Grímur Hákonarson ræðir „Héraðið“ og næstu verkefni

Grímur Hákonarson leikstjóri er í viðtali við Morgunblaðið í tilefni frumsýningar nýjustu myndar hans Héraðið. Í viðtalinu ræðir Grímur bakgrunn sinn og feril auk væntanlegra verkefna, en líkur eru á að næsta mynd hans verði gerð í Bandaríkjunum.

Úr viðtalinu:

Grím­ur virðist vera með báða fæt­ur á jörðinni og er ekki að missa sig yfir vel­gengn­inni en eft­ir Hrúta hef­ur hann verið beðinn um að leik­stýra kvik­mynd í Banda­ríkj­un­um eft­ir hans eig­in hand­riti. Þessa dag­ana er hon­um efst í huga að kynna nýj­ustu mynd sína, Héraðið, sem frum­sýnd verður í næstu viku. Síðar meir fer hún á kvik­mynda­hátíðir og verður sýnd í þrjá­tíu lönd­um en fyrst munu Íslend­ing­ar fá að berja hana aug­um.

Lífið í sveit­inni
Bæði Hrút­ar og Héraðið segja sög­ur úr ís­lenskri sveit enda þekk­ir Grím­ur það um­hverfi vel úr æsku. Póli­tík­in var aldrei langt und­an í sveit­inni hans Gríms.
„Ég var í sveit í Vorsa­bæ öll sum­ur til sex­tán ára ald­urs en mamma sendi mig líka á ann­an bæ til að koma mér út úr þæg­ind­aramm­an­um hjá afa,“ seg­ir hann og seg­ist hafa gengið í flest sveita­störf.
„Ég byrjaði að keyra traktor átta ára gam­all en þá voru eng­ar regl­ur um slíkt. Ég var að reka kýr og kind­ur en ég fann það fljótt að ég var ekki mjög verklag­inn. Enda er ég kvik­mynda­gerðarmaður í dag; ég fann það að ég var dá­lítið utan við mig og ekki mikið bónda­efni,“ seg­ir hann.

Pönk­ari með hana­kamb
Við spól­um aðeins til baka því blaðamaður vill heyra meira af æsk­unni og unglings­ár­um Gríms sem mótuðu hann sem per­sónu og kvik­mynda­gerðarmann. Sveit­in setti sitt mark á unga mann­inn en það voru ekki síst unglings­ár­in sem mótuðu skoðanir hans í póli­tík. Hann seg­ist hafa breyst úr fram­sókn­ar­manni í sósí­al­ista þegar hann hóf nám við Mennta­skól­ann við Hamra­hlíð.

„Ég frelsaðist þegar ég fór í MH og fór að lesa Marx. Ég man að arðráns­kenn­ing Marx kveikti í mér; hvernig kapí­talist­inn arðræn­ir verka­mann­inn og var það mik­il upp­vakn­ing. Ég varð aktív­isti og var í pönk­hljóm­sveit og samdi rót­tæka texta. Ég gekk um í leður­frakka og var með hana­kamb en hljóm­sveit­in endaði al­veg eins og al­vörupönk­hljóm­sveit end­ar oft; með slags­mál­um á hljóm­sveitaræf­ingu,“ seg­ir Grím­ur og bros­ir.

Af kló­sett­botni
Grím­ur seg­ir að unglings­ár­in með til­heyr­andi til­raun­um á sviði kvik­myndal­ist­ar­inn­ar hafi verið hon­um dýr­mæt reynsla sem nýtt­ist hon­um síðar meir í starfi. „Maður var að fikra sig áfram og gera til­raun­ir. Ég gerði eina stutt­mynd í MH með Rún­ari Rún­ars­syni sem vakti at­hygli. Hún hét Kló­sett­menn­ing og í henni var fylgst með fólki sem kom inn á sal­erni en mynd­in var tek­in upp af kló­sett­botn­in­um,“ seg­ir hann og tek­ur fram að mynd­in hafi verið leik­in.

„Mynd­in var val­in inn á kvik­mynda­hátíð í Nor­egi. Við Rún­ar fór­um út til Ber­gen átján ára gaml­ir, langyngstu þátt­tak­end­urn­ir. Þessi mynd hjálpaði okk­ur mikið upp á sjálfs­traustið,“ seg­ir hann.

Þegar Grím­ur var bú­inn að hlaupa af sér horn­in hér heima flutti hann til Prag. Þar nam hann fræðin í tvö ár í kvik­mynda­skóla og seg­ir það bestu ár lífs síns.

„Þarna kynnt­ist ég straum­um og stefn­um í kvik­myndal­ist og mörgu fólki sem var að gera það sama og ég,“ seg­ir hann.

„Þarna mótaði ég minn per­sónu­lega stíl sem ég hef fylgt síðan þá. Ég nota til dæm­is mynd­mál mjög mikið en er ekki með mikið af sam­töl­um. Ég nota líka ákveðinn tökustíl, hand­rita­stíl og leikstíl,“ seg­ir Grím­ur sem skrif­ar alltaf sjálf­ur sín hand­rit.

Útskrift­ar­verk­efni Gríms úr kvik­mynda­skól­an­um í Prag fjallaði, líkt og stutt­mynd­in í MH, um kló­sett en mynd­in heit­ir Slavek the Shit. Blaðamaður spyr í gríni hvort hann sé hald­inn kló­sett­blæti. „Það hef­ur stund­um verið gert grín að því. Í Héraðinu er ein sena þar sem aðal­per­són­an Inga tek­ur fulla skóflu af kúa­skít og hend­ir á bíl­rúðu aðstoðar­kaup­fé­lags­stjór­ans. Þannig að þetta er kannski höf­und­ar­ein­kenni,“ seg­ir Grím­ur sposk­ur.

Opnaði all­ar dyr
Mynd­in Hrút­ar frá 2015 kom Grími á kortið sem kvik­mynda­gerðar­manni en sú mynd vann til Un Certain Regard-verðlaun­anna á Kvik­mynda­hátíðinni í Cann­es.

„Mér skilst að það séu stærstu kvik­mynda­verðlaun sem ís­lensk mynd hef­ur fengið. Það gerði Hrúta að þeirri stóru mynd sem hún varð,“ seg­ir Grím­ur sem seg­ist alls ekki hafa bú­ist við þess­um verðlaun­um.

„Við vor­um bara fegn­ir að kom­ast inn á Cann­es en þetta kom mjög mikið á óvart. Bæði okk­ur og brans­an­um en ég var þarna al­veg óþekkt­ur leik­stjóri. Ég man að þegar ég tók við verðlaun­un­um af Isa­bellu Rossel­ini þá stífnaði ég upp. Það var eng­in Óskars­ræða,“ seg­ir hann og bros­ir.

„En þessi verðlaun breyttu lífi mínu og ekki bara mínu held­ur margra annarra sem komu að Hrút­um,“ seg­ir Grím­ur en í kjöl­farið var hon­um boðið um all­an heim að kynna mynd­ina. „Ég bjó í ferðatösku í eitt ár. Það var mikið æv­in­týri en ég fékk líka ógeð á ferðalög­um.“

Fleira fylgdi frægðinni en Grím­ur er nú með umboðsmenn bæði í London og Los Ang­eles.

„Þetta opnaði all­ar dyr og ég fékk alls kon­ar til­boð. Mörg fyr­ir­tæki höfðu sam­band og vildu fram­leiða mynd eft­ir mig á ensku. Ég var ekki með nein­ar aðrar hug­mynd­ir á þeim tíma en Héraðið sem átti að vera ís­lensk mynd, þannig að ég ákvað að kokka upp hug­mynd fyr­ir mynd á ensku. Hún heit­ir The Fence og ég hef verið þrjú ár að þróa hand­ritið með hand­rits­höf­und­in­um Shanes Daniel­sen. Hún ger­ist í Banda­ríkj­un­um og seg­ir sögu tveggja fjöl­skyldna sem búa hlið við hlið í út­hverfi. Í öðru hús­inu búa ung vinst­ri­sinnuð hjón og í hinu eldri íhalds­söm hjón. Þess­um fjöl­skyld­um lend­ir sam­an þegar eldri hjón­in taka upp á því að reisa gríðar­stóra girðingu í kring­um húsið sitt. Þessi mynd er um ástandið í Banda­ríkj­un­um í dag; um ótt­ann og pólarisér­ing­una. Ég er núna að leita að am­er­ísk­um leik­ur­um en það er írskt fyr­ir­tæki sem heit­ir Element Pict­ur­es sem fram­leiðir hana. Það fyr­ir­tæki gerði meðal ann­ars The Favou­rite og Room sem báðar voru til­nefnd­ar til Óskar­sverðlauna. Þetta fyr­ir­tæki fram­leiðir list­ræn­ar kvik­mynd­ir eins og ég hef verið að gera,“ seg­ir Grím­ur sem er að von­um spennt­ur fyr­ir fram­hald­inu.

„Þarna eru fleiri kokk­ar í eld­hús­inu en ég er van­ur; hérna heima er ég minn eig­in herra og fæ að ráða öllu sjálf­ur. Það eru list­ræn­ar mála­miðlan­ir þarna. En þetta gæti orðið mín næsta mynd á eft­ir Héraðinu.“

Kálf­ur­inn skírður Grím­ur
Kven­hetj­an Inga er leik­in af Arn­dísi Hrönn Eg­ils­dótt­ur og seg­ist Grím­ur hafa samið hand­ritið með hana í huga.

„Ég hef lengi verið hrif­inn af henni sem leik­konu, sér­stak­lega sem kvik­mynda­leik­konu. Ég hef fylgst með henni lengi á sviði og mér finnst hún hafa þá eig­in­leika sem þarf til að verða trú­verðug bónda­kona. Ég var ekki með nein­ar pruf­ur fyr­ir þetta hlut­verk; ég ákvað strax að hún myndi leika Ingu,“ seg­ir hann.

„Hún er 101-bóhem og hef­ur aldrei verið í sveit þannig að ég þurfti að pína hana aðeins; ég sendi hana á tvo bæi og svo hitti hún Heiðu fjalldala­bónda og lærði af henni. Hún lagði mikið á sig fyr­ir hlut­verkið.“

Mynd­in er að mestu tek­in upp á bónda­bæn­um Erps­stöðum í Döl­um þar sem er nú­tímakúa­bú og á Hvammstanga. Í Hrút­um voru kind­ur í sviðsljós­inu en í Héraðinu eru það kýrn­ar.

„Það er meiri fókus á dýr í Hrút­um en í Héraðinu. En það var ein sena í Héraðinu sem var mjög erfið; kálf­burður. Það þurfti að taka það „live“, eins og í heim­ilda­mynd. Við þurft­um að taka það tvisvar sinn­um. Fyrri kálf­ur­inn sem fædd­ist var skírður Grím­ur og sá síðari Arn­dís. Þeir eru orðnir stór­ir í dag og ég vona að þeir fari ekki al­veg strax í slát­ur­húsið,“ seg­ir Grím­ur og bros­ir.

Smækkuð mynd af Íslandi
Hverju viltu miðla til fólks með þínum mynd­um?
„Ég er sósí­alisti og hef samúð með lít­il­magn­an­um. Mynd­irn­ar mín­ar fjalla yf­ir­leitt um jaðar­per­són­ur sem eru beitt­ar órétt­læti eða ógnað af valda­miklu fólki. Eins og Inga í Héraðinu. Mér er líka um­hugað um ákveðin gildi í sam­fé­lag­inu og er göm­ul sál. Mér finnst nú­tíma­fólk oft ekki bera nægi­lega mikla virðingu fyr­ir því gamla. Eins og áður sagði þá hafa árekstr­ar gam­alla ís­lenskra gilda við nú­tíma­sam­fé­lagið eða kapí­t­ils­mann oft verið mér yrk­is­efni,“ seg­ir hann og bæt­ir við:

„En ég er eng­inn áróðursmaður og leyfi áhorf­and­an­um að draga sín­ar eig­in álykt­an­ir. Í Héraðinu fær kaup­fé­lagið gott pláss til að koma sínu sjón­ar­miði til skila. En þar sem Inga er aðal­per­són­an þá held­ur maður alltaf með henni. Hún hef­ur ákveðna sýn og ákveðna póli­tík og það má segja að sjón­ar­horn mitt sé í gegn­um aðal­per­són­una. Inga er hugsuð sem per­sónu­gerv­ing­ur nýja Íslands sem var talað um eft­ir hrun en aldrei varð neitt úr. Hún er að berj­ast fyr­ir lýðræði, vald­dreif­ingu, frelsi. Hér er ein­ok­un á mörg­um sviðum, klíku­skap­ur, þögg­un og spill­ing. Héraðið er bara smækkuð mynd af Íslandi.“

Dreymdi ekki um Hollywood
Grím­ur hef­ur þegar selt Héraðið víða um heim og er hún að fara á kvik­mynda­hátíðir í haust. Hann mun þá leggj­ast í flakk en seg­ist þó ætla að stilla því í hóf þar sem hann eignaðist frumb­urð sinn, dótt­ur­ina Myrru Sig­ríði, í vor með sam­býl­is­konu sinni Mar­gréti Seema Ta­ky­ar.

Eft­ir margra ára þrot­lausa vinnu við kvik­mynda­gerð er loks svo komið að Grím­ur get­ur lifað af list­inni.

Blaðamaður þurfti að ýta á hann að segja frá tæki­fær­inu stóra sem bíður hans í Am­er­íku.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég segi frá The Fence. Það eru nokkr­ir þekkt­ir leik­ar­ar að lesa hand­ritið,“ seg­ir Grím­ur dul­ar­full­ur og seg­ist ekki vilja nefna nein nöfn enn.

Ertu að fara að meika það í Hollywood?

„Tja, ég veit ekki. Það verða Hollywood-leik­ar­ar í mynd­inni að minnsta kosti, en þetta er evr­ópsk fram­leiðsla. Ég losna samt ekki við Hollywood-stimp­il­inn. Í fullri hrein­skilni hef­ur það aldrei verið draum­ur hjá mér að kom­ast til Hollywood. Ég er í grunn­inn evr­ópsk­ur kvik­mynda­gerðarmaður en ég fékk þetta tæki­færi upp í hend­urn­ar. Ég ákvað að láta á það reyna.“

Sjá nánar hér: Hollywood bankaði upp á

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR