Rás 1 um „Héraðið“: Efniviðurinn ber kvikmyndaformið ofurliði

Arndís Hrönn Egilsdóttir í Héraðinu.

„Sagan sem slík náði einhverra hluta vegna aldrei alveg að fanga mig þrátt fyrir að vera að flestu leyti mjög vel gerð kvikmynd sem tekur á gríðarlega áhugaverðu efni,“ segir Marta Sigríður Pétursdóttir kvikmyndarýnir Tengivagnsins á Rás 1 um Héraðið eftir Grím Hákonarson.

Marta Sigríður skrifar meðal annars:

Ég vil ekki ljóstra upp of miklu um söguþráð myndarinnar hér en það er óhætt að segja að þetta sé beinskeytt samfélagsádeila sem talar beint inn í okkar samtíma og varpar ljósi á ákveðna þætti íslensks samfélags sem halda íbúum þessa lands í viðjum skulda og óeðlilega hás matvælaverðs.

Með hlutverk Ingu í Héraðinu fer Arndís Hrönn Egilsdóttir sem er bæði trúverðug og einstaklega sympatísk í hlutverki sínu. Arndísi tekst að draga fram bæði viðkvæmni og styrkleika persónunnar sem þarf að takast á við stór áföll og auk þess að taka slaginn við yfirvaldið í herferð sinni gegn ranglætinu. Hið persónulega er svo sannarlega pólitískt. Hún er ástrík í samskiptum sínum við dýrin sem henni er greinilega annt um þó svo að það komi fram að hún hafi haldið áfram búskapnum fyrir manninn sinn. Með önnur stór hlutverk í myndinni fara Sigurður Sigurjónsson sem leikur Eyjólf kaupfélagsstjóra og Hannes Óli Ágústsson sem leikur Leif, undirmann Eyjólfs hjá Kaupfélaginu, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir fara með hlutverk vinafólks Ingu sem styður hana í baráttunni við kaupfélagið. Það er vel valið í öll hlutverk, en auk aðallleikara er fjöldi misþekktra aukaleikara sem setja skemtilegan og raunsæislegan svip á myndina. Siggi Sigurjóns og Hannes Óli fara með bitastæðustu og eftirminnilegustu hlutverkin ásamt Arndísi, enda eru bestu og senur myndarinnar þegar átökin þeirra Kaupfélagsmanna og Ingu ná hámarki.

Það er ekki auðvelt verk fyrir leikstjórann Grím að fylgja eftir velgengi síðustu myndar hans Hrúta, sem hlaut nær einróma lof gagnrýnenda innan lands sem utan og vann auk þess til Un Certain Regard verðlaunanna á Cannes sem eru meðal þeirra virtustu í bransanum. Hrútar gerist einnig í sveit og fjallar um bændur en þar líkur samanburðinum á milli myndanna að sögn Gríms. Sjálf sé ég sterka tengingu á milli heimildarmynda Gríms og Héraðsins og þá sérstaklega við Litlu Moskvu sem var frumsýnd á síðasta ári og fjallar um Neskaupstað og ítök kommúnismans þar og Alþýðubandalagsins í 52 ár. Ég er ekki frá því að verkakonan Stella Steinþórsdóttir sem segir sögu sína í Litlu Moskvu, sem sjálf barðist við ríkjandi öfl Alþýðubandalagsins sem dyggur kjósandi Sjálfstæðisflokksins, eigi líka eitthvað í persónunni Ingu í Héraði.

Sjónarhorn myndavélarinnar í Héraði er breitt og jafnvel fjarlægt, myndin á augljóslega að vera eins konar sneiðmynd af íslensku samfélagi. Áhrif heimildarmyndarformsins eru greinileg. Nýir og gamlir tímar takast á í Héraði, róbótafjós, snjallsímar og Facebook gegna mikilvægu hlutverki og drífa frásögnina, sem og samfélagið sem myndin fjallar um, áfram. Sveitarómantíkin á þó sín augnablik innan um raunsæislega sýn á erfitt hlutskipti bænda í nútímanum. Eins og Grímur segir sjálfur í áðurnefndu viðtali í Mannlífi er hann að fara út fyrir sinn þægindaramma með því að gera mynd sem fjallar um konu og viðurkennir sjálfur fúslega að myndir hans hafi hingað til verið karllægar líkt og sjálfur kvikmyndabransinn. Inga er vel skrifuð persóna að mínu mati og Arndís túlkar hana af krafti, skilningi og næmni. Mér finnst líka alltaf hressandi að sjá leikið efni þar sem konur sjást ómálaðar og afslappaðar í klæðaburði.

Þvinguð samtöl

Það er þó eins og leikstjórinn sé smeykur við að fara of nærri viðfangsefninu eða viðfangsefnið í of mikilli vörn. Það er líkt og efniviðurinn í þessu tilviki beri kvikmyndaformið ofurliði. Það er ekki auðvelt verk að koma marglaga sögu sem tekur á erfiðum pólitískum raunveruleika í smáu samfélagi vel til skila. Þannig fannst mér aukapersónurnar margar hverjar ekki ná nægilega vel til mín og sum samtölin virkuðu nokkuð þvinguð, en raunveruleikinn sem Inga lifir við er vitaskuld þvingaður og litaður af meðvirkni samfélagsins. Frásagnarframvinda og dramatísk uppbygging í myndinni fellur og rís frá upphafi til enda en einhverra hluta vegna upplifði ég hana flatneskjulega, sagan sem slík náði einhverra hluta vegna aldrei alveg að fanga mig þrátt fyrir að vera að flestu leyti mjög vel gerð kvikmynd sem tekur á gríðarlega áhugaverðu efni. Ég spyr mig hvort Héraðið hefði mögulega getað verið meira krassandi sem heimildarmynd um Kaupfélag Skagfirðinga og efniviður Litlu Moskvu betri sem leikin kvikmynd?

Það er margt mjög vel gert í Héraði, kvikmyndatónlistin eftir Valgeir Sigurðsson passar til að mynda mjög vel við myndefnið og var notuð hugvitsamlega, magnaði upp stemmninguna án þess að vera yfirgnæfandi. Aðdáun Ingu á hinni ástsælu hljómsveit Stjórninni sem var upp á sitt besta á tíunda áratugnum, kannski eins og Inga sjálf, kemur einnig fram og vakti upp hughrif melankólíu og nostalgíu hjá mér. Héraðið er líka kvikmynd sem er til þess fallin að vekja áhorfendur til umhugsunar um íslenskt samfélag, karllæga stjórnunarhætti og pólitík sem og hin ævafornu og lúnu átök milli höfuðborgarinnar og dreifbýlisins. Ég er forvitin um hverjar viðtökurnar við Héraði verða í Skagafirði.

Það er einnig óhjákvæmilegt að setja Héraðið í samhengi við kvikmynd Benedikts Erlingssonar Kona fer í stríð sem fjallar um Höllu sem einnig rís upp gegn karllægu veldi virkjana og umhverfisspjalla í nafni framfara og efnahags. Báðir hafa Grímur og Benedikt gert meinfyndnar kvikmyndir um samspil manna, dýra og karlmennsku og í sínum nýjustu myndum eru kvenaðalpersónur í öndvegi sem óhræddar takast á við yfirvaldið og gerast sekar um borgaralega óhlýðni.

Mæðulegar konur taka til hendinni

Á þessu ári kom út fræðibók eftir mannfræðinginn Kristínu Loftsdóttur sem ber titilinn „Crisis and Coloniality at Europe’s Margins: Creating Exotic Iceland“ þar sem hún fjallar um sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar allt frá lokum 19. aldar til samtímans, sem setur aðdraganda og eftirstöðvar efnahagshrunsins árið 2008 í sögulegt samhengi – það gefst ekki tími hér til þess að fjalla ítarlega um efnistök þessarar áhugaverðu bókar. En í bókinni fjallar Kristín um það hvernig ímynd og líkami konunnar hefur verið notaður í ímyndarsköpun þjóðernishyggjunnar, samanber fjallkonan, allt frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar fram til nútímans, en eftir hrunið bar á orðræðu í kringum sterku, sjálfstæðu, íslensku konurnar, innanlands sem utan, sem þurftu að stíga fram og taka til eftir vitlausu strákana. Ég er ekki frá því að bæði Kona fer í stríð og Héraðið endurspegli þessa fantasíu og jafnvel ákveðna staðalímynd íslensku konunnar. Þetta þarf ekki endilega að vera neikvætt en mér finnst áhugavert að skoða þetta sem eins konar trend í kvikmyndagerð samtímans hjá þessum leikstjórum sem eru augljóslega sjálfsmeðvitaðir femínistar, sem er vitaskuld bara jákvætt.

Halla í Kona fer í stríð er mun ýktari og úthverfari karakter en Inga, hún hefur líka meiri völd yfir eigin lífi og örlögum heldur en Inga sem virðist lifa lífi sem hún kaus sér endilega ekki sjálf. Inga er holdgervingur passívs æðruleysis þar til hún stendur eftir ein líkt og Davíð á móti Golíat í baráttu sinni við kaupfélagið. Breyttist raunverulega eitthvað hér á landi þó svo að mæðulegar konur tækju til hendinni við þrif eftir subbuskap í partíi útrásarvíkinga sem þeir fengu leyfi til að halda hjá pabba sínum, Sjálfstæðis- og Framsóknarmanninum sem var með í partíinu? Svarið við þeirri spurningu er margrætt og endirinn á Héraðið ýjar að því að það sé ekki endilega svo einfalt að koma á breytingum, en þó að margt sé rotið í samfélaginu þá er líka von. Sigga Beinteins segir okkur það beint út. Því alveg eins og fæðing og dauði eru órjúfanlegur hluti af lífinu þá eru breytingar það líka, og þær koma hvort sem Inga heldur búskap áfram eða ekki. Eitt er víst að samfélög, sem og kvikmyndalistin, þróast ekki áfram ef fólk er ekki tilbúið að stíga út fyrir þægindarammann.

Sjá nánar hér: Efniviðurinn ber kvikmyndaformið ofurliði

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR