365 vaktar og kærir deilendur íslensks efnis

download icon365 miðlar hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að sérhæfð fyrirtæki muni héðan í frá fylgjast grannt með IP tölum þeirra sem hlaða íslensku sjónvarpsefni inn á ólöglegar síður og dreifiveitur. Jafnframt segir að 365 hafi lagt fram kærur á hendur aðilum sem gerst hafa sekir um að dreifa ólöglega höfundaréttarvörðu efni.

Fréttatilkynningin fer hér:

Stöndum saman um að vernda framleiðslu á íslensku dagskrárefni

Það hefur ekkert lát verið á velgengni og vegtyllum íslensks sjónvarpsefnis erlendis undanfarin misseri þar sem innlendar þáttaseríur hafa fengið fjölda tilnefninga og verðlauna. Að baki hverrar þáttaraðar standa tugir og oft hundruð einstaklinga sem leggja allan sinn metnað í verkefnið. Hver þáttaröð er ekki aðeins atvinnuskapandi, hún stendur einnig vörð um innlenda tungu og menningu.

Innlend dagskrárgerð á hinsvegar undir högg að sækja, því miður. Nú hafa aðeins sex þættir af Borgarstjóranum verið sýndir en ólöglegt niðurhal þáttanna telur orðið um 21.800 skipti. Leitin að upprunanum er metnaðarfull þáttaröð Sigrúnar Óskar. Aðeins fimm þættir hafa verið sýndir en niðurhal þáttanna telur þegar tæp 14.400 skipti.

Niðurhal er þjófnaður. Þar er ekki eingöngu verið að stela frá sjónvarpsstöðvum heldur einnig  framleiðslufyrirtækjum, leikstjórum, leikurum, dagskrárgerðarfólki og öðrum stéttum sem koma að framleiðslu íslenskrar dagskrárgerðar og hafa atvinnu af.

Sérhæfð fyrirtæki munu héðan í frá fylgjast grannt með IP tölum þeirra sem hlaða íslensku sjónvarpsefni inn á ólöglegar síður og dreifiveitur. Með því að nýta sér þjónustu eins og Torrent eru þeir sem sækja sjónvarpsefni sjálfvirkt að deila því. Nýlega hefur 365 lagt fram kærur á hendur aðilum sem gerst hafa sekir um að dreifa ólöglega höfundaréttarvörðu efni.

Það er ekki óskastaða að vera fúll á móti. Stöndum heldur saman, styðjum innlenda dagskrárgerð, höldum áfram að búa til hágæða sjónvarpsefni, verum stolt af því og njótum þess að horfa á það, heiðarlega, með góðri samvisku og í góðum gæðum. Áfram íslensk framleiðsla.

Sjá umfjöllun Stundarinnar um málið hér: Persónuvernd skoðar vöktun 365 á IP-tölum – Stundin

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR