Margir íslenskir leikarar í erlendum seríum og kvikmyndum um þessar mundir

Um þessar mundir má sjá nokkurn hóp íslenskra leikara bregða fyrir í alþjóðlegum kvikmynda- og sjónvarpsverkum. Í sjálfu sér ekkert nýtt nema hvað þeir eru óvenju margir þessa dagana. Þarna eru Tómas Lemarquis, Ólafur Darri Ólafsson, Ingvar E. Sigurðsson, Ragnheiður Ragnarsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Salóme Gunnarsdóttir, Ívar Örn Sverrisson, María Birta Bjarnadóttir og Jóhannes Haukur Jóhannesson.

Ingvar E í upphafsatriði annarrar syrpu Succession

Ingvar kemur fram í upphafsatriði annarrar syrpu þáttaraðarinnar Succession frá HBO, en atriðið gerist á Íslandi. Ingvar leikur þar lögmanninn Ragnar Magnússon sem sendur er til að ná í eina aðalpersónuna, Kendall Roy (Jeremy Strong), sem er staddur í afslöppun hér á landi en er kallaður aftur í hasarinn. Þættirnir fjalla um fjölmiðlaveldi og fjölskylduna á bakvið það.

Ólafur Darri í Murder Mystery með Adam Sandler og Jennifer Aniston

Ólafur Darri Ólafsson fer með aukahlutverk rússnesks lífvarðar í Netflix myndinni Murder Mystery sem notið hefur vinsælda í sumar. Hér að neðan má sjá hann í einu atriði myndarinnar. Ólafur Darri verður einnig áberandi karakter (sem rödd) í Netflix seríunni The Dark Crystal: Age of Resistance sem væntanleg er í haust og birtist einnig í nokkrum öðrum seríum og kvikmyndum á árinu.

María Birta Bjarnadóttir er Playboy kanína í Once Upon a Time in Hollywood

Maríu Birtu Bjarnadóttur bregður fyrir í nýjustu mynd Quentin Tarantino, Once Upon a Time in Hollywood þar sem hún leikur Playboy kanínu. Sýningar á myndinni standa nú yfir hér á landi.

María Birta Bjarnadóttir í Once Upon a Time in Hollywood.

Ragnheiður Ragnarsdóttir í Vikings

Ragnheiður Ragnarsdóttir fyrrum sunddrottning hefur haslað sér völl í kvikmyndaheiminum og hefur meðal annars leikið í þáttaröðinnni Vikings að undanförnu. Þar leikur hún Gunnhildi, drottninguna af Kattegat og eiginkonu Björns, sonar Ragnars Loðbrókar. Sjötta og síðasta syrpa Vikings þáttanna er væntanleg innan skamms.

Ragnheiður Ragnarsdóttir (efst til vinstri) leikur Gunnhildi drottningu í þáttaröðinni Vikings.

Salóme Gunnarsdóttir leikur föðursystur Batman í Pennyworth

Salóme Gunnarsdóttur bregður fyrir í fyrsta þætti seríunnar Pennyworth frá bandarísku kapalstöðinni Epix, þar sem hún leikur Patricia Wayne, systur Thomas Wayne (föður Bruce/Batman). Þættirnir eru „spin-off“ þáttaraðarinnar Gotham sem sýndir voru í nokkur ár á Fox stöðinni í Bandaríkjunum við miklar vinsældir. Pennyworth segir frá þjóni Batman, Alfred Pennyworth, á yngri árum. Sömu aðilar og stóðu að Gotham, Danny Cannon og Bruno Heller, standa að þessum þáttum. Hér er stilla af Salóme og svo stikla þáttanna.

Salóme Gunnarsdóttir í Pennyworth.

Ágústa Eva, Ívar Örn og Jóhannes Haukur í Beforeigners frá HBO Nordic

Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ívar Örn Sverrisson og Jóhannes Haukur Jóhannesson fara með hlutverk í norsku þáttaröðinni Beforeigners (Fremvandrerne), sem væntanleg er frá HBO Nordic innan skamms. Beforeigners er nokkurskonar vísindatryllir um fólk úr fortíðinni sem tekur að birtast í nútímanum með miklum áhrifum á samfélagið.

Þess má og geta að allavega tveir aðrir Íslendingar koma að þáttaröðinni, Friðrik Hilmarsson Mar, sem er framleiðslustjóri leikins efnis hjá Rubicon TV AS, einu stærsta framleiðslufyrirtæki Noregs – og Áslaug Konráðsdóttir skrifta.

Hluti af Beforeigners teyminu. Frá vinstri: Jens Lien leikstjóri, Anne Bjørnstad og Eilif Skodvin handritshöfundar og leikararnir Ágústa Eva Erlendsdóttir, Nicolai Cleve Broch og Krista Kosonen.

Tómas Lemarquis í norsku ævintýramyndinni Askeladden

Tómas hefur leikið í fjölda mynda og þáttaraða á undanförnum árum og í ár kemur hann fram í nokkrum verkum, þar á meðal norsku ævintýramyndinni Askeladden-I Soria Moria Slott, þar sem hann leikur einhverskonar hulduveru, Fossegrim. Myndin verður frumsýnd í Noregi 23. ágúst. Tómas má sjá í stiklunni hér fyrir neðan.

Tómas Lemarquis er Fossegrim í norsku ævintýramyndinni Askeladden – I Soria Moria Slott.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR