spot_img

Morgunblaðið um “Héraðið”: Kraftmikil kvikmyndaupplifun

“Snjöll og skemmtileg mynd með sterka pólitíska slagsíðu sem á erindi við alla, hvort sem þeir búa í sveit eða borg,” segir Brynja Hjálmsdóttir gagnrýnandi Morgunblaðsins meðal annars í umsögn sinni um Héraðið eftir Grím Hákonarson, sem hún gefur fjórar stjörnur.

Brynja skrifar meðal annars:

Það hefur sýnt sig í myndum Gríms, bæði frásagnarmyndunum og heimildarmyndum, að hann er einstaklega sparsamur og smekklegur leikstjóri sem treystir áhorfendum til að lesa í myndmál. Hér er mikið notast við þá aðferð, áhorfendur fá svigrúm til þess að fylla í eyðurnar. Þetta skilar sér í kraftmikilli kvikmyndaupplifun með mörgum eftirminnilegum augnablikum. Til dæmis má nefna þegar Inga vaknar fyrsta morguninn eftir andlát Reynis. Það er búið að fjarlægja sængina hans og kodda og Inga liggur ein á sínum helmingi rúmsins. Nú er hún skyndilega ein í aðstæðum þar sem þau voru alltaf tvö. Svona rammi segir meira en þúsund orð, þarna verður missirinn áþreifanlegur, átakanlegur og skýr. Þessi aðferð gefst líka vel í kómískari atriðum, þar sem tekst að búa til óborganlegt grín með því einu að fanga vandræðaleg svipbrigði og viðbrögð.

Leikaravalið í myndinni er einkar gott. Hinrik Ólafsson, sem nú síðast lék forsætisráðherra Íslands í annarri seríu Ófærðar, er feikilega fínn í hlutverk Reynis. Hinrik er æðislegur leikari og fagnaðarefni að hann sé að verða sýnilegri. Sigurður Sigurjónsson leikur kaupfélagsstjórann Eyjólf, sem er útsmoginn úlfur í sauðargæru, hann virðist vinalegur og alþýðlegur en undir yfirborðinu er hann óvæginn og illgjarn. Hér er tekin viss áhætta í leikaravali, þar sem Sigurður er frekar þekktur fyrir að leika vinalega og föðurlega karaktera, í það minnsta í seinni tíð. Það kemur á daginn að Sigurður smellpassar í hlutverkið og hér sést hvað hann hefur mikla breidd sem leikari. Síðast en ekki síst nefni ég stjörnuna, Arndísi Hrönn Egilsdóttur, sem leikur Ingu. Arndís er iðin leikkona sem hefur tekið þátt í fjölda verkefna á sviði og í kvikmyndum, þótt hún hafi kannski ekki farið með margar aðalrullur. Það er reglulega gaman að sjá hana stíga inn í sviðsljósið sem aðalhetja og gera það með þvílíkum glæsibrag. Harmurinn og einurðin sem Arndís miðlar í túlkun sinni og líkamsburði er svo mögnuð að hún lætur engan ósnortinn. Bravó!

Því hefur stundum verið fleygt fram að það sé viss tímaskekkja að íslensk sveit og sveitafólk sé svo algengt umfjöllunarefni íslensks kvikmyndagerðarfólks. Vissulega býr minnihluti þjóðarinnar í sveit og þessar sögur endurspegla ekki endilega raunveruleika allra þeirra landsmanna sem búa í borgum og bæjum. Þrátt fyrir þetta má halda því fram að Héraðið endurspegli raunveruleika allra Íslendinga, þar sem hún fjallar um spillt, lítið samfélag. Þetta er vissulega saga af einni konu í afmörkuðum aðstæðum en þetta er líka pólitísk allegoría. Það má mjög auðveldlega heimfæra söguna yfir á Ísland, þar sem valdaöfl lifa sældarlífi en kalla hástöfum á stöðugleika og samstöðu, sem er greinilega á ábyrgð þeirra snauðu að viðhalda. Einnig mætti sjá söguna í enn víðara samhengi, sem ádeilu á hinn gengdarlausa síðkapítalisma sem er við það að tortíma okkur öllum. Þú þarft til dæmis ekki vera snillingur til að sjá líkingamálið í því þegar Inga segir: „Heldurðu að börnin mín vilji taka við einhverju stórskuldugu róbótafjósi?“

Myndin er auðvitað líka ádeila á feðraveldið, Inga er ekki bara að berjast við kaupfélag heldur líka karlafélag. Það er óborganlega fyndið þegar Inga sprautar mjólk (e.t.v. táknrænt fyrir annan hvítan vökva) framan á kaupfélagið með áburðardreifara og gefur þannig skít í allt heila klabbið. Það má fagna því að konur og sögur kvenna séu að verða meira áberandi í íslenskum kvikmyndum og hér er sóttur innblástur í eina af okkar merkustu kvenpersónum, Sölku Völku.

Héraðið er snjöll og skemmtileg mynd með sterka pólitíska slagsíðu sem á erindi við alla, hvort sem þeir búa í sveit eða borg.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR