu og því um líku.

Það var ekki fyrr en hún hafði unnið lengi í bransanum, sem aðstoðarleikstjóri og í framleiðslu, sem hún áttaði sig. Hún stofnaði framleiðslufyrirtæki með vinum sínum og skrifaði og framleiddi þættina Hæ Gosi. Eftir það fór hún að vinna í auglýsingabransanum og framleiða auglýsingar.

„Þá fatta ég að ég þarf að gera eitthvað annað. Ég þurfti aðeins að hrista mig úr einhverju stoppi sem ég var komin í.“

Skildi hvorki upp né niður

Katrín fór að skoða kvikmyndaskóla og Danski kvikmyndaskólinn var efst á blaði. Fyrir umsóknarferlið samdi hún og tók upp stuttmynd með hjálp góðra vina sem hún hafði eignast á öllum þessum árum í bransanum. Hún lék í myndinni ásamt bestu vinkonu sinni. „Hún heppnaðist eiginlega bara ótrúlega vel,“ segir Katrín. „Það var ótrúlega hvetjandi fyrir mig að fatta að ég get sest niður og skrifað eitthvað sem mér finnst kúl og gert og framkvæmt. Og það bara virkar.“

Hún sendi myndina inn og skildi hvorki upp né niður þegar hún fékk boð um að koma út í fyrsta prófið.

„Það er verið að draga mig á asnaeyrunum hérna“

Katrín vann fyrir SagaFilm á þessum tíma við framleiðslu á þáttunum Réttur, í leikstjórn Baldvins Z. Þættirnir voru í tökum og það var því einstaklega óheppilegt að hún skyldi alltaf vera að skjótast til Danmerkur með litlum sem engum fyrirvara.

„Ég fór fjórum sinnum út með engum fyrirvara og átti engan pening,“ segir Katrín sem þurfti að þreyta alls kyns próf. Alltaf var hún jafn hissa þegar hún var boðuð út aftur. Undir lokin var hún farin að halda að það væri verið að draga sig á asnaeyrunum. „Ég mun koma út úr þessu búin að klúðra vinnunni minni og gjörsamlega gjaldþrota,“ hugsaði hún með sér.

Hrundi í gólfið hágrátandi

Meðan á inntökuferlinu stóð sótti Katrín um störf á Íslandi því hún var handviss um að hún yrði ekki tekin inn í skólann.

Þegar bréfið frá skólanum kom loksins var Katrín á 40 manna framleiðslufundi fyrir Rétt. Hún sat við hliðina á Baldvini og reyndi að einbeita sér þegar tölvupósturinn barst. Hún reyndi að hunsa póstinn og fylgjast með því sem sagt var. Á endanum stóð hún upp, fór fram og leit á póstinn í símanum. „Ég trúði þessu samt ekki enn þá.“

Hún reyndi svo lítið bar á að kalla á Baldvin, sem stýrði fundinum. Henni tókst loks að fanga athygli hans, og allra hinna, og bað hann að koma fram.

„Ég gleymi þessu aldrei,“ rifjar hún upp. Hún rétti Baldvini símann og hann byrjaði að hrópa og hoppa þegar hann hafði lesið bréfið. „Þá bara hryn ég í gólfið og fer að hágrenja.“

Aukið álag að skilja ekki tungumálið

Katrín segir að þessar fréttir hafi breytt lífi sínu. Hún hefði verið svo nálægt því að gefast upp og halda bara áfram á sömu braut. Hún hefði eflaust aldrei sótt um aftur hefði henni verið hafnað.

Fyrsta eina og hálfa árið í skólanum vafðist tungumálið fyrir Katrínu sem kunni ekki mikið fyrir sér í dönsku. Hún var eini útlendingurinn í sex manna bekk og varð stundum pirruð á því að vera sú eina sem hefði þessa viðbótaráskorun.

„Ekki bara að vera í þessum skóla, sem er mjög intens og tekur mikið á, en líka að vera alltaf að glósa og skilja bara 85 prósent af því sem verið er að segja og þurfa síðan að hjóla beint heim og fletta upp á Google Translate bara hvað allt þýðir og hvað erum við eiginlega að tala um?“

En eftir að danskan kom til hennar segir hún námsárin hafa verið besta tíma lífs síns.

„Akkúrat það sem mig langar að horfa á“

Katrín leikstýrði þáttunum Svo lengi sem við lifum sem Aníta Briem bæði semur og leikur í. Katrín segist hafa fundið að hún yrði að taka þátt í þessu verkefni um leið og hún las handritið. „Þetta er bara svona akkúrat það sem mig langar að horfa á. Þetta er það sem mér finnst vera inspírerandi list.“

„Að setjast niður og skoða sjálfan sig og einhverjar spurningar sem maður er að bögglast með sjálfur og búa til einhverja sögu og gefa eitthvað af sjálfum sér. Sem Aníta gerir í þessum handritum. Mér finnst það bara svo hugrakkt og kúl og áhugavert.“

Katrín er virkilega ánægð með að vera komin aftur heim til Íslands og er farin að hreinsa til í dagbókinni til að gefa sér rými til að skrifa sjálf og gera kvikmynd í fullri lengd.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR