Baksvið atburðanna í „Héraðinu“

Stundin fjallar um baksvið þeirra atburða sem sjá má í kvikmynd Gríms Hákonarsonar, Héraðinu. „Héraðið er í rauninni bara smækkuð mynd af Íslandi. Það er mjög mikil einokun á mörgum sviðum á Íslandi, það er okur og spilling og svo þessi mikla þöggun. Þetta eru allt sterk element í myndinni. Ég hugsa Ingu sem persónugervingur nýja Íslands á meðan kaupfélagið er gamla Ísland,“ segir Grímur í spjalli við Stundina.

Úr grein Stundarinnar:

„Ég bjó þarna í einhverjar vikur þegar ég var að vinna í þessu handriti, bara bjó á Sauðarkróki og fór og spjallaði við bændur og annað fólk um reynslu þess af Kaupfélagi Skagfirðinga,“ segir Grímur Hákonarson kvikmyndagerðarmaður um rannsóknarvinnuna á bak við bíómyndina Héraðið sem frumsýnd er í dag.

Upphaflega  ætlaði Grímur að gera heimildarmynd um Kaupfélag Skagfirðinga (KS) en að hann hafi áttað sig á því að það yrði örðugt verk. Erfitt geti reynst að fá fólk á Sauðárkróki og Skagafirði til að opna sig um kaupfélagið þar sem margir hræðist völd og mátt þess. „Ég fann það fljótlega að fólk var ekki tilbúið að koma fram í myndinni þótt það hafi verið tilbúið að hitta mig í kaffi og spjalla. Ég ákvað því í staðinn að gera leikna mynd og nota þessar sögur sem ég heyrði þarna og svo skálda ég í eyðurnar. Þannig varð Héraðið til,“ segir Grímur. Leikstjórinn náði því að safna ýmsum sögum í sarpinn á þeim tíma sem hann undirbjó myndina í Skagafirði.

Einn íbúi á Sauðárkróki sem ekki vill láta nafns síns getið segir í samtali við Stundina að umsvif Kaupfélags Skagfirðinga og áhrif stórfyrirtækisins á líf íbúanna í sveitinni sé eins og „smækkuð mynd af Íslandi“ sem heildar. Vegna  smæðar samfélagsins og stærðar kaupfélagsinsí þessu litla samfélagi þá hafi það mikil völd. Hann segir einnig að sjálfsritskoðun íbúanna í Skagafirði um allt sem tengist Kaupfélaginu sé mikil en að þessi sjálfsritskoðun sé jafnframt ómælanleg. Kaupfélag Skagfirðinga er langstærsti atvinnurekandinn í sveitarfélaginu og rekur verslun á Sauðárkróki sem er eini stórmarkaðurinn í sveitinni, bændur selja mjólkur- og kjötafurðir sínar í gegnum kaupfélagið, útgerðarfélag kaupfélagsins FISK-Seafood er eitt það stærsta á landinu og kaupfélagið á meira að segja líka héraðsfréttablaðið Feyki.

Í myndinni er sögð sagan af kúabóndanum Ingu (Arndísi Hrönn Egilsdóttur) á bænum Dalsmynni og hvernig hún býður kaupfélaginu birginn eftir að hún áttar sig á því hvaða aðferðum fyrirtækið beitir til að kúga bændur og íbúa sveitarinnar, og drepa niður samkeppni með aðferðum sem hún kennir við mafíustarfsemi þegar líða tekur á myndina.

[…]

Eiginmaðurinn uppljóstrari

Í Héraðinu áttar Inga áttar sig á því að kaupfélagið er mafía eftir að maður hennar, Reynir (Hinrik Ólafsson) deyr þegar hann keyrir út af. Í kjölfar andlátsins fær hún að vita að maður hennar hafi verið uppljóstrari fyrir kaupfélagið og fylgst með öðrum bændum og viðskiptum þeirra við aðra aðila en kaupfélagið.

Hugmyndin um kaupfélagið sem vill ekki samkeppni er sótt beint í skagfirskan veruleika segir Grímur. „Kaupfélagið líður ekki samkeppni. Þeir eiga nánast allt þarna nema hótel og veitingarekstur auk þess sem það er ein kjörbúð þarna sem er sjálfstætt rekin og eitt bakarí, en annað er eiginlega bara í þeirra eigu, meira að segja fjölmiðillinn Feykir. Þetta er dálítið eins og í Rússlandi þar sem kaupfélagið stjórnar líka fjölmiðlinum,“ segir Grímur Hákonarson.

Orð Gríms kallast á við lýsingu á Þórólfi Gíslasyni, kaupfélagsstjóra KS, sem birt var í grein um hann í DV árið 2014. Heimildamaðurinn sagði þá um Þórólf að hans einkenni væri að sitja einn að markaðnum. „Einhver besti bisnessmaður landsins af því hann forðast samkeppni eins og heitan eldinn. […] Hans mottó í lífinu er að vera einn. […] Hegðunarmynstur eins og hjá olígarka. Ef það eru einhver fyrirtæki í samkeppni við þá þá bara deyja þau.“

Skáldskapur byggður á skagfirskum veruleika

Sögusvið kvikmyndarinnar er Erpsfjörður, uppdiktað sveitarfélag, og kallast kaupfélagið Kaupfélag Erpsfirðinga en engum dylst á hverju söguefni myndarinnar byggir: Kaupfélagi Skagfirðinga. Myndin er tekin á bóndabæ í Dölum og á Hvammstanga þar sem kaupfélagshúsið í myndinni er staðsett.

Kvikmyndin sjálf er hins vegar auðvitað skáldskapur þótt ýmsar sögur og persónur séu sóttar beint í veruleikann í Skagafirði.

Í myndinni er reynt að segja söguna af því hvernig það er fyrir íbúa í sveit, sérstaklega bændur sem selja afurðir sínar í gegnum eitt stórfyrirtæki, að eiga nær allt sitt undir einu fyrirtæki.

Þeir sem þekkja til umræðunnar um kaupfélagið í Skagafirði af eigin raun, meðal annars blaðamenn sem fjallað hafa um fyrirtækið í gegnum árin, vita hvað það getur verið erfitt að fá fólk í Skagafirði til að segja frá viðskiptum sínum við kaupfélagið. Alls staðar er lent á vegg, alls staðar er lent á þögn.

Sjá nánar hér: Sagan af þögguninni um „mafíuna“ í Skagafirði

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR