spot_img

Northern Wave hátíðin haldin um helgina

NW_2015_PosterAlþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í áttunda sinn helgina 16.-18. október næstkomandi í Grundarfirði.
Áður en að hátíðin hefst koma um 30 kvikmyndagerðarmenn til Grundarfjarðar til að vera viðstaddir vinnusmiðju sem WIFT (Women in Film and Television) á Norðurlöndunum býður upp á og kallast Surviving the rabbit hole en þar fá nemendur fræðslu í formi fyrirlestra og ráðgjöf fyrir komandi verkefni.
Hátíðin fer að mestu fram í Samkomuhúsi Grundarfjarðar þar sem alþjóðlegar stuttmyndir eru sýndar föstudag og laugardag en á sunnudeginum eru sýndar íslenskar stuttmyndir en þá fer verðlaunaafhendingin einnig fram.
Á föstudagskvöldinu eru íslensk tónlistarmyndbönd sýnd á veitingarstaðnum Rúben og áhorfendur kjósa um besta tónlistarmyndbandið. Í kjölfarið stígur Sesar A á stokk og opnar fyrir kareokí sem mun standa fram á nótt.
Á laugardeginum  mun Baldvin Z kvikmyndaleikstjóri leiða áhorfendur í gegnum reynslu sína af kvikmyndagerð og sýnd verða brot úr verkum (t.d. Óróa og Vonarstræti) og gerð myndana rædd. Baldvin er hluti af dómnefnd Northern Wave ásamt Ísold Uggadóttur og Iris Brey sem velur inn stuttmyndir á Critics week á Cannes hátíðinni.
Hátíðinni lýkur svo á laugardagskvöldið en þá fer fram fiskréttakeppnin vinsæla sem er jafnframt lokahóf Rökkurdaga,  menningardaga Grundarfjarðar. Allir geta tekið þátt í fiskréttakeppninni en skráning fer fram hér.
Dagskrána má skoða hér.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR