“The Valhalla Murders” og “Hvítur, hvítur dagur” fá stuðning frá Norræna sjóðnum

Þáttaröðin The Valhalla Murders í leikstjórn Þórðar Pálssonar og bíómyndin Hvítur, hvítur dagur í leikstjórn Hlyns Pálmasonar fengu styrkveitingu frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum á dögunum. Tökur á báðum verkum eru fyrirhugaðar í haust.

Þáttaröðin The Valhalla Murders er framleidd af Truenorth og Mystery fyrir RÚV og hlaut tæpar 33 milljónir króna í styrk. Þættirnir verða átta talsins og er áætlað að þeir verði frumsýndir haustið 2019. Margrét Örnólfsdóttir og Óttar M. Norðfjörð skrifa handrit. DR Sales fer með sölu á heimsvísu.

Klapptré fjallar um þáttaröðina meðal annars hér.

Hvítur, hvítur dagur er framleidd af Anton Mána Svanssyni hjá Join Motion Pictures, en verkefnið hlaut um 23,5 milljónir í styrk frá Norræna sjóðnum. Verkinu er svo lýst:

Ábyrgur faðir, ekkill og lögreglustjóri lítils sjávarþorps hefur verið frá starfi síðan eiginkona hans hvarf fyrir tveimur árum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og fjölskyldu þar til hann byrjar að gruna mann í þorpinu um að tengjast hvarfi konu hans. Með tímanum breytist grunur hans í þráhyggju sem óhjákvæmilega bitnar á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um hefnd, sorg og skilyrðislausa ást.

Bæði verkefnin njóta ennfremur stuðnings Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Sjá nánar hér: One feature, two TV series, two docs receive funding

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR