spot_img

Þúsundir niðurhalenda með hreinan skjöld

steindihreinnHreinn Skjöldur, nýjasti þáttur grínistanna á bakvið Steindann okkar, var frumsýndur á Stöð 2 í lok nóvember. Þættirnir eru á meðal vinsælustu þátta stöðvarinnar en þúsundir hafa einnig sótt þættina á vefnum deildu.net.

Nútíminn segir frá. Í fréttinni segir ennfremur:

Það er ekki langt síðan nokkurs konar þögult samkomulag var um að sækja ekki íslenskt efni en svo virðist sem það sé úr sögunni. Fyrstu tveir þættirnir af Hreinum Skildi hafa verið sóttir um 10 þúsund sinnum á vefnum deildu.net og eru ofarlega á lista yfir mest sótta efnið.

Baltasar Kormákur er á meðal þeirra sem hafa biðlað til fólks að sækja ekki íslenskt efni þar sem það er framleitt fyrir lítinn markað og að tekjumöguleikarnir eru afar takmarkaðir.

Steindi segir að á meðan staðan er eins og hún er í íslenskri þátta- og kvikmyndagerð þá sé fúlt að fólk sé að sækja efnið á vefi eins og deildu.net.

Þetta er fúlt. En á móti er gaman að fólk sýni þættinum svona mikinn áhuga. Það væri auðvitað best ef fólk myndi horfa á þættina á Stöð 2 þar sem þeir eru sýndir eða bíða eftir útgáfunni. Mér finnst allavega, ef notendur deildu sjá okkur Bent á barnum að þeir megi henda í okkur einum drykk. Þau sem eru ekki með Stöð 2 geta líka bara heyrt í mér á sunnudaginn — það er nóg pláss á sófanum og við getum horft á þáttinn saman. Aldrei að vita nema ég skelli í eina funheita eðlu.

Með eðlu á Steindi við ostadýfu sem er hituð í ofni og borðuð með kornflögum.

Jóhanna Margrét Gísladóttir, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, segist átta sig á því að niðurhal sé óhjákvæmilegur fylgifiskur vinsælda í sjónvarpi.

„Hreinn Skjöldur er ein af örfáum íslenskum seríum sem framleiddar voru á þessu ári og var hún að fullu fjármögnuð af Stöð 2. Þátturinn hefur verið í tvö ár í framleiðsluferli og því mikil vonbrigði að sjá henni halað niður í svona miklu mæli.“

Spurð hvort Stöð 2 ætli að gera eitthvað í málinu segir hún að það hafi verið reynt.

„Eitt af því sem hægt hefur verið að gera gegn þessum síðum eru lögbannsaðgerðir STEF sem tókst að loka deildu.net tímabundið en síðan skaut fljótt upp kollinum aftur,“ segir hún. „Það þarf að halda þeirri baráttu áfram á nýju ári.“

Hreinn Skjöldur er á meðal vinsælustu þátta Stöðvar 2. Þáttur númer tvö var með tæplega 10% áhorf í aldurshópnum 12-49 ára, samkvæmt Capacent.

Jóhanna segir að áhorfið sé mikið í frelsis- og tímaflakksþjónustu stöðvarinnar. „Fyrsti þátturinn var í heild með 42% áhorf meðal áskrifenda,“ segir hún.

Sjá nánar hér: Þúsundir hala niður nýjum þætti Steinda – Nútíminn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR