spot_img

Stockfish hátíðin óskar eftir stuttmyndum

stockfish-logo-og-BP-exteriorKvikmyndahátíðin Stockfish European Film Festival verður haldin í Bíó Paradís dagana 19. febrúar til 1. mars 2015. Að hátíðinni standa fagfélög í kvikmyndagerð á Íslandi. Hátíðin óskar eftir íslenskum stuttmyndum til þátttöku í keppninni Sprettfiskur.

Stuttmyndirnar mega vera að hámarki 30 mínútur og ekki meira en ársgamlar. Hátíðin gerir þá kröfu að myndirnar hafi ekki verið sýndar opinberlega og að þær verði frumsýndar á hátíðinni. Aðeins íslenskar stuttmyndir koma til greina.

Skilafrestur er til 19. janúar og verða fimm myndir valdar á hátíðina sem mun síðan keppa um verðlaunin Sprettfiskur 2015. Allar frekari upplýsingar á stockfishfestival.is.

Í fréttatilkynningu frá Stockfish segir:

Stockfish er hátíð kvikmyndaunnenda og byggir á grunni Kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem stofnuð var 1978. Markmið Stockfish er að sýna það besta í listrænni kvikmyndagerð í heiminum auk þess að efla samtal almennings og fagstétta um kvikmyndagerðina sjálfa. Þannig vonast aðstandendur hátíðarinnar til að styrkja íslenska kvikmyndagerð enn frekar í sessi.

Um þrjátíu kvikmyndir í fullri lengd verða sýndar á hátíðinni auk valinna verka kvikmyndagerðarmanna sem boðið verður til landsins á hina endurvöktu hátíð.

Á meðal gesta verða þekktir verðlaunaleikstjórar og aðrir alþjóðlegir kvikmyndagerðarmenn. Sérstök áhersla verður lögð á tengslamyndun íslenskra og erlendra kvikmyndagerðarmanna.

Markmiðið með hinni endurvöktu hátíð er að þjóna samfélaginu sem hún sprettur úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands.

Meðal samstarfsaðila Stockfish European Film Festival eru Reykjavíkurborg og Evrópustofa.

Hátíðin verður í samstarfi við EDDUNA – íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin en Eddan 2015 verður haldin í Silfurbergi í Hörpu laugardaginn 21. febrúar.

Í stjórn Stockfish hátíðarinnar eru:

Formaður: Friðrik Þór Friðriksson, f.h. Samtaka kvikmyndaleikstjóra
Bergstenn Björgúlfsson, f.h. Félags íslenskra kvikmyndatökustjóra
Birna Hafstein, f.h. Félags íslenskra leikara
Dögg Mósesdóttir, f.h. Samtaka kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum
Guðrún Edda Þórhannesdóttir, f.h. Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda
Sjón, f.h. Félag leikskálda og handritshöfunda

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR