THE DAMNED eftir Þórð Pálsson frumsýnd á Tribeca hátíðinni í júní

The Damned eftir Þórð Pálsson verður frumsýnd á Tribeca hátíðinni í New York sem fram fer dagana 5.-16. júní.

Myndin var tekin upp hér á landi í fyrra, líkt og Klapptré skýrði frá.

Segir á vef Kvikmyndamiðstöðvar:

The Damned er sálfræðileg hryllingsmynd sem gerist á 19. öld á Vestfjörðum og segir frá Evu, ekkju og erfingja afskekktar verbúðar. Þegar erlent seglskip strandar í firðinum stendur Eva frammi fyrir erfiðu vali: eiga hún og vinnumenn hennar að koma til bjargar eða forgangsraða frekar eigin velferð. Þjökuð af samviskubiti og vaxandi ótta um ómanneskjulega hefnd, takast Eva og vinnumenn hennar á við afleiðingar gjörða sinna.

Veturnir á Íslandi voru erfðir og fátækt mikil, en er hægt að réttlæta athafnir í nafni eigin velferðar?

Þórður segir hugmyndina að sögunni megi rekja til draugasagna sem hann heyrði á uppvaxtarárum, um það hvernig heimamenn reyndu viljandi að láta skip reka á land. Síðan var allt hirt sem hægt var og passað upp á, að enginn lifði af til að segja frá.

„Draugur getur verið andi en einnig hræðilega vera, rotnandi líkami sem leitar þig uppi í myrkrinu. Svona sögur sátu í mér sem krakki og varð uppsprettan að The Damned,“ segir Þórður.

Myndin var tekin upp á Vestfjörðum í vetur. Ósvör í Bolungarvík var endurlífgað og lítið kvikmyndaver sett upp á Ísafirði. Meðframleiðandi myndarinnar, Guðmundur Arnar Guðmundsson, segir endurgreiðslukerfi menningar- og viðskiptaráðuneytisins hafa skipt sköpun og stuðningur Vestfirðinga og þá sérstaklega bæjarstjórar Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar hafa verið ómetanlegan. Íslendingar eru í flestum lykilstörfum The Damned þrátt fyrir að leikarahópurinn sé erlendur að frátöldum Andreas Sigurðssonar listdansara og meðlimi Hatara.

The Damned er framleidd af Elation og Wild Atlantic og meðframleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu Join Motion Pictures. Protagonist sér um alþjóðlega dreifingu myndarinnar og geta Íslendingar átt von á að hún verði sýnd í kvikmyndahúsum landsins með haustinu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR