Magnús Geir um RÚV-skýrsluna: Svarthvít samantekt 

magnusgeirRÚV hefur birt viðbrögð við RÚV-skýrslunni á vef sínum. Þar segir meðal annars að skýrslan staðfesti að RÚV ohf. hafi verið undirfjármagnað frá stofnun eins og stjórnendur RÚV hafi ítrekað bent á. Skýrslan sýni einnig að jákvæður viðsnúningur hafi orðið í rekstrinum á undanförnum átján mánuðum.

Smelltu hér til að lesa samantekt á þróun fjárhags RÚV frá 2007 til 2015.

Magnús Geir Þórðarson útvarpstjóri segir:

„Það má eiginlega segja að þessi samantekt um fortíðina sé svarthvít. Hún er svört að því leyti að hún staðfestir það sem við höfum sagt um fortíðarvandann og skuldabaggann. Hún er hvít að því leyti að hún sýnir að lyft hefur verið grettistaki í að snúa rekstrinum við. Í skýrslunni kemur fram að á tímabilinu hafa rekstrargjöld RÚV lækkað um 11%. Fyrri stjórnendur gerðu vel í því að verja þjónustuna og öfluga dagskrá þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Við sem tókum við 2014 höfum svo enn frekar skorið niður yfirbyggingu fyrirtækisins og náð að efla dagskrána á sama tíma. Við leigðum út hluta útvarpshússins og seldum byggingarétt á lóðinni sem mun skila mestu skuldalækkun í sögu félagsins. Stjórnvöld þurfa hins vegar að leiðrétta mistök frá hlutafélagsvæðingunni og ráðamenn að standa við yfirlýsingar sínar um að útvarpsgjald verði ekki lækkað frekar. Ég er þess fullviss að við getum haldið áfram að reka fyrirtækið á sem allra hagvæmastan hátt, og styrkt enn frekar gæði og sérstöðu dagskrárinnar í samvinnu og þjónustu við almenning.“

Helstu punktar í fréttatilkynningu RÚV eru eftirfarandi:

  • Ríkið hefur ekki skilað útvarpsgjaldi sem er lagt á almenning að upphæð nær 2,7 milljarða að raunvirði.
  • Gamlar lífeyrissjóðsskuldbindingar, yfirskuldsetning og háskerpuvæðing þyngja reksturinn.
  • Rekstrarútgjöld RÚV frá 2007 hafa lækkað um 11% þrátt fyrir aukna þjónustu.
  • Staðfestir mikinn viðsnúning í rekstrinum frá 2014
  • Mesta skuldalækkun í sögu félagins verður vegna tekna af sölu byggingaréttar á lóð í Efstaleiti.
  • Nefndin mælir með að eignarhluturinn í RÚV færist frá ráðuneyti menntamála.

Fréttatilkynningin er að öðru leyti svohljóðandi:

Samantekt á vinnu nefndar undir formennsku Eyþórs Arnalds sem kynnt er í dag staðfestir að RÚV ohf. hefur verið undirfjármagnað frá stofnun árið 2007. Skuldsetning félagsins hefur frá 2007 verið allt of mikil og þetta hafa stjórnendur og stjórnir RÚV sagt lengi. Þetta var einnig staðfest í sjálfstæðri úttekt PWC árið 2014. Mistök voru gerð við að láta gamlar lífeyrssjóðsskuldbindingar ríkisins fylgja með við hlutafélagsvæðinguna.

Stjórnvöld þurfa að leiðrétta þessi mistök. Gera þarf nýjan þjónustusamning sem byggir á því að útvarpsgjald lækki ekki frekar og fjármögnun sé stöðug út samningstímann. Menntamálaráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji ekki frekari lækkun útvarpsgjalds.

Samantektin staðfestir að jákvæður viðsnúningur hefur orðið í rekstrinum á undanförnum átján mánuðum. Nýgerður samningur um sölu byggingarréttar við Efstaleiti mun leiða til mestu lækkunar skulda í sögu félagsins.

Staðfest er að ríkið hefur frá stofnun RÚV ohf. haldið eftir 2.677 mkr. af þvi útvarpsgjaldi sem lagt er á almenning. Í skýrslunni er fjallað um þær miklu aðhaldsaðgerðir sem RÚV hefur ráðist í frá 2007 og að rekstrargjöld RÚV hafi lækkað um 11%.

Einnig kemur einnig fram að Útvarpshúsið við Efstaleiti sé of stórt. Ríkisútvarpið lét kanna hvert söluvirði eignarinnar gæti verið sem og hver kostnaður við flutning og uppbyggingu nýs húsnæðis undir starfsemina væri. Niðurstaðan varð sú að kostnaður við flutninga væri slíkur að takmarkaður hagnaður yrði af sölu eignarinnar, ef nokkur. Því var farin sú leið að leigja stóran hluta af húsnæðinu út og var gerður langtíma leigusamningur við Reykjavíkuborg sem gefur góðar tekjur.

Einnig staðfestir samantektin að kostnaður við dreifingu hefur aukist. Samningur milli RÚV og Vodafone frá árinu 2013 um nýtt háskerpu-dreifikerfi er dýr og skuldbindingin í honum er mikil. Samningurinn var gerður eftir opið útboð á EES-svæðinu.

Í skýrslunni kemur fram að heildartekjur RÚV eru aðeins lítið brot af systurstöðvum á Norðurlöndum og Bretlandi. Í skýrslunni kemur einnig fram að opinber framlög per íbúa eru lægst á Íslandi af Norðurlöndunum.

Nefndin mælir með að eignarhluturinn í RÚV færist frá ráðuneyti menntamála til fjármála.

RÚV gerir athugasemdir við ýmis atriði í skýrslunni. Nefna má þann tölulega samanburð sem nefndin gerir á milli RÚV og 365. Margoft hefur komið fram að slíkur samanburður er illmögulegur vegna ólíks eðlis almannaþjónustumiðla og einkamiðla. Þá er í skýrslunni stuðst við óopinberar og óstaðfestar tölur úr rekstri einkafyrirtækis í samkeppnisrekstri. Ef styðjast ætti við upplýsingar úr rekstri 365, gefnar upp af stjórnendum þess fyrirtækis, þá þyrfti að vera hægt sannreyna þær tölur með gegnsæjum hætti.

Sjá hér: Svarthvít samantekt | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR