spot_img

Margvísleg viðbrögð við RÚV-skýrslunni

RÚV loftmyndÝmsir hafa tjáð sig um RÚV-skýrsluna svokölluðu sem birt var í dag. Meðal þeirra sem tjá sig eru Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Mörður Árnason varaþingmaður, Egill Helgason í Silfur-dálki sínum, Orðið á götunni, ritstjórn Kjarnans og þingmennirnir Róbert Marshall og Vigdís Hauksdóttir.

Smelltu hér til að lesa viðbrögð RÚV.

RÚV ræðir við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra um skýrsluna. Illugi segir meðal annars:

„Ég er auðvitað ánægður með að fá fram þessa skýrslu og þessar upplýsingar. Ég held að þetta sé mjög gagnlegt fyrir okkur,“ segir Illugi. „Mér hefur fundist heldur lakara í umræðu um málefni Ríkisútvarpsins á undanförnum misserum að það hefur staðið deila um reksturinn og menn svona komið úr ólíkum áttum þar. Það hefur vantað sameiginlegan grunn til að ramma umræðuna inn. Nú er þessi skýrsla komin fram. Ég á alveg von á því að stjórnendur og forsvarsmenn Ríkisútvarpsins komi fram með sína skoðun á málinu. Og þegar hún kemur fram held ég að við séum með góðar upplýsingar og góðan grunn fyrir okkur til dæmis á Alþingi til þess að ræða um stöðu mála, en eins fyrir allan almenning sem greiðir fyrir þessa þjónustu.“

Í dálkinum Orðið á götunni á Eyjunni segir meðal annars:

“Engum vafa er undirorpið að taka þarf rekstur stofnunarinnar til gagngerrar endurskoðunar, þegar sýnt er fram á að skuldir hennar aukist um eina og hálfa milljón hvern einasta dag og hún hafi aukið útgjöld sín í krafti skuldasöfnunar á árunum eftir hrun þegar allar aðrar stofnanir ríkisins, þar á meðal Landspítalinn, þurftu að skera umtalsvert niður.

Raunar sýnir skýrslan glögglega að stjórnendur Ríkisútvarpsins fyrr og nú virðast líta á stofnunina sem ríki í ríkinu. Þeir kvarta yfir því að hafa þurft að taka á sig lífeyrisskuldbindingar þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag, en átta sig ekki á að ohf-væðingunni fylgdu jafnframt ýmis fríðindi sem aðrar ríkisstofnanir hafa ekki fengið, til dæmis eignarhald á húsakosti sínum og einhverri dýrustu byggingarlóð á landinu.”

Róbert Marshall þingmaður segir við Stöð 2 að það sé sláandi að fjallað sé um skýrsluna eins og hún sé samantekt óháðs fagaðila úti í bæ.

“Það finnst mér ekki vera. Mér finnst þetta vera innanbúðarmaður úr Sjálfstæðisflokknum sem tekur saman upplýsingar sem að við vissum að mörgu leyti um rekstur Ríkisútvarpsins. Skipunarbréfið fól í sér að það ætti að fara yfir skuldastöðuna en síðan breyttist það og þetta er orðið að skýrslu um skoðanir Eyþórs Arnalds á Ríkisútvarpinu að stórum hluta. Mér finnst Illugi Gunnarsson hafa farið mjög illa að ráði sínu í þessum efnum. Hann byrjaði vel með því að ráða Magnús Geir Þórðarson, það var þverpólitísk ánægja með það en þessi atburðarás, hún er ekki mér að skapi. […] Það hafa allir vitað það í mörg ár að rekstur [RÚV] hefur verið undirfjármagnaður. Það þurfti ekki starfshóp til að komast að því.”

Vigdís Hauksdóttir hefur aðra skoðun á málinu í viðtali við Stöð 2, hún segir skýrsluna góða og ítarlega.

“Fjárlagafrumvarp fyrir 2016 liggur fyrir þannig að það eru engar áætlanir um það að hækka útvarpsgjaldið enda hefur RÚV haft tvö ár til að laga rekstur sinn að útvarpsgjaldinu sem var lækkað í þrepum gegn því að við myndum skila öllu afnotagjaldinu til RÚV. Þannig að þetta er ekki neitt sem á að koma RÚV á óvart.”

Vigdís sagði ódýrt að gera pólitík úr málinu. Nú liggi staðan fyrir og hefjast verði handa strax á morgun að gera nýjan þjónustusamning í stað þess sem rennur út um áramót. Þar verði að skilgreina til hvers er ætlast af RÚV og laga fjárlagaheimildir ársins 2016 að rekstrinum.

Egill Helgason segir í Silfri Egils á Eyjunni:

Birt er ný skýrsla um Ríkisútvarpið. Umræðan er fróðleg, en sum viðmiðin eiga ekki alveg við. Eitt vandamál Ríkisútvarpsins síðustu ár er í raun hvað það er viðkvæmt, berskjaldað fyrir pólitískum öflum – það er óþolandi að RÚV þurfi á hverju ári að fara bónarveg til stjórnvalda sem það á eðli málsins samkvæmt að veita aðhald. Er minnst á það í skýrslunni?

Það er líka hætt við að skýrslan nýja magni enn upp þennan þrýsting. Sumt í skýrslunni stenst mjög illa. Það er ekki hægt að bera saman fjárhag Ríkisútvarpsins og 365 – ég hef unnið á báðum stöðum og tala af reynslu. Kröfurnar sem eru gerðar til 365 eru allt aðrar en til Ríkisútvarpsins. Rás 1 er ekki sambærileg við Bylgjuna. Sjónvarpið með alla sína innlendu dagskrárgerð og starfsemi út um allt land er eðlisólíkt Stöð 2.

Það sem er kannski einna geigvænlegast núna er sú þróun að öll fjölmiðlun komist smátt og smátt undir síma- og netfyrirtæki. Að fjölmiðlar verði undirdeildir, bara eins og skúffur, í slíkum fyrirtækjum sem ganga aðallega út á að græða á umferðinni á internetinu. Þá er hætt við að frelsi fjölmiðla fari fyrir lítið.

Kjarninn spyr hvort verið geti að stjórnendum RÚV hafi verið lofað meira svigrúmi í rekstri fyrirtækisins en tilkynnt hefur verið um opinberlega:

Í fréttatilkynningu sem RÚV sendi frá sér vegna skýrslunnar segir að mistök hafi verið gerð þegar „gamlar lífeyrssjóðsskuldbindingar ríkisins fylgja með við hlutafélagsvæðinguna. Stjórnvöld þurfa að leiðrétta þessi mistök. Gera þarf nýjan þjónustusamning sem byggir á því að útvarpsgjald lækki ekki frekar og fjármögnun sé stöðug út samningstímann“.

Þetta orðalag er athyglisvert og gefur í skyn að stjórnendur RÚV telji sig geta gert kröfu til breytinga á fjármögnun sinni sem á sér ekki stoð í fjárlögum. Var þeim mögulega lofað meira svigrúmi í rekstri fyrirtækisins en tilkynnt hefur verið um opinberlega? Ýmislegt bendir að minnsta kosti til þess.

Eftir að tilkynnt var um að staða útvarpsstjóra yrði auglýst í lok árs 2013 var Magnús Geir Þórðarson strax orðaður við stöðuna. Hann lýsti því hins vegar yfir í viðtali við Sigríði Arnardóttur á RÚV að hann ætlaði sér ekki að sækja um. Magnúsi Geir snérist þó hugur, sótti um og varð útvarpsstjóri. Ekki liggur fyrir hvað það var sem breytti afstöðu hans en það fór ekkert á milli mála á sínum tíma að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, vildi mjög fá Magnús Geir í starfið og að þrýst hafði verið á hann að sækja um.

Niðurstaða skýrslunnar sem birt var í dag er skýr: rekstur RÚV í dag er ósjálfbær og ekki í takt við þær tekjur sem fyrirtækinu er skammtað af eiganda sínum. Það þýðir að annað hvort séu stjórnendur RÚV að reka fyrirtækið á umboðslausan og óábyrgan hátt, eða einhverjir stjórnmálamenn hafa lofað þeim auknu rekstrarfé sem síðan hefur ekki verið staðið við að afhenda. Annar hvor hópurinn ber ábyrgðina.

Einhver verður að sitja uppi með heitu kartöfluna.

Mörður Árnason íslenskufræðingur og varaþingmaður segir þrennt þurfa að gerast til að Ríkisútvarpið haldi áfram að vera til næstu árin:

1)   Alþingi gefi Ríkisútvarpinu ótvíræða heimild til að selja umdeildan part af Efstaleitislóðinni. Um þetta er fyrirvari í sölusamningnum sem RÚV landaði um daginn. Heimildin þarf að koma í fjáraukalögum fyrir áramót.

2)   Ríkisútvarpið fái allt útvarpsgjaldið – nefskattinn – sem ekki hefur verið frá því eftir hrun. Þetta gjald þarf auðvitað að vera í samræmi við verðlag á hverju ári – og nú þarf þingið að breyta lögum til að það lækki ekki um áramótin næstu og þarnæstu, einsog stjórnarmeirihlutinn var búinn að ákveða.

3)   Ríkið þarf að létta af Ríkisútvarpinu drápsklyfjum af gömlum lífeyrissjóðsskuldbindingum, sem hefur fyrir löngu verið létt af öllum öðrum ríkisstofnunum (nema ÁTVR?) og meira að segja nýverið af heilbrigðisstofnunum sem ríkið á ekkert í (Hrafnistu o.s.frv.). Allir menntamálaráðherrar – a.m.k. frá 2003 þegar ég byrjaði að spyrja um lífeyrisskuldina á þinginu – hafa viðurkennt að fyrr eða síðar verði að bæta hér úr.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR