„Ráðherrann“ bakvið tjöldin

Ólafur Darri Ólafsson er ráðherrann.

Tökum er lokið á þáttaröðinni Ráðherrann. Þar leikur Ólafur Darri Ólafsson forsætisráðherra sem glímir við geðhvörf. Fjallað var um gerð þáttanna í Menningunni á RÚV og rætt við aðstandendur.

Af vef RÚV:

„Mér finnst ótrúlega gaman að gera dramatík sem er ekki sakamál,“ segir Arnór Pálmi Arnarson, sem leikstýrir þáttunum ásamt Nönnu Kristínu Magnúsdóttur. „Það er ferskt, að minnsta kosti hér heima og það deyr enginn endilega.“ Nanna Kristín segis hafa heillast af því hvernig handritið sýni stjórnmálamenn í nýju ljósi. „Við fáum að sjá hvað þeir gera heima hjá sér og hvernig þeir eru þegar þeir eru ekki í vinnunni. Mér fannst það mjög fallegt. Síðan erum við að fjalla um geðsjúkdóma og mér fannst það mikil áskorun.“

Ólafur Darri leikur Benedikt Ríkharðsson, háskólakennara sem er dregin í pólitík og endar sem formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og forsætisráðherra. Eftir nokkra mánuði í starfi fer hann að verða var við geðhvörf og fara að herja æ meira á hann. „Þegar ég las þetta handrit varð ég spenntur fyrir þessari persónu og fyrir þessari sögu,“ segir Ólafur Darri. „Þetta er saga úr pólitík, sem mér finnst mjög skemmtilegt, en svo er þetta líka fjölskyldusaga og saga um aðstandendur og að einhverju leyti saga um mann sem glímir við sjúkdóm sem hann veit ekki fyllilega af.“

Björg Magnúsdóttir, Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson skrifa handrit ásamt Jóhanni Ævari Grímssyni sem kom inn í teymið síðar í ferlinu.  Björg minnist þess að hafa horft á stjórnmálaþætti á borð við West Wing en segir að það hafi verið danski þátturinn Borgen sem hafi kveikt með henni löngun að skrifa sjónvarpsþætti sem fjalla um íslenska pólitík.

„Þetta er fyrsta íslenska serían um íslenskan forsætisráðherra. Það er það sem er nýtt við þetta, segir Björg. Birkir segir að á meðan teymið skrifaði þættina hafi það komist að því hversu marga geðveika stjórnmálamenn mannkynssagan geymir. „Þetta er algengt stef. Fólk sem er á mörkunum að vera það óeðlilegt að það verður veikt er líka það sjarmerandi eða sterkt að það kemst til valda.“

„Það er þetta þrönga einstigi milli klikkunar og snilligáfu sem við erum að rannsaka,“ bætir Björg við. Jónas Margeir tekur fram að persónur í þáttunum byggi ekki á raunverulegum fyrirmyndum. „Auðvitað eru skírskotanir í allskonar stjórnmálamenn, bæði íslenska og erlenda. Ísland hefur átt ævintýralega skemmtilega stjórnmálamenn og þeirra saga verið á köflum nánast Shakespeare-ísk. Það eru tilvísanir í ýmis atvik sem hafa átt sér stað í íslenskri stjórnmálasögu í þessari seríu en þetta byggir ekki á ákveðnum stjórnmálamönnum nei.“

Áætlað er að Ráðherrann verði frumsýnd á RÚV haustið 2020.

Sjá nánar hér: Einstigi milli snilligáfu og geðveiki

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR