Silja Hauksdóttir um SYSTRABÖND: Breyskar konur eru mitt uppáhald

Silja Hauksdóttir leikstjóri þáttaraðarinnar Systrabönd ræddi við Menninguna á RÚV á dögunum um verkið sem er væntanlegt í Sjónvarp Símans um páskana.

Segir á vef RÚV:

Þættirnir Systrabönd eru framleiddir af Sagafilm fyrir Sjónvarp Símans. Sagan gerist í fortíð og nútíð. Á tíunda áratugnum hverfur fjórtán ára stúlka sporlaust á Snæfellsnesi. Aldarfjórðungi síðar finnast jarðneskar leifar hennar og þrjá æskuvinkonur neyðast til að horfast í augu við fortíð sína.

Handritið skrifa þau Björg Magnúsdóttir, Jóhann Ævar Grímsson, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Silja Hauksdóttir. Jóhanna fer jafnframt með eitt aðalhlutverkanna ásamt Ilmi Kristjánsdóttur og Lilju Nótt Þórarinsdóttur og Silja leikstýrir. „Í rauninni fjallar þetta um hvaða áhrif það hefur á manneskju að bera svona stórt leyndarmál í svona langan tíma,“ segir Jóhanna og Björg tekur undir. „Hugmyndin hefur verið í vinnslu á fjórða ár hjá mér og Jóhanni Ævar Grímssyni. Við vildum fara nýja leið við að byggja upp karaktera og um leið skoða gerendur í nýju ljósi.“

Silja segir að sú áhersla hafi heillað sig við handritið. „Það sem greip mig strax var nálgun á verk sem hverfist um glæp en snýst ekki um að komast að því hver framdi glæpinn heldur fókuserar á gerendur, hvernig þeim gengur að lifa með sektinni og skömminni og því öllu. Líka sú staðreynd að gerendurnir eru konur og breyskar konur eru mitt uppáhald.“

Henni fannst mikilvægt að búa til heim sem drægi ekki upp mynd af gerendum sem skrímslum. „Best væri ef áhorfendur gætu sett sig í þeirra spor. Það er kannski rannsóknin: Hvað þarf til þess að ég gæti orðið ábyrg fyrir alvarlegum glæp? Við hvaða kringumstæður gæti ég skilið að ég myndi gera það? Mér finnst mest spennandi að færa þetta nálægt persónulegu og hversdagslegu lífi fólks, því ég get ímyndað mér að eins og við þekkjum þetta á Íslandi sé það fyrst og fremst einhver sýktur jarðvegur sem verður til þess að fólk beitir ofbeldi.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR