Ísold Uggadóttir: Þegar kona er gott stöff

Ísold Uggadóttir (mynd: Bára Huld Beck/Kjarninn).

Auður Jónsdóttir rithöfundur ræðir við Ísoldu Uggadóttur kvikmyndaleikstjóra í Kjarnanum um Andið eðlilega og hlutskipti kvikmyndagerðarmannsins.

Brot úr viðtalinu:

Að búa til kvikmynd tekur mörg ár; margslungið og flókið ferlið reynir á ólíka eiginleika í leikstjóra sem þarf selja ímynd sína fjárfestum, vinna með framleiðendum að fjármögnun, huga að óteljandi tæknilegum atriðum, útfæra margþætta skipulagsvinnu og síðast en ekki síst huga að öllu því listræna sem til þarf svo myndin verði ómaksins virði. En hvernig lífsryþmi fylgir slíku starfi?

„Að einhverju leyti öfunda ég fólk sem á sér venjulegt líf; mætir í vinnuna, veit hvenær það er búið og hvenær launaseðillinn berst,“ viðurkennir Ísold og brosir út í annað þegar hún segist stundum vilja vera ein af þeim því þá væri allt miklu einfaldara. „En ég veit líka að þannig yrði ég ekki í rónni. Ég finn sögurnar koma til mín og mig langar að segja frá hlutum. Oft hlutum sem mér finnast óréttlátir eða grátbroslegir. Þannig hefur mér liðið síðan ég var unglingur.

Vinkonur mínar þekkja vel að það megi varla neitt gerast án þess að ég sjái í honum bíósenu. Ég sé allt í bíósenum og hef lengi upplifað mig eins og ég sé karakter í bíómynd.“

Getur reynst flókið að greina á milli sjálfsins og sköpunarhugsunar þess?

„Ég hef upplifað að vera í rifrildi eða persónulegum dramatískum aðstæðum og hugsa á sama tíma: Þetta er frábær bíósena! Þetta rennur svolítið saman. Lífið – og að sjá tragíkómíkina í því. Lífið er jú einhvers konar tragíkómedía! Og allt verður fyndnara á pappír. Þá nær maður að horfa á atburð frá öðrum vinkli en meðan maður lifir hann svo það sem hefur flækst fyrir manni eða verið strembið getur orðið fyndið og skemmtilega fáránlegt.“

Andið eðlilega er raunsæiskvikmynd, bæði innihald og úthugsuð myndrænan, en samt loðir við atburðarásina smá leikur að farsa og þannig er áhorfandinn minntur á ævintýrið í lífinu – eins ofur hrátt og kalt og það getur orðið. Eins og leikstjórinn vilji ekki að það gleymist. Kannski áminning um áðurnefnda tragíkómík?

Ísold samsinnir þessu en segir marga hafa sagt myndina vera mikinn harmleik.

„En ég reyni að minna á hitt. Spyr jafnvel: Finnst þér þessi sena ekki fyndin? Sjálf hef ég til dæmis oft lent í því að kortinu mínu sé hafnað og íslenska einstæða móðirin lendir í því en afþakkar að það sé borgað fyrir sig og auðvitað er það sorglegt en í þessum aðstæðum leynist samt húmor.“

Hún segist stundum vera hrædd um að verkin verði of væmin: „Ég geri mér far um að krydda þau með smá svörtum húmorískum undirtóni til að koma í veg fyrir að þau verði of melankólísk. Háalvarlegar aðstæður geta oft verið fyndnar. Stundum held ég mig vera að gera kómískar senur en fólk skynjar þær á annan hátt. Auðvitað kemst maður ekki hjá því að nota stundum sitt eigið líf í senur og þá getur það gerst að sumum finnst eitthvað hræðilegt sem mér finnst í aðra röndina kómískt. Þá er ég aðallega að tala um okkur sem manneskjur, hvernig við eigum það til að flækja eigið líf með stoltinu sem stundum þvælist fyrir og gerir líf okkar jafnvel flóknara en ella.“

Hvernig fólk skynjar hugverk á ólíkan hátt er nokkuð sem rithöfundur þekkir á sama hátt og viðmælandinn. Listaverk er í jafn mörgum útgáfum og fólkið sem upplifir það. En rithöfundur þekkir líka kaótíska dagskipanina sem fylgir því að skipuleggja tilveruna eftir verkum í vinnslu svo talið berst aftur að lífsryþma leikstjórans.

„Ég held að ég sé alltaf að leita að andlega plássinu mínu til að fá að segja þessar sögur sem mig langar að segja,“ segir Ísold og líkir því við það hvernig sumir þurfi að taka vel til heima hjá sér til að geta unnið. Henni finnist oft að hún þurfi að hreinsa af do-listanum sínum til að eiga það inni hjá sér að skrifa.

„Tölvupóstar, fundir, amstur í kringum skipulagningu,“ þylur hún upp og meira til. „Stundum staldra ég við og átta mig á því að ég þyrfti að bera meiri virðingu fyrir skrifunum. Svo daglegt amstrið stoppi þær ekki. Eins og staðan er þarf ég að taka allskonar verkefni að mér til að hafa efni á að skapa verkin mín. Og þar komum við að stóru áskoruninni. Ég get ekki skapað neitt af viti akkúrat milli eitt og fjögur eða átta og tólf. Ég þarf margar vikur í friði frá áreiti – og þá fara hlutir að gerast,“ útskýrir hún en bætir við að vissulega gerist margt í undirmeðvitundinni sem sé sístarfandi.

„Maður er vissulega að skapa á milli verkefna og í öllu amstrinu. Það má ekki vanmeta hugann sem vinnur miklu meira en maður gefur honum kredit fyrir.“

Og ennfremur:

Nú er margt að gerast í íslenskri kvikmyndagerð – en hverju finnst þér vera ábótavant?

„Erfiðast fyrir okkur öll er að byrja á nýju verki af því að stuðningurinn á þessu þróunar- og handritastigi er svo takmarkaður,“ segir Ísold og augsýnilegt að umræðuefnið kveikir í henni, nýkominni af fundi þar sem rætt hafði verið um þetta.

„Sumum okkar finnst mikilvægt að eiga kost á starfslaunum listamanna á milli verkefna, á upphafsstigum nýrra verka. Hjá Kvikmyndasjóði eru til ýmsir handritastyrkir en ferlið þar er ekki heppilegt. Þegar ný verk mótast eru þau viðkvæm og geta farið ýmsar áttir. Þá er svo mikilvægt að geta verið í friði í nokkra mánuði og jafnvel ár, til að útfæra og vinna, og geta verið með tryggð starfslaun í þann tíma sem verkið er að mótast, segir hún og bendir á að eins og kerfið sé nú uppbyggt þurfi handritshöfundar sækja um í hvert skipti sem þeir hyggist fara lengra með hugmynd sína.

Þá fer í hönd biðtími og óvissa um hvort laun muni raunverulega berast. Þetta heftir listræna vinnu höfundar og við finnum okkur knúin til að hætta skrifum og sækja um hefðbundna launaða vinnu, ósjaldan verkefni sem hafa ekkert með sköpun að gera. Þróunarferli kvikmynda almennt er eitthvert mikilvægasta ferlið í undirbúningi kvikmyndar, en þar skortir verulega stuðning, að mínu mati.“

Hvort myndirðu vilja búa hér á landi að búa til myndir eða í Bandaríkjunum að búa til myndir ef þér gæfist kostur á hvoru tveggja?

„Ég myndi vilja búa og búa til myndir hér á landi og finna einhvern sem er til í að borga fyrir allt saman,“ svarar hún og hlær temmilega alvarleg. „Ég hef ekki sérstakan áhuga á að gera myndir á ensku. Frekar vil ég gera myndir á mínu eigin tungumáli því það er mér tamara. Þó að ég hafi búið svona lengi í enskumælandi landi, bæði sem barn og fullorðin, þá næ ég sérstakri tengingu í gegnum íslensku. Ef ég myndi skrifa sögu á ensku um barn sem missir samband við foreldra sína þá er þarna ákveðinn veggur upp á skynjunina og blæbrigðin að gera. Eins og sagan verði ekki eins sönn, ég geti sagt sannari sögu á íslensku. Mér finnst ég vera næmari á allt í gegnum íslenskuna.“

Hún segist örugglega geta lifað þægilegra lífi með því að segja já við eitthvað af þessum erlendu aðilum sem hafa falast eftir henni, eins og fólkið sem hún sé nú að fara að hitta í Ameríku í vikunni. „En mér finnst mér bera hálfgerð skylda til að segja sögur á íslensku af Íslendingum sem ég skil og þekki frekar en að taka tilboði einhvers um að segja þær á ensku, þó að það sé betur borgað. Því þá finnst mér ég ekki endilega vera að segja sögur sem skipta mig máli. Sumir vilja að við gerum myndir á ensku því staðreyndin er sú að þær fá miklu meiri dreifingu. En ég spyr: Viljum við ekki segja sögur af Íslendingum á íslensku – skrifaðar af fólki sem þekkir og skilur samfélagið?“

Sjá nánar hér: Þegar kona er gott stöff

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR